15.07.1912
Sameinað þing: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

Fyrsti fundur í sþ.

Jens Pálsson:

Það eru mjög ítarleg skjöl, sem kjörbrjefanefndinni hafa borizt um kosningu háttv. þm. V.-Ísf. Sjerstaklega skal jeg taka það fram, að í kæruskjali Kristins Daníelssonar er hvert atriði ítarlega og stillilega skýrt — og sömuleiðis í kærum hinna afarmörgu kjósenda í Vestur-Ísafjarðarsýslu. 276 kjósendur hafa neytt þar atkvæðisrjettar síns við seinustu kosningar og af þeim hafa 172 skrifað undir kæruna. Mjer er ekki kunnugt um tölu kjósenda í sýslunni, en sennilegt er, þar sem nú er farið að kjósa í hverjum hreppi, að sem flestir hafi neytt rjettar síns. En þetta er svo mikill fjöldi, sem undir kæruna hefur skrifað, að manni getur dottið í hug og þykir ekki ósennilegt, að einhverjir af kjósendum Matthíasar Ólafssonar hafi jafnvel fylgzt með — þótt óhæfan vera svo mikil. Ennfremur hafði nefndin með höndum vottorð frá formanni kjörstjórna í 3 kjördeildum, og segir þar að í þeim öllum hafi komið fyrir fleirbrotnir seðlar og þeir aldrei verið gerðir ógildir fyrir þá sök eina — fyr en nú. Og nú stendur svo á, að einn maður úr kjörstjórn, Kristinn Guðlaugsson að nafni, hefur og verið í kjörstjórn við undanfarnar kosningar og hefur hann aldrei gert neina athugasemd við það, að kjörseðlar vœru margbrotnir fyr en nú. Þetta virðist mjer harla einkennilegt. Þar sem h. þm. V.-Ísf. skýrði frá því, að kjörstjórninni hefði fyrirfram komið saman um, að taka þá eina atkvæðaseðla gilda, er einbrotnir væru, þá kom það ekki greinilega fram í ræðu hans, hvenær kjörstjórnin tók þessa ályktun. Mjer þætti vænt um, ef háttv. þm. vildi gefa mjer upplýsingu um það. Var það ákveðið löngu fyrirfram — eða ekki fyr en á atkvæðaupptalningsfundi, þegar búið var að steypa úr kössunum? Þetta er mjög mikilsvert atriði. Hafi ákvörðunin ekki verið tekin fyr en búið var að steypa úr kössunum, er ekki ósennilegt, að sjest hafi, í hvaða hreppum flestir margbrotnir seðlar hefðu komið fyrir, og gæti það gefið kunnugum og glöggum innanhjeraðsmanni talsverðar upplýsingar. Annars virðist mjer 35. gr. kosningalaganna taka af öll tvímæli í þessu máli. Þar segir: „Síðan brýtur kjósandinn seðilinn einu sinni saman, gengur inn að kjörborðinu og stingur sjálfur seðlinum í atkvæðakassann“ o. s. frv. Jeg get varla skilið í öðru, en að öllum skiljist það, að þessi grein er að eins leiðbeinandi, „instructiv“. Meiningin getur ekki verið, að kjósandi sje skyldur að ganga að atkvæðakassanum, ef hann t. d. er lami og getur ekki gengið, og að skjálfhentur megi ekki leita hjálpar sjer til þess að setja miðann í kassann. Það væri hin mesta fjarstæða. Eins eru orðin „brýtur einu sinni saman“ að eins leiðbeinandi, — kjósandi má tvíbrjóta seðilinn, ef hann vill. Einnig veit jeg það, að góðar kjörstjórnir bæði hjer í Reykjavík og í Gullbringusýslu hafa litið svo á, áður en fram komu lögin um breyting á lögum um kosningar til alþingis, þau er sett voru 1909, og leiðbeint kjósendum ef á hefur þurft að halda. Mjer er líka talsvert kunnugt um „praxis“ við prestskosningar hjer í Rvík. Þar kom það þráfaldlega fyrir, að seðlar voru margbrotnir, og voru þeir engu að síður teknir til greina, ef þeir voru ógallaðir að öðru leyti. Aðalmaðurinn í þeirri kjörstjórn var hinn alkunni skarpi og glöggi lagamaður og skýri úrskurðahöfundur og dómari, fyrrum landshöfðingi Magnús Stephensen. Það er því harla einkennilegt, ef einmitt nú á að fara að bregða út af því, sem viðgengizt hefur um alt land, og glöggir lagamenn hafa álitið fullkomlega lögum samkvæmt.

Þessi háttv. þm., sem vafinn er nú um hvort rjett sje kosinn, hefir neytt rjettar síns sem kjörstjóri til að dæma alla þessa umdeildu seðla, og liggur hvergi í skjölunum, að þeir hafi verið úrskurðaðir fyrirfram, en hitt er víst, að hann var annar af tveimur mönnum í kjörstjórninni, er mótmælti þeim og úrskurðaði þá ógilda; var því bæði kærandinn og dómarinn, og það í sinni eigin sök.

Þetta tilfelli er ljós sönnun þess, hve óviðeigandi það er, að þingmannsefni sitji í kjörstjórn í hjeraði því, er hann býður sig fram í, og vegna þess að mín hefur verið minst í því sambandi, skal jeg geta þess, að strax og jeg bauð mig fram í Gullbringu- og Kjósarsýslu, fór jeg, vegna þess að jeg átti sæti í kjörstjórninni, til þáverandi sýslumanns, og bað hann að úrskurða mig lausan úr henni, sem hann og gerði; núverandi sýslumaður áleit sig aftur á móti ekki hafa heimild til þess í lögunum að úrskurða þann veg; jeg tók þá það ráð, að tilkynna honum forföll, og tók hann þau gild og aðvaraði varamann um að vinna kjörstjórastarfið í minn stað.

Þar sem háttv. 2. þm. S.-Múl. tók fram, að 35. gr. kosningalaganna væri skilyrðislaus fyrirskipun, þá er það ekki rjett; hún er að eins reglugefandi og leiðbeinandi. Kjósendur hafa því rjettilega fram að þessu álitið löglegt og leyfilegt að tvíbrjóta seðla, og gert það víðsvegar um land óátalið, að eins til þess að tryggja sem bezt leyndina, enda er það höfuðatriðið; — það eitt hafa þeir viljað gera með því að tvíbrjóta, og væri það næsta hlægilegt, að ógilda seðla þeirra fyrir tvíbrotning eina.

Mín skoðun er sú, að þingið geti ekki með sóma sínum tekið þessa kosningu gilda óathugað, enda er sjálfsagt að sýna jafnmiklum heiðursmanni, og allir vita að fyrverandi þingmaður sjera Kristinn Daníelsson er, þann sóma, að íhuga málið.

Um hvað gera á, bind jeg mig ekki, en jeg býst við og vænti þess fastlega, að varatillaga (að fyrirskipa nýja kosningu) háttv. þm. Barðst. nái fram að ganga, eftir að nefnd hefur athugað málið.