15.07.1912
Sameinað þing: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

Fyrsti fundur í sþ.

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Jeg er á alveg gagnstæðu máli við háttv. þm. Barðstrendinga. Jeg hef setið á 9 þingum og kynt mjer flestar kærur á öðrum þingum en þeim, og sjeð og heyrt margar kærur yfir þingkosningum, en enga, að jeg hygg, jafn-gersamlega ástœðulausa og þessa. Hjer er kært yfir því, að kjörstjórnin hefur nákvæmlega hlýtt fyrirskipunum laganna. Jeg get ekki sjeð, að mál þetta eigi nokkurt erindi í nefnd — mjer skilst sem annað liggi hjer ei fyrir, en að úrskurða kosningu h. þm. V.-Ísf. gilda. Kosningalögin segja svo skýrt og ótvírætt fyrir í þessu efni, að þar er ekki um að villast. Í lögunum stendur: „Síðan brýtur kjósandi seðilinn einu sinni saman“ o. s. frv. Jeg veit ekki hvað er skýrt og ótvírætt, ef þetta fyrirmæli er það ekki. H. þm. vildi einnig halda því fram, að 38. gr. bæri það með sjer, að kosningin væri ógild, vegna þess, að sú grein teldi upp allar ógildingarástæður á kjörseðli, en þar væri þess hvergi getið sem ógildingarástæðu, að kjörseðillinn væri meira en einbrotinn. Þetta er ekki rjett skýrt frá hjá virðulegum sessunaut mínum. 38. gr. tekur það einmitt fram, að seðillinn verði ógildur, ef á honum sjeu „önnur slík einkenni, og fyr eru nefnd og „gert geti seðilinn þekkjanlegan frá hinum seðlunum.“ Jeg veit satt að segja ekki, hvernig hægara er að gera seðilinn þekkjanlegan, en með því að margbrjóta hann. Kjörstjórnin hefur því nákvœmlega fylgt bókstaf laganna, og er rangt að liggja henni á hálsi fyrir það. Hjer eru 25 kjörseðlar, sem eru ólöglega brotnir. Það má satt vera, að það geti viðgengizt, og hafi ef til vill einhvern tíma komið fyrir, að seðlar hafi verið teknir gildir, þótt margbrotnir væru — en það hefur þá að eins verið sakir þess, að þingmannaefnin hafa verið ásátt um, að taka það ekki til greina, og enginn hefur kært yfir því. Það er því þessu máli alveg óviðkomandi. H. sessunautur minn fór, að mínu áliti, mjög svo röngum og ómaklegum orðum um hinn nýkosna þingmann. Hann kvað hann hafa hagnýtt sjer stöðu sína sem kjörstjóri til þess að koma sjálfum sjer að. Þetta er ekki rjett. Hinn nýkosni þingmaður hefur ekki gert annað en að fylgja lagabókstafnum nákvæmlega, eins og honum bar sem kjörstjóra, og verður honum eigi legið á hálsi fyrir það. Að brigsla honum um það, að hann sitji i kjörstjórn, þótt hann sje frambjóðandi, er heldur ekki rjett. Það er hvergi boðið, og víst örsjaldan venja, að kjörstjórar víki úr sæti, þótt þeir sjeu sjálfir þingmannsefni, Jeg sje hjer á þingi 4 háttv. þm., sem allir hafa setið í kjörstjórn og verið þingmannsefni í sínu kjördæmi, og hef jeg engan heyrt álíta þá minni menn fyrir það, og svo hefur það alt af áður verið. Einnig ber þess að gæta, að í þessu tilfelli var því fyrirfram mótmælt, áður en seðlarnir voru opnaðir, að taka margbrotna seðla gilda. Það er því hjegómi að segja, að háttv. þm. hafi nokkur áhrif haft á kosninguna, þar sem hann gat ekki vitað, hversu margir af sínum seðlum og hve margir af seðlum mótkandidatsins yrðu margbrotnir. En hann hafði fullan rjett til þess að mótmæla ólöglegum seðlum, jafnvel þótt einhver afbrigði hefðu áður eða annars staðar, átt sjer stað. Það getur ekki svift þingmannsefni rjetti sínum, að önnur þingmannsefni í öðrum kjördæmum hafa látið vera að neyta réttar síns, Þeir um það. Volenti non fit injuria, þ. e. það raskar einskis rjetti, sem hann samþykkir sjálfur.

Fari nú svo, sem mjer virðist ástæðulaust, að nefnd verði skipuð í þetta mál, þá hefur hún ekki annað að starfa en úrskurða það, hvort kjörstjórn beri að fylgja lögunum eða ekki, og það virðist mjer vera hjegóminn einber.