15.07.1912
Sameinað þing: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

Fyrsti fundur í sþ.

Björn Kristjánsson:

Það hefur komið fram talsverður skilningsmunur á kosningalögunum hjá þeim háttv. þrn., sem talað hafa. En þegar um slíkan skýringamun á lögum er að ræða, þá er það alt af vissastur vegur til þess að komast að rjettri niðurstöðu, að athuga, hvað höfundur laganna hefur haft fyrir augum með þessu og þessu atriði. Jeg skal því leyfa mjer að skýra háttv. þm. frá því, hvaða meiningu höfundur laganna lagði í þau atriði, sem hjer valda deilu, því svo vill til, að hann er hjer í deildinni, og ætti það þá að geta fyrirbygt allan misskilning. Eins og háttv. þm. sjá, ákveða lögin svo, að atkvæðaseðlinum sje, að kosningu lokinni, stungið inn í atkvæðakassann gegnum rifu, sem á honum er. Höfundurinn vissi, að þessi rifa er mjög þröng, og því leit hann svo á, að tafsamt gæti orðið fyrir kjósanda, að koma seðlinum í kassann, ef hann væri margbrotinn. Höfundurinn ákvað því, að eins með hliðsjón af þessari rifu, en engu öðru, að seðillinn skyldi einbrotinn, — en seðilinn þurfti auðvitað að brjóta saman, til þess að útilokað væri, að nokkur gæti sjeð, hvern kjósandi hefði kosið. Þetta get eg vottað og gæti svarið það, ef til kæmi, að er hin rjetta og eina meining höfundarins. Eins er það líka auðsætt, sem og háttv. þm. Barðst. tók fram, að ef það, að kjörseðill væri tvíbrotinn, ætti að vera ógildingarsök, þá hlyti það að vera tekið upp í 38. gr., sem „úttæmandi“ telur upp öll ógildingarmerki á seðlinum. — Háttv. 2. þm. S.-Múl. var á nokkuð annari skoðun um þetta. Hann áleit, að það, að seðill væri margbrotinn, fjelli og undir 38. gr., eða þau orð í henni Þar sem segir: „eða önnur slík einkenni.“ En þetta er ekki rjett. Jeg skal leyfa mjer að lesa upp greinina. Þar stendur: „Engin merki má á seðilinn gera, önnur en krossinn í hringnum, hvorki rispu nje blýantsstrik, eða önnur sælík einkenni, er gert geta seðilinn þekkjanlegan frá hinum seðlinum“ o. s. frv. En hjer undir getur það ekki fallið, að seðill er margbrotinn, það er ekki „slík“ einkenni, sem hin fyrri, þar sem talað er um alt annan verknað. Hjer í greininni er að eins talað um merki, er gerð eru með einhverju áhaldi á seðilinn, þannig, að hann gæti orðið þekkjanlegur, t. d. ef sett væri gat á seðilinn með töng, eða eitthvað þvílíkt. Enn fremur vil jeg taka það fram, að jafnvel þótt ákveðið væri með frambjóðanda og kjósanda, að kjósandi skyldi með sjerstöku broti á kjörseðlinum gefa til kynna, hvern hann hefði kosið, þá væri það harla vandasamt, að brjóta seðilinn eftir ákveðnum reglum, og ekki að vita nema einhver annar kynni að brjóta sinn seðil eins, svo að einhlýtt væri þetta ekki. Til þess að vera alveg einhlýtt, þyrfti merkið að vera gert með einhverju áhaldi, og einmitt það, og að eins það vilja lögin koma í veg fyrir, og þess vegna telja þau upp ógildingarmerkin í 38. gr. Og loks er í 39. gr. alt upp talið, sem geti valdið því, að atkvæði verði ógilt. Þegar jeg nú hef skýrt satt og rjett frá meiningu höfundarins, þá vona jeg, að háttv. þm. verði mjer sammála um það, að kjörseðill ógildist ekki, þótt hann sje margbrotinn.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, sem minst hefur verið á, hver ætti rjettilega að skera úr gildi kosningar, ef hún sje eitthvað gölluð, þá skal eg geta þess, að það var höfundi laganna mikið umhugsunarefni. Hann áleit ef til vill rjettast, að slíkt mál yrði fengið yfirjettinum til úrskurðar, en það sem helzt mun hafa verið þess valdandi, að ákveðið var í lögunum, að alþingi skyldi skera úr gildi kosningar, var það, að talsverður dráttur gæti orðið á úrskurðinum, og stafaði af því mikil hætta á því, að kjördæmi yrði lengri eða skemmri tíma að vera þingmannslaust.

Jeg hef nú sagt satt og ráðvandlega frá meiningu höfundarins, og vona jeg því, að háttv. þing taki orð mín til greina. Sje minn skilningur á lögunum rjettur, þá er enginn vafi á því, að sjera Kristinn Daníelsson er rjett kjörinn þingmaður Vestur-Ísafjarðarsýslu. Að skipa nefnd í málið, álit jeg þýðingarlaust — mjer liggur það raunar í ljettu rúmi, hvort það verður gert eða ekki, en lögin eru hjer svo skýr, að ekki er um að villast. Jeg hallast því algerlega að tillögum háttv. þm. Barðst. og legg til, að kosning Matthíasar Ólafssonar verði ekki tekin gild.