22.08.1912
Efri deild: 32. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

37. mál, vörutollur

Jens Pálsson, framsögum:

Nefndin, er haft hefur mál þetta til meðferðar, hafði, svo sem kunnugt er, mjög takmarkaðan tíma, enda ber álit hennar vott um það, því að það er næsta stutt, og ekkert annað en fáorð rökstuðning nefndarinnar fyrir ráðlegging hennar til háttv. deildar, til að samþykkja frumv.

Það þarf ekki að orðlengja það, að á bak við þetta alt saman stendur hin brýna þörf á, að útvega landssjóði verulegan tekjuauka.

Ekki duldist nefndinni það, að frumvarp þetta er ekki fremur en önnur mannaverk fullkomið; það hefur meðal annars þann ónotalega galla, að vörutollurinn, sem í því er mælt fyrir um, kemur með æskilegum jöfnuði niður hvorki á vörurnar né atvinnuvegina.

Þetta er bein og óhjákvæmileg afleiðing af stefnu frv., sem er sú, að leggja með mjög takmarkaðri flokkun toll á aðfluttar vörur yfirleitt, miðaðan við þyngd á flestöllum vörutegundunum, og teningsmál á trjávið, og koma öllu þessu svo fyrir, að komist yrði af án aukins tolleftirlits.

Það má segja um þetta frumv. eins og önnur frumv., sem komið hafa fram á þessu þingi um svipuð efni, að með engu þeirra hefur algerum jöfnuði orðið fullnægt um gjaldaálagning á vörur nje á vöruneytendur. — Harðdrægt er það t. d. og tæpast jafnaðarfult, að leggja nýjan toll á þær vörur, er þegar eru áður þrauttollaðar. Hjá þeirri harðskiftni var sneitt í frv. því „um árgjald af verzlun og viðskiftum við útlönd“, er borið var fram hjer í deild og nefndin hefur frá sjer skilað, og meiri hluti hennar aðhylzt, en þann kost hefur þetta frv. ekki fremur en hið harðdræga frv. frá h. Nd., er hjer var vísað á bug með rökstuddri dagskrá.

Jeg tel það harðdrægni, að tolla meir en þegar er orðið t. d. kaffi og sykur. Sjerstaklega nefni jeg þar til sykurinn. Tollurinn af honum er þegar mjög hár, einkum þegar þess er gætt, að hann er nauðsynjavara fyrir þúsundir manna hjer í landinu, nauðsynjavara á öllum mjólkurlausu heimilunum, og er altaf að verða nauðsynlegri og meira ómissandi til matar. Fyrir því getur enginn rjettilega haldið því fram, að nýr vörutollur á sykri sje jafnaðarfullur og rjettlátur. — En þó maður geti sagt, að fullkominn jöfnuður í álagning tollsins verði ekki talinn frumv. til gildis, þá er slíkt ekki eins dæmi. — Það er ómögulegt, þegar tolla á yfir höfuð alla innflutta vöru. Verðtollsfrv., sem var á ferð hjer í deildinni og vikið var frá með rökstuddri dagsskrá, — um 3% verðtoll á alla aðflutningsvöru, var að harðdrægni og ójöfnuði enginn eftirbátur þessa frumvarps; síður en svo. — Þar var bætt við 3% á sykur og kaffi. Og hefði það orðið að lögum, þá hefðu kaupmenn orðið að hækka kaffi um þetta 5 aura pundið og sykur eflaust um 3 aura, vegna þess að þeir einatt lána vörurnar, en svara tollinum fyrirfram. — Jeg get þess einnig, þó frumv. um árgjald af verzlun liggi ekki hjer fyrir nú, að þar er gert hið ítrasta til að gæta alls jafnaðar. Og þó var því áfátt í þessu efni, þar sem sama gjald var lagt á stóra vöruflokka. Þetta er heldur engin furða, því jeg þekki satt að segja engan skatt eða toll, er sje fullkomlega rjettlátur gagnvart öllum og öllu. Löggjafarvaldið keppir að því marki hvervetna í heiminum, en er í öllum löndum langa leið frá að hafa náð því. Þessvegna má ekki taka hart á því um frumvarpið, þótt því sje æði áfátt að þessu leyti.

Kostir frv., sem gera það að verkum, að nefndin hefur getað aðhylzt það, eru þeir, að það gefur landssjóðnum þær tekjur, sem nú er brýn nauðsyn á, og svo verða þessi lög framkvæmanleg að dómi manna, sem æfing hafa í því að innheimta tolla. Og eflaust er hjer gert hið ítrasta til þess, að búa svo um, að mjög erfitt sje, að skjóta eða draga undan tollinum. Sá kostur er stór, að lögreglustjórinn geti gengið svo eftir gjaldinu að ekkert tapist, að minsta kosti ekki að verulegum mun. Því er nefndinni, og jeg vona deildinni í heild sinni, mjög ant um, að málið nái fram að ganga, svo að mönnum ljetti ótta og ugg fyrir því, að landssjóður verði jafn illa staddur og hann var í þingbyrjun.

En þótt nefndin yrði samdóma um það, að rjett sje, eins og stendur, að samþykkja frumvarpið í heild þess, sá hún við yfirlestur sinn og athugun, að til bóta væru breytingar þær, er hún hefur leyft sjer að koma fram með á þskj. 353. — Ekki mun henni þó vera svo fast í hendi með þær, að hún vilji halda þeim til streytu, ef uggvænt þætti, að þær kynnu að tefja, eða jafnvel hindra framgang málsins í h. Nd.

Skal jeg nú fara nokkrum orðum um breytingarnar og taka þær í röð:

1. Hin fyrsta er lögun á máli, en ekki bráðnauðsynleg.

2. Er lögun á prentvillu.

3. Er til skýringar.

4. Að „tonn“ komi í staðinn fyrir „smálest“, skýrir sig sjálft. Tonn er lögtekið þyngdarheiti, og það ber því að nota.

5. Breytingartill. heldur fram efnisbreyting, sem nefndinni fanst ástæða til að gjörð yrði, á 1. gr. 7. lið, þ. e. að í stað 1 kr. komi 50 aurar. Þegar nefndin lagði þetta til, þá bar hún aðallega fyrir brjósti nauðsynlegar vjelar, svo sem mótorbátavjelar, sláttu- og raksturvjelar og aðrar, sem nauðsynlegar eru atvinnurekstri; henni fanst ástæða til að lækka tollinn á þessum vjelum. Má vera, að bezt hefði verið, að hafa þær undanþegnar tollskyldunni. — Að því, er kemur til annarar vöru í þessum 1 kr. flokki, er ekki hægt að segja, að þessi tollur sje hár. Og því er ekki að leyna, að væri gjaldið samkv. breyt.tillögunni lækkað úr 1 kr. í 50 aura, þá yrði breytingin valdandi verulegs tekjumissis fyrir landssjóð. Missir sá mun nema um 30—40 þús. kr. á ári.

6. Þá áleit nefndin æskilegt, að gera breyting á niðurlagi 1. gr. Þar stendur að tolleiningu skal reikna sem heila, en minna broti skal sleppa. Eftir þessu ákvæði geta þær vörusendingar ekki komið undir toll, sem minni eru en 25 kgr. Sjeu send 24 kgr., þá er sendingin ekki tollskyld. Ef einhver væri nú svo smásmyglislegur, að panta vörur skiftar niður í smásendingar, þá er ekki óhugsanlegt, að hann gæti á þann hátt smeygt talsverðu undan tolli, og hlíft sjálfum sjer. En þetta ákvæði mun þó tekið upp eftir eldri tolllögum, og er ef til vill hættuminna en nefndinni við fljótlega yfirvegun virtist.

Mjer láðist að taka fram um 3. brtill. það, að það er tilætlun nefndarinnar, að með fatnaði skuli til tollskyldu telja skófatnað. Þetta er nauðsynlegt að taka fram vegna þess, að í daglegu tali er hann ekki talinn með fatnaði. Og fari svo, að breytingartill. nái ekki fram að ganga, og frv. verði þó að lögum, þá leyfi jeg mjer, til athugunar framkvæmendum laganna, að lýsa yfir þeirri tilætlun háttvirtrar þingdeildar, að með fatnaði skuli talinn skófatnaður sem tollskyldur.

7. Til skýringar hefur og nefndinni þótt við eiga, að skjóta inn í 7. gr. 4. línu, orðunum „með umbúðum“ á eftir „vörutegundum“. Þó vill nefndin ekki fullyrða, að þessi breyting sje bráðnauðsynleg, með því að 1. gr. slær fastri þeirri meginreglur sem heimfæra ber alment og yfirleitt til allrar vöru, að tollurinn skuli tekinn eftir þyngd með umbúðum, eða eftir rúmmáli (timbur eitt).

8. Brtill. lagar prentvillu; í stað „síðar“ á að standa „síðan“.

Þá hef jeg getið um allar breyttill., nema þá 9. við 14. gr., að í stað 3 kr. komi 4 kr. — Jeg býst við, að nefndin sje ekki samdóma um það atriði. Breytingartillagan fer fram á, að innheimtulaunin verði 4 af hundraði, og munu það vera hærri innheimtulaun, en hingað til hafa ákveðin verið um samskonar innheimtu. Af venjulegum tolli hafa innheimtulaun yfirleitt verið 2 af hundraði. En þegar alþingi ákvað styrktarsjóðsgjaldið, þá voru innheimtulaunin af því lögákveðin 3 af hundraði; svo kom í stað þessa gjalds „ellistyrktarsjóðsgjaldið“. Þá voru innheimtulaunin af því ákveðin 2 af hundraði. Sú niðurfærsla var að minni skoðun ekki sanngjörn gagnvart lögreglustjórunum. Það er mikið gjald og erfið innheimta, þar eð þarf að heimta inn frá lausamönnum og lausakonum, sem eru hvikular í rásinni. Og þótt mikið tap og mikil fyrirhöfn sje við þessa innheimtu, þá verða þeir að láta sjer nægja með 2%. Þessi innheimta, sem hjer er um að ræða, hún verður erfið og umsvifamikil, brjefaskriftir miklar og svo allur samanburðurinn á farmskránum. Annars býst jeg við, að formaður nefndarinnar skýri þetta atriði nánar; hann er þessu svo kunnugur.

Þótt æskilegt væri það í sjálfu sjer, að breytingartill. nefndarinnar nái fram að ganga, þá fer því fjarri, að nefndin vilji tefla málinu í nokkra hættu fyrir þær. Og þótt reynslan sýni, að breyta þurfi þessum lögum, þá er það auðgert á næsta þingi. Þegar það kemur saman, verða lögin ekki búin að standa yfir lengur en eina 6 mánuði, og því er engin hætta, þótt breytingarnar bíði. En stór hætta getur það orðið fyrir þjóðina, ef frumv. er teflt í hættu með því að fara að breyta því nú á síðustu stundu. Frv. getur því vegna tímaleysis dagað uppi. Því finn jeg það, að vel getur það verið, að jeg standi aftur upp í þessu máli til þess að lýsa því yfir fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar, að hún taki alla breytingartillögurnar aftur, svo frv. sje ekki teflt í hættu. En fyrst ætla eg að hlusta á umræðurnar og heyra mál manna. Fer jeg því ekki fleiri orðum um þetta mál að sinni. —