24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Valtýr Guðmundsson:

Það er aðeins athugasemd við það sem háttv. þm. Dal (B. J.) sagði. Hann hamaðist eins og háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) út af því að ferðakostnaðurinn er reiknaður lægra en áður hefir tíðkast. En það ætti einmitt að vera meðmæli með frv. (Bjarni Jónsson: Það er ósvífni við þm. Seyðfirðinga). Það er ekki hægt að saka þingmenn fyrir það að þeir hafi reiknað of hátt, því að þingið hefir sjálft úrskurðað reikninga þeirra. Hann tók t. d. að danski þingmaðurinn — og hefir víst átt við mig — hefði tekið 310 kr. í ferðakostnað 1909. En hann gætti þess ekki að það var vetrarferð hringinn í kring um landið og fæðispeningar reiknaðir með á skipinu eins og tíðkanlegt er. Við það verður reikningurinn töluvert hærri. Þessi ferðakostnaðaráætlun er miklu lægri, heldur en áður hefir átt sér stað, en það er ætlast til að það sé jafnað upp með því að hækka dagpeningana.

Viðvíkjandi því, sem talað hefir verið um að ferðakostnaður úr Gullbringu- og Kjósarsýslu sé áætlaður hærri en nauðsynlegt sé, skal eg taka það fram, að eg þekki dæmi til þess að menn hafa orðið að borga 10 kr. fyrir vagn til að komast á í dómkirkjuna. Ef miðað er við þetta, þá er 20 kr. heldur lítið gjald fyrir vagnlán frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. (Benedikt Sveinsson: Þá yrði danski þingmaðurinn nokkuð dýr).

Mér finst full sanngirni mæla með því að þetta frv. verði samþykt. Það verður ekki dýrara fyrir landssjóðinn.