15.07.1912
Sameinað þing: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

Fyrsti fundur í sþ.

Matthías Ólafsson:

Jeg get verið fáorður um ræðu háttv. þm. Barðst. Flest af því, sem hann sagði, get jeg ekki skoðað öðruvísi en hvert annað barnagaman, þótt það ef til vill virðist nokkuð undarleg ánægja, að ráðast á nýgræðing og honum alveg ókunnan mann með svo ómaklegum brígslyrðum, — en jeg tek mjer það ekki svo nærri. Hitt langar mig til að benda háttv. þm. á, hversu rangt það er að bera mjer á brýn nokkra hlutdrægni í þessu mál. Það er alveg rjett, sem háttv. 2. þm. S.-Múl. tók fram, að áður en atkv. voru upplesin og nokkur gat vitað, hvernig þau fjellu, var ákveðið að taka enga seðla, sem margbrotnir væru, gilda. Jeg leit svo á, að hvert eitt merki, er á kjörseðlinum væri, gæti verið fyrirfram ákveðið einkenni til þess að seðillinn þektist. Hitt gæti mörgum orðið á, að gera óvart eitthvert aukastrik, en að margbrjóta seðil gerði enginn af óvarkárni.

Viðvíkjandi ræðu háttv. 1. þm. G.-K. þá get jeg ekki mótmælt því, að frásögn hans, um meiningu lagahöfundarins, kunni að vera rjett, — mjer er ókunnugt um það —, en hafi svo verið, þá hefir löggjafinn verið ákaflega óheppinn í að koma orðum að meiningu sinni, því að flestir menn um land alt munu hafa skilið hann öðruvísi. Og að liggja kjörstjórninni á hálsi fyrir það, að hún fylgir lögunum eins og þau segja fyrir og flestir hafa skilið, álít jeg alveg rangt. Hvað það snertir, að skylda mín hefði verið að víkja sæti úr kjörstjórninni, þá skal jeg geta þess, að jeg hafði fullan rjett til að sitja þar, og einmitt þegar þess er gætt, að fyrirfram er ákveðið, að taka ekki margbrotna seðla gilda, þá skil jeg ekki, hverjir geta brugðið mjer um hlutdrægni og borið mjer á brýn, að jeg hafi misbeitt valdi mínu. Að jeg fyrirfram hafi getað vitað, hverjir mundu margbrjóta seðlana, er hreinasta fjarstæða, eins og hver heilvita maður sjer, — því að jafnvel þótt jeg haldi, að mínir kjósendur muni að flestu leyti standa kjósendum mótkandidats míns framar, þá hefði þó verið harla hæpið að ganga út frá því fyrirfram, að þeir mundu ganga betur frá kjörseðlum sínum. Jeg get því ekki annað sjeð, en að kosning mín sje fullkomlega lögmæt. Jeg biðst engrar vægðar af þinginu. Mig fýsir ekki svo mjög til þingsetu og gott er heilum vagni heim að aka til heimilis míns, þar sem mörg störf bíða mín, en hitt þætti mjer leitt, ef þingið færi að breyta á móti þeim gildandi lögum, sem það hefur sjálft gefið. Það væri ekki gott eftirdæmi öðrum.