24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Þorleifur Jónsson:

Eg held að ekki sé hægt að neita því að í raun og veru sé þörf á að hækka dagpeninga þingmanna. Eins og tekið hefir verið fram í umræðunum, er kaup fyrir þingsetu bygt á gamalli venju, en síðan hefir alt hækkað svo í verði, að mér þykir sennilegt, að nú sé naumast unt að fá það fyrir 10 kr., sem þá kostaði 6 kr.

En þess ber að gæta, að þetta er alment álitið meðal þjóðarinnar nægileg laun, og þegar miðað er við hina neyðarlega litlu þóknun, sem alþýðumenn upp til sveita fá fyrir margvísleg störf, sem á þá hlaðast, og sem þeir jafn vel oft verða að leysa af hendi borgunarlaust, þá er ekki furða, þó þeir áliti 6 kr. á dag nægileg laun, sérstaklega þegar eftirsókn eftir þessum starfa er eins mikil eins og nú er.

Eg greiddi atkvæði á móti þessu frv. við 2. umr., án þess að gera þá grein fyrir skoðun minni.

Þótt eg álíti í sjálfu sér, að hinir núverandi dagpeningar séu heldur lágir, álít eg ekki viðeigandi á þessu aukaþingi að fara að hespa málið af. Þessi háttv. deild hefir lítið getað athugað það, og álít eg því rétt að málið bíði um sinn.

En eg ætlaði mér aðallega að minnast á ferðakostnaðarreikningana. Því hefir verið slengt fram í um umræðunum, að ferðakostnaðarreikningar úr Austur-Skaftafellssýslu, og þar á meðal reikningar mínir, hafi verið nokkuð háir. Eg skal alls ekki neita því, og mér hefir jafn vel sjálfum ofboðið, hvað þeir hafa orðið háir, og get eg þó ekki sagt að eg hafi spunnið silki á þeim. En það verður að taka tillit til þess, að vetrarferðir hér á landi eru mjög dýrar, ekki sízt þar um slóðir, þar sem yfir stór vötn og eyðisanda er að fara. Þegar einn kýrmeis af heyi kostar 60 aura og borga verður aukafylgdarmanni með 2 hesta 10 kr. á dag, þá sjá allir að nær hálfs mánaðar ferð á aðra leið, með marga hesta, getur kostað nokkuð. Austur um sýslur eru strandfylgdir vel borgaðar og töluverð eftirsókn eftir þeim, og af því leiðir að alt hækkar í verði. Eg verð því að álíta að eg hafi ekki sett reikninga mína of hátt. Það er mikill munur hvort miðað er við sumarferðir eða vetrarferðir.

Um ferðakostnaðaráætlun frumvarpsins úr Austur-Skaftafellsýslu skal eg geta þess, að mér þykir hún of há, þegar miðað er við ferðir með strandferða bát af Hornafliði eða Djúpavogi. En ef á að taka strandferðir af, eða þær leggjast niður, og fara verður landveg til Eskifjarðar og þaðan norðan um land til Reykjavíkur, eins og háttv. Ed. hefir gert ráð fyrir, þá mun þetta nær sanni. En ef farið væri af Djúpavogi með strandferðabát, er þetta nær 200 kr. of hátt samkvæmt reikningi mínum nú, sem er 150 kr.

Eg álít í raun og veru þörf á að hækka dagpeninga þingmanna og ákveða fastan ferðakostnað, en mér finst ekkert liggja á því, og er á móti því að það gangi fram á þessu þingi.

Viðvíkjandi því sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að vagn til Hafnarfjarðar kostaði 5 kr.. skal eg geta þess að eg hefi fengið vagn til að fara á til Hafnarfjarðar í kvöld, og var mér sagt að kostaði eiginlega 15 kr., en eg gat þó fengið hann fyrir 10 kr.