19.07.1912
Sameinað þing: 3. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

Prófun kjörbréfa

Bjarni Jónsson:

Jeg ætlaði ekki að standa upp, og þykir leitt að þurfa að lengja umræðurnar, en jeg neyðist til að mótmæla skýringum hv. 2. þm. S. Múls. á samsettu brotunum á seðlunum og grunsemdum þeim, er hann reyndi að vekja út af þeim. En úr því jeg stend upp á annað borð, vil jeg lýsa í fám orðum skoðun minni alment á málinu. — Jeg vil byrja með því að lýsa því yfir, að þetta mál er mjer hvorki kappsmál nje flokksmál. Jeg er ekki varnarmaður neins hluta á þinginu, hvorki meiri nje minni, og tel sóma hvers þingmanns í því fólginn að skera fyrir sitt leyti úr hverju máli samkvæmt sannfæring sinni, en ekki eftir flokksfylgi nje neinu öðru. — Þá er fyrst að athuga, hvað eru lög í þessu efni. Lögfræðinga utan þings og innan greinir á um það. Jeg hef átt tal við marga velmetna lögfræðinga utan þings, og hef heyrt ýmsar skoðanir. En fleiri hafa þó fylgt mínum skoðunum á lögunum, en skilningi hv. þm. Ak. og meiri hluta nefndarinnar. Það er sannfæring mín, að í 35. gr. kosningarlaganna felist engin fyrirskipun, er skilja eigi bókstaflega, heldur sjeu ákvæði hennar aðeins leiðbeiningar, t. d. þar sem segir: „brýtur kjósandi seðilinn einu sinni saman, gengur að kjörborðinu, stingur sjálfur seðlinum í kassann,“ o. s. frv.; þetta er alt leiðbeiningar, en eigi beinar skipanir, og yrði það aldrei gert að ógildingarsök, þó vikið væri frá þeim í litlu. Ef frávikning frá þessum leiðbeiningum væri ógildingarsök, þá ætti þess að vera getið í 38. og 39, gr., þar sem sett eru ákvæði um það, hvenær seðill skuli dæmdur ógildur, eða kjósandi kjósa aftur. En í hvorugri þessari grein er það ákveðið, að seðill skuli dæmdur ógildur, ef hann sje brotinn saman oftar en einu sinni. Að vísu er hugsanlegt, að samsett brot komist undir orðin í 38. gr. „eða önnur slík einkenni,“ en það verður altaf álitamál í hvert einstakt skifti, hvort samsetta brotið sje þann veg lagað, að það geti verið einkenni.

Hefði nú undirkjörstjórninni þótt þessir seðlar, sem hjer um ræðir, grunsamlegir, þá hefði hún átt að gera þá afturræka og gefa hlutaðeigandi kjósendum nýja seðla, Þetta gerði hún eigi, og hefur því fyrir sitt leyti tekið seðlana gilda. Svo kemur yfirkjörstjórnin og ógildir þá. Þessum ógildingarúrskurði yfirkjörstjórnar hafa svo kjósendur áfrýað til alþingis, og á það að skera úr, hvor úrskurðurinn sje rjettari. Kjósendur fara ekki fram á það, að kjörstjórninni sje hegnt með sektum eða neinu því líku; þeir fara þess að eins á leit við alþingi að það kveði upp annan úrskurð, sem ónýti úrskurð yfirkjörstjórnar, vegna þess að hann sje ólögmætur. — Til frekari stuðnings því, að þessi skilningur minn sje rjettur, vil jeg benda á það, að kjörstjórnir um alt land hafa látið fleirbrotna seðla óátalda, t. d. aðallega hjer í Reykjavík. Jeg var sjálfur fulltrúi eins þingmannsefnis hjer við síðustu kosningar; þá úði og grúði af fleirbrotnum seðlum, án þess nokkur þeirra væri gerður ógildur fyrir þá sök.

Það hefur verið sagt, að mótmæli hafi fram komið gegn seðlunum. Á hverju byggist það, eða hverrar tegundar eru þessi mótmæli. Mjer vitanlega var gildi seðlanna aðeins mótmælt af einum manni, en hann var bœði þingmannsefni og yfirkjörstjórnarmaður. Hafi hann mótmælt sem þingmannsefni, þá var hann um leið óhæfur kjörstjórnarmaður („inhabil“), og átti að víkja sæti, því ekki gat hann verið dómari í sjálfs sín sök. En hafi hann sett fram kröfu sína um ógilding seðlanna sem yfirkjörstjórnarmaður, þá er sú krafa ekki rjettnefnd mótmæli, heldur hefur yfirkjörstjórnin þar tekið upp hjá sjálfri sjer að ógilda seðlana. En eins og jeg hef þegar tekið fram hefur engin önnur kjörstjórn á landinu ógilt seðla fyrir þessa sök, og væri ekki rjett, að öðrum reglum og venjum væri fylgt þarna fremur en annarsstaðar um ógilding seðla, og því full ástæða fyrir alþingi til að kollvarpa þessum ógildingarúrskurði kjörstjórnarinnar. — Mjög merkur maður, sem viðstaddur var þegar talið var upp á Ísafirði, hefur sagt mjer af athöfninni. Hann segir, að auðvelt hafi verið, að sjá, þegar hvolft var úr hreppakössunum í aðalkassann, hvort seðlar yfirleitt voru tvíbrotnir eða fleirbrotnir. Þegar hvolft var úr Súgandafjarðar kassanum, hafði einhver, er viðstaddur var, sagt, að hjer væru margir tvíbrotnir, og sagði Matth. Ól. þá, að hjer yrðu fáeinir ógildir. Þetta hefði verið skilið sem mótmæli, og þegar fyrsti tvíbrotni seðillinn var tekinn upp úr aðalkassanum, hafði oddviti kjörstjórnarinnar sagt, að bezt væri að gera strax út um gildi tvíbrotinna seðla. Hafði þá Matthías strax sagt, að ekki gæti komið til mála að taka þá gilda. Oddviti kjörstjórnarinnar hafði sagt það venju að taka ekki á slíku, ef ekki væri meira að, en Matthías hafði sagt, að það væri móti lögunum. Þá er spurningin, hvort mótmæli Matthíasar gegn gildi tvíbrotinna og fleirbrotinna seðla, og úrskurður kjörstjórnarinnar að ógilda þá, hafi getað stafað af hlutdrægni, eða með öðrum orðum, hvort Matthías hafi getað haft fyrir fram hugmynd um, hverjum það yrði í hag, að seðlarnir yrðu ógildir. Nú vita menn, að í tveim hreppum þar sem Matthías hafði aðalfylgi sitt, hafði þess verið vandlega gætt, að tvíbrjóta eða fleirbrjóta enga seðla, en aftur á móti hefði þessa ekki verið svo vandlega gætt í tveim öðrum hreppum, þar sem síra Kristinn Daníelsson hafði aðalkjörfylgi sitt, og kom það til af því, að kjörstjórnin hafði áður tekið slíka seðla gilda. Þetta vissi Matthías og gat sjeð, þegar hvolft var úr kössunum, og er því ekki ósennilegt, að hann hafi rent grun í, að það mundi vera sjer til hags, ef seðlarnir yrðu ógildir. Um Súgandafirðinga var, eftir því sem skilvís maður hefur sagt mjer, þegar daginn áður en talið var, komin sú fregn, að þeir hefðu fleirbrotið seðla; en þeir eru miklir fylgismenn síra Kristins. Cui bono — hverjum til hags —, er gömul setning. Það er altaf óhættast, að gera ráð fyrir, að menn geri frekar sjer í hag en óhag. Þótt engar líkur lægu fyrir, þá er þegar í sjálfu sjer sennilegt, að Matthías hefði ekki krafizt ógildingar á seðlunum, nema hann hefði grunað, að keppinautur hans hafi átt meiri hluta þeirra.

Mjer hefir heyrzt á sumum hv. þm., að þeir hræðist, að það muni hafa einhverjar voðalegar afleiðingar, ef alþingi kollvarpar úrskurði yfirkjörstjórnar. Mjer er ómögulegt að sjá, að þær geti orðið háskalegar. Jeg hygg, að þær muni eigi verða aðrar, en að menn segðu, að hjer hefði alþingi sýnt, að það vildi enga hlutdrægni í frammi hafa, þar sem meiri hlutinn mat meir rjettinn, en vildi ekki neyta afls síns til að gera þennan fylgismann sinn að þingmanni.

Jeg get ekki stilt mig um að átelja þau óhæfilegu ummæli hv. þm. Ak., er hann talaði um atkvæðasmölun í sambandi við þessa kröfu kjósanda. Það er óhæfileg móðgun við kjósendur að tala um þá eins eins og þeir væru kvikfjenaður; að halda, að hægt sje að smala þeim saman til að skrifa undir skjöl til alþingis um að ónýta kosningu þess manns, sem þeir hafa kosið! Kjósendur hljóta að álita þetta einkennilega hæversku. Sennilega hefur hv. þm. annað orðalag á kosningafundum. Það var sagt, að það sýndi frekju að meir en helmingur kjósanda kærði þessi kosningarúrslit. En það sýnir, að mínu áliti meiri frekju, að eigna það undiskriftasmölun, er kjósendur bindast samtökum um að gera tilraun til að hafa rjett sinn fram. Því að sú eina rjetta ályktun af kærandafjöldanum er sú, að svo rangur hafi mönnum þar vestra þótt úrskurðurinn, að jafnvel hafi mörgum af kjósendum Matthíasar eigi þótt unandi við það.

Þá kem jeg að lokum að þessum nýja Sherlock Holmes okkar, sem þóttist sjá hin og þessi margvísleg og einkennileg brot á seðlunum, sem gætu verið auðkenni. Jeg skal geta þess, að jeg var í kjördeild þeirri, er hafði seðlana til athugunar og skoðaði þá því vel, og auk þess athugaði öll kjördeildin þá, og enginn okkar uppgötvaði nein grunsamleg eða margvísleg brot. Við sáum aðeins tvennskonar brot, tvíbrot og krossbrot. Sama segir í áliti meiri hl. nefndarinnar, að hinir ógildu seðlar hafi verið nokkrir tvíbrotnir og nokkrir krossbrotnir. Hin brotin, er hv. þm. S.-Múl. talaði um, hljóta því að hafa orðið til eða uppgötvast á skrifstofu sannsöglinnar. Mjer finst satt að segja ekki mega minna vera, en að kjósendur sjeu látnir óáreittir hjer á þingi, en ekki brígslað um, að þeir auðkenni atkvæðaseðla sína, eða hnútum sje kastað til þeirra fyrir að vera svo djarfir að bera upp rjett mál.