19.07.1912
Sameinað þing: 3. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

Prófun kjörbréfa

Lárus H. Bjarnason:

Jeg var einn í kjörbrjefadeild þeirri, er hafði kjörbrjef h. þm. V.-Ísf. til meðferðar, og er því allkunnugur málavöxtum.

Því skal þegar játað, að aðferð yfirkjörstjórnarinnar var þannig háttað, að hún getur orkað tvímæla. Það er vel fallið til þess, að vekja grun, að háttv. þm. sat sjálfur í yfirkjörstjórninni, að hinn meðkjörstjórinn hafði áður úrskurðað fleirbrotna seðla gilda, og að þeir 2 úrskurðuðu margbrotnu seðlana ógilda gegn atkvæði sýslumanns. En þetta getur þó ekki riðið baggamuninn að lögum. Úr því að kjörstjóri má vera þingmannsefni, má hann líka taka þátt í öllum gerðum kjörstjórnar, og margbrotnu seðlarnir, sem teknir höfðu verið gildir 1908, voru ekki heimtaðir ógildir. Hitt er sjálfgefið, að meiri hluti kjörstjórnar verður að ráða, hver sem minni hlutinn er.

Það er enginn vafi á því, að fleiri brot en 1 á seðli, er brot á bókstaf 35. gr. kosningarlaganna. Það á að brjóta seðilinn „einu sinni saman“, en það er sama og bann gegn fleiri brotum. Það er og vafalaust, að fleiri brot geta upplýst um það, hvernig kosið hafi verið og væri þá um efnisbrot að ræða. Það má brjóta seðil á marga vegu, svo sem þm. Strand. sýndi fram á. Brot geta þannig verið tilsögn um það, hvernig kosið hafi verið, ekki síður en önnur merki. Seðill, merktur með öðru merki en krossi, eða með krossi utan hringsins eða krossmerki með öðruvísi litum blýant en svörtum, mundi vera ógildur. Slík meðferð á seðli færi bæði í bága við bókstaf 35. gr. og tilgang, að halda atkvæði kjósanda leyndu, enda beint sagt í 38. gr., að slíkt varði ógildingu.

Nú er hið sama að vísu ekki sagt jafnbert um fleiri brot en eitt. En einhver verður afleiðing þess að vera. Annars væri ákvæðið ónýtt. Afleiðingin getur ekki komið niður á kjósanda fremur en fyrir önnur brot á 35. gr. Nulla poena sine lege: engum verður refsað, nema lög leggi refsing við, en slíkt refsiákvæði vantar algerlega. Afleiðingin getur ekki bitnað á undirkjörstjórn, því að hún má ekki hafa nein afskifti af atkvæðagreiðslu kjósanda, nema því að eins að kjósandi óski, sbr. 6. gr, laga nr. 15, 9. júlí 1909. Afleiðing þess, að seðill er fleirbrotinn, verður því að lenda á þingmannsefnunum, á sama hátt og aðrar yfirsjónir kjósanda. Seðillinn verður að teljast ógildur.

Þá er að eins eftir að vita, hvort fleiri brot en 1 eigi fortakslaust að varða ógildingu seðils, eða því að eins að ógildingar sje krafizt. Það væri líklegast samræmast 38. gr., að margbrotinn seðill væri fortakslaust ógildur, en því hefur ekki verið framfylgt af yfirkjörstjórnum eða alþingi. En eigi bannið gegn mörgum brotum að hafa einhverja þýðingu, verður að minsta kosti að ógilda margbrotinn seðil, sje þess krafizt.

Þess hefur eigi verið krafizt áður, svo að vitanlegt sje, að margbrotnir seðlar væru ógiltir, enda slíkir seðlar teknir gildir, t d. hjer í Reykjavík við síðustu kosningar. Vestra var krafizt ógildingar á margbrotnu seðlunum, er fyrsti seðillinn kom fram. Því er það ekkert fordæmi hjer, þó að margbrotnir seðlar, er enginn heimtaði ógilda, hafi verið teknir gildir hingað til.

Hitt, að Matthías Ólafsson hafi beitt hlutdrægni við kosninguna, það er eitt af því, sem má segja, en ekki sanna. Væri svo, að það yrði sannað, þá væri alt öðru máli að gegna; en það verður víst aldrei sannað, það er ekkert annað en laus tilgáta. Jeg sje því ekki betur, en að hið eina rjetta sje að samþykkja þessa kosningu, og þrátt fyrir allar upphrópanir um sannleika, rjettlæti og kærleika, mun jeg fylgja sannfæringu minni og lýsa kosninguna gilda með atkvæði mínu.