15.07.1912
Sameinað þing: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

Fyrsti fundur í sþ.

Guðlaugur Guðlaugsson (framsögumaður):

Það hefur talsvert verið talað um þessa kosningu, og því er haldið fram, að það sje aðallega þingmannsefnið sjálft, sem hafi. ráðið því með atkvæði sínu í yfirkjörstjórninni, að margbrotnu seðlarnir voru ógiltir. Jeg vil taka það skýrt fram að það sjezt ekki á kjörbókareftirritinu.

Kjörbókareftirritið inniheldur að eins þær skýrslur, sem eftir kosningalögunum eru nauðsynlegar, en það er ekki ítarlegt nje gjörtæmandi og þess er ekki getið þar, hverjir úrskurðinn samþykktu, nje hversvegna þessir 21 seðlar voru gerðir ógildir, nje heldur hvenær þessi úrskurður var kveðinn upp.

Jeg vefengi það ekki, hvort kjörstjórnaroddvitinn hafi verið í vafa um, hvort ónýta ætti margbrotnu seðlana, eins og haldið er fram, en hitt er alveg víst, að úrskurðurinn hefur verið kveðinn upp við fyrsta seðilinn. Þá gat enginn vitað, hve margir þessir margbrotnu seðlar, er voru eftir í hylkinu, yrðu, nje hver ætti þá. Það er því mjög ástæðulaust, svo jeg ekki viðhafi sterkari orð, sem þó væri óhætt, að halda því fram, að þingmannsefnið hafi með atkvæði sínu í yfirkjörstjórninni gert sig sekan í hlutdrægni. Slíkt eru höfuðórar — helber hugarburður.

Það hefir verið deilt hjer um skilning 35. gr. kosningalaganna samanborið við 38. og 39. gr.

38. og 39. gr. segja „má ekki“. Þeir gallar, er þar eru nefndir, varða skilyrðislaust ónýting, þótt engin mótmæli. Þetta er eigi tekið fram um rangt brot á seðli. Í þessu liggur að eins það, að þó að frá reglu 35. gr., að því brotið snertir, sje vikið, þá er kjörstjórnin ekki ex officio skyldug til að ónýta seðilinn, en þar af leiðir ekki, að hún geti ekki tekið til greina mótmæli, ef fram koma. Það hefir fádæma litla þýðingu fyrir framkvæmd laganna að rannsaka hjörtu og nýru löggjafanna, því hvað sem þeir hafa hugsað sjer, þá ráða orðin með þýðing sinni.

Víða koma fram tvíbrotnir seðlar, og þó að kjörstjórnir taki ekki slíkt upp, ef enginn hreyfir mótmælum, er þar með ekkert um það sagt, hvað sama yfirkjörstjórn mundi gera, ef mótmælt væri, enda er það upplýst hjer, að í minsta kosti einu kjördæmi, Strandasýslu, hafa seðlar verið ógiltir af þessari orsök.

Það er stórháskalegt, ef þingið fer að taka til sín rjett kjósenda, með því að lýsa gilda kosningu þess manns, sem ekkert kjörbrjef hefur og engin skilríki fyrir því, að hann hafi verið kosinn. Með því væru allar kosningar lagðar undir gerð, máske óbilgjarns meiri hluta á alþingi, er hugsaði um það eitt, að gera sig sem sterkastan. Það sjá allir, að slíkt er hreinn og beinn háski.

Ef menn vilja ekki samþykkja kosninguna orðalaust, þá er sjálfsagt, að láta nefnd rannsaka hana; en annars hafa margar kosningar legið hjer fyrir þinginu í gamla daga, er hafa verið mikið gallaðri en þessi, en hafa þó verið teknar gildar; jeg skal þar að eins minna á kosningar úr Suður-Múlasýslu og Strandasýslu (Jón Ólafsson: og Árnessýslu). Þingið gæti því vel, að mínu áliti, tekið kosninguna gilda strax, en meiri hluti kjörbrjefadeildarinnar lagði hins vegar til, að málinu yrði frestað og vísað til kjörbrjefanefndar, og álit jeg sjálfsagt, að sú tillaga verði borin fyrst undir atkvæði, þar næst aðaltillaga háttv. þm. Barðst. og þá varatillagan. (Forseti: Sjálfsagt).