24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Ráðherrann (H. H.):

Það er öldungis bersýnilegt að hv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) hefir ekki kynt sér, hvernig ferðakostnaðurinn er reiknaður út.

Honum þótti ferðakostnaðurinn úr S.-Múlas. vera áætlaður of hátt, en hann verður að gæta að því, að það verður að reikna ferðina til skips og frá skipi oftar en tvisvar. Það verður að reikna hana fjórum sinnum eins og eg gat um áðan, og nefndarálit Ed. sýnir. Hann sagði að það þyrfti 3 daga til að komast til skips, fram og til baka, og eg veit að hann segir ekki of mikið. Það eru þá 6 dagar til þings og frá þingi, 4 hestar á 2 kr. um daginn — og er það reyndar minna en hægt er að fá þá fyrir — fylgdarmanns kaup 4 kr. á dag og svo þessar 2 kr. í aukaútgjöld.

Þegar þingm. athugar þetta, býst eg við að hann sjái að þingfararkaupið í S.-Múlas er ekki sett hærra í frv., en hann sjálfur játar að þurfi, og ekkert tekið fyrir fæði á skipinu né í landferðum.

Þegar litið er á ferðakostnaðinn úr Austur-Skaftafellssýslu, þá virðist mér alls ekki of mikið í lagt, sérstaklega ef þingmaðurinn þarf að fara til Eskifj. Og þegar þessar 342 kr. sem nú eru áætlaðar, eru bornar saman við ferðakostnað þaðan til fyrri þinga, þá sést að þetta er til mikils sparnaðar. 1909 var ferðakostnaðarreikningur þingmannsins úr Austur-Skaftafellssýslu 584 kr. og 1911 var hann 606 kr. Þetta eru auðvitað vetrarferðir, en líti maður til fyrri sumarferða, þá er ferðakostnaðurinn líka hærri en hér er áætlað. Þegar þingmaðurinn fór frá Borgum á sumardag, árin 1901 og 1903 var ferðakostnaðurinn 426 kr. annað árið og 412 kr. hitt árið. Það er svo fjarri því að ferðakostnaður sé reiknaður hærra en áður hefir tíðkast að hann er þvert á móti áætlaður mun lægra.

Að því er snertir mótbárurnar móti ferðakostnaðinum úr Gullbr. og Kjósarsýslu, þá eru þær rétt eins og þær séu gerðar að gamni sínu. Hv. þm. N-Þing. (B. Sv.) veit þó að maður verður að borga fult dagkaup fyrir hest hér syðra, þó hann sé ekki brúkaður nema part úr degi. Þennan ferðakostnað er ekki hægt að áætla lægra heldur en nefndin hefir gert.

Eg held yfirleitt að það sé ekki kostur á að fá þetta frv. betur undirbúið heldur en það nú er. Stjórnin mundi ekki geta fengið betri upplýsingar til að fara eftir heldur en þær, sem lágu fyrir nefndinni í Ed., þó að málinu væri til hennar vísað.