15.07.1912
Sameinað þing: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

Fyrsti fundur í sþ.

Matthías Ólafsson:

Háttv. 2. þm. G.-K. spurði að því, hvenær það hefði verið ákveðið, að ógilda margbrotna seðla. Því er þar til að svara, að við Kristinn Guðlaugsson komum okkur saman um það daginn áður en talið var upp, að ef slíkir margbrotnir seðlar kæmu, væri sjálfsagt að ógilda þá samkvæmt 35. gr. kosningarlaganna.

Sami háttv. þm. sagði það, að sá, er bauð sig fram á móti mjer, hefði aldrei stuðlað að því, að seðlarnir hefðu verið auðkendir með margbroti, og er jeg honum öldungis sammála um það efni af persónulegri viðkynningu okkar, en jeg vil benda á, að hann á óbilgjarna undirræðara, er gera alt. Og þótt þessi sami háttv. þm. vilji tortryggja mig, þá vissi jeg aldrei, hver átti fyrsta margbrotna seðilinn, leit aldrei á hann, eins og jeg yfirhöfuð leit aldrei á ógildu seðlana, því þeir gátu aldrei haft áhrif á kosninguna. Jeg veit því ekki enn, nema hvað jeg heyri, hver okkar hefur átt meira af þeim.

Eins og kosningalögin eru nú, þá gerir lítilfjörlegt strik seðil ógildan. Þingmannsefnið verður því að gjalda klaufvirkra kjósenda, og atkvæði þeirra ónýt. Þetta þarf að lagfæra, en það ætti öllum að vera vorkunnarlaust, að brjóta seðlana rjett.