15.07.1912
Sameinað þing: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

Fyrsti fundur í sþ.

Guðlaugur Guðmundsson (framsögum. 2. kjörbrjefadeildar):

Deildin hefur haft til meðferðar 13 kjörbrjef úr fyrstu deild og við 11 þeirra hefir hún ekkert að athuga, enda hafa engar kærur komið fram um þau, en um tvö þeirra hafa kærur komið fram.

Úr Barðastrandarsýslu hefir komið kæra út af því, að undirbúningnum hafi verið áfátt, sjerstaklega umbúðunum, þegar seðlarnir komu frá undirkjörstjórnunum til yfirkjörstjórnarinnar, úr 3 hreppum.

Í fyrsta lagi var lykillinn úr Rauðasandshreppi ekki í hinum lögskipuðu umbúðum. Í öðru lagi var innsiglið á pokanum í öðrum hreppi 4 cm. frá opinu, svo að hægt var að fara í pokann án þess að skemma lökkin, og í þriðja lagi var áfátt umbúðunum í Flateyrarhreppi.

Í þessum þremur hreppum, þar sem gallar eru taldir, eru samtals greidd 112 atkv., en atkvæðamismunur var svo mikill í kjördæminu, að þó þau gangi frá, þá hefir hinn kjörni þingmaður fleiri atkvæði, en hitt þingmannsefnið. Þess vegna leggur deildin einróma til, að kosningin sje tekin gild.

Hins vegar væri það æskilegt, að yfirkjörstjórnin gegnum stjórnarráðið væri beðin að áminna undirkjörstjórnirnar um að vanda betur kosningaundirbúninginn en hjer varð raun á, svo slíkt komi eigi oftar fyrir.

Þar næst er kosningin í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Yfir henni kæra bæði þingmannsefnið og 172 kjósendur, en tala allra kjósenda þar í kjördæminu er ókunn.

Aðalatriði kærunnar er það, að meiri hluti kjörstjórnarinnar úrskurðaði nokkra atkvæðaseðla ógilda, vegna þess að þeir væru margbrotnir, tvíbrotnir og krossbrotnir. Um þetta ber kjörstjórnin fyrir sig 35. gr. kosningalaganna, en aftur telja aðrir hjer um enga ógildingarsök að ræða.

Spurningin er því: Er það ónýtingarsök á kjörseðli, ef mótmælt er, að hann er brotinn oftar en einu sinni?

Um þetta liggja fyrir ýms skjöl, ef menn vilja kynna sjer málið, og meiri hluti kjörbrjefadeildarinnar leggur til, að kosningunni sje frestað, og vísað til kjörbrjefanefndar á venjulegan hátt. Jeg skal geta þess, að jeg er ekki í þessum meiri hluta deildarinnar.