24.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Einar Jónsson:

Það eru að eins fáein atriði, sem eg vildi taka fram út af umræðunum.

Eins og þingmenn muna, var eg hlyntur þessu frv. við síðustu umr. og er það enn.

Eg vil geta þess, að það er ekki rétt sem háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) hafði eftir mér, að það væri kostnaðarminna fyrir utanbæjarmenn að sitja á þingi. Það sagði eg ekki, en eg sagði að mönnum hér í Reykjavík væri ekki borgað fyrir þingmálafundaferðir út um landið, sem þeim væri þó auðvitað nauðsynlegar jafnt og þeim, sem heima ættu í sínum eigin kjördæmum.

En til að fara nú fljótt yfir sögu, ætla eg að minnast á misskilning þeirra manna, sem eru að tala um að ferðakostnaður sé of hátt áætlaður úr Gullbringu- og Kjósarsýslu. Það er alveg rangt hjá þeim, að miða við Hafnarfjörð eða Garða. Þeir staðir eru ekki fastir heimilisbústaðir þingmanna kjördæmisins. Þingmennirnir gætu alveg eins átt heima í Grindavík eða Höfnum. (Benedikt Sveinsson: Eða í Skildinganesi). Já, eða upp í Kjós, og ef þeir ættu heima á enda sýslunnar, þá er þessi ferðakostnaðaráætlun sannarlega ekki of há.

Það er vilji kjósendanna að fulltrúarnir reynist sem bezt, en ekki hitt, að þeir hafi ekki nóg að bíta og brenna, það geta menn reitt sig á. En eg get fært rök að því að nú skaðast flestir aðkomumenn á þingsetunni. Það hefir verið tekið fram, að þessi áætlun væri fyrverandi þingmönnum til ósóma, ef því væri nú breytt, þar sem þeir hafi oft gefið miklu hærri reikningi yfir ferðakostnað sinn heldur en hér er gert. En eg get alls ekki séð, að það sé til ósóma þeim, sem áður hafa verið þingmenn. Ferðareikningar hafa reyndar hjá allmörgum verið óþarflega háir, það skal eg játa, en ástæðan er sú, að fæðispeningarnir eru of litlir. Það er búið að marg taka það fram, sem allir vita, að vetrarferðalög eru svo miklu dýrari heldur en sumarferðir, að þar kemst enginn samjöfnuður að, og er því villandi að bera það saman.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) talaði um, að þingmenn ættu ekki að vilja vita vamm sitt. Það er ekkert vamm, þó maður fari fram á sanngjarna borgun fyrir starf sitt. Eg veit að kjósendur í Rangárvallasýslu ætlast ekki til að þingmenn þeirra skaðist á þingsetunni, og svo mun víðar vera. Yfirleitt held eg því að ekki sé ástæða til að vera hræddur um að kjósendur taki þessu nýmæli illa. Það er ekki eðlilegt, að nokkur maður vilji taka að sér starfa til að skaðast á. Menn eru ekki alment svo efnum búnir að þeir megi við því.