27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

4. mál, breyting á alþingistíma

Einar Jónsson:

Jeg vil leyfa mjer að benda á það, sem fyrir mjer vakir sem aðalástæða fyrir því, að fylgja breytingu þeirri, sem frv. gerir á þingtímanum, auk þess sem jeg er samþykkur ýmsu því, er sagt hefur verið því til meðmælingar. — Aðalástæðan fyrir mjer er sú, að áhættan, að þingmenn komist ekki á rjettum tíma til þingsins á miðjum vetri úr hinum fjarlægari hjeruðum landsins, er langt of mikil til þess, að undir henni sje eigandi. Jeg vil minna á árin 1881—1887. Þá átti jeg heima lengst af við sjó í Skagafirði. Og ekkert það ár hefðu þingmenn komizt sjóveg af þingi heim til sín á rjettum tíma í Norðurland, og ekki heldur til Austurlandsins norðan um land, og slíkt getur komið fyrir aftur. Að minsta kosti eitt það ár, frostaveturinn 1880—1881, hefðu þeir ekki heldur komizt til þingsins sjóveg fyrir lagís og hafís. Og þó að ekki sje hafís að óttast, sem sjaldnast er nú fyrir miðjan febrúar, þá vita allir, hversu hríðar geta hindrað bæði sjóferðir og landferðir um þann tíma árs. Hvernig mundi hafa farið um þingferð veturinn 1884— 1885, þegar blindbylur var nótt og dag í heilan mánuð frá því viku af þorra? Á sjó var auðvitað alófært og nálega eins á landi, víðast um Norðurland og Austurland að minsta kosti. Hvernig hefðu þingmenn þá átt að komast til þings á rjettum tíma? Þó að slíkar hríðar sje að vísu mjög sjaldgæfar, þá er þó alkunnugt, að oft kemur fyrir í janúar- og febrúarmánuðum margra daga bylur, og þar með ófærð, sem hlýtur að hindra öll ferðalög til mikilla muna. En það vita allir, hversu illa það getur komið sjer, ef þingmenn komast ekki á rjettum tíma til þings, ekki sízt ef það þar á ofan dregst fyrir mörgum þeirra í senn í marga daga. En við því má þó alt af búast, þó að ekki hafi það orðið að meini þessi 2 vetrarþing, sem haldin hafa verið, af því að þeir vetrar hafa verið með hinum mildustu vetrum.

Þó að þetta sje ekki nema ein ástæða, þá er hún í mínum augum alveg næg til þess að sýna, að ekki er rjett að eiga undir vetrinum til þinghalds, þó að sumt mæli með því.

Þess er og að gæta að vetrarþingin hljóta að verða miklum mun dýrari fyrir landssjóðinn en sumarþingin. Fyrst og fremst þurfa menn að ætla sjer miklu lengri tíma til ferðanna, því að ekki er eigandi undir því, að menn komist hindrunarlaust, hvort sem farið væri á landi eða sjó og mundi varla af veita, að fara 6—10 dögum fyr af stað úr hinum fjarlægari hjeruðum, en að sumrinu. Og mundi það þó ekki hrökkva til, ef menn yrðu að fara af skipi á óhentugum stað, sökum þess að skipið kæmist ekki áfram, og brjótast þannig landveg til þings. Til ferðanna heim þyrfti einnig að ætla lengri tíma, því að sömu hindranir geta þá einnig komið fyrir, auk þess, sem þá er einnig hafíshættan miklu meiri. Og þó að menn geti nú gegnum símann vitað nokkurn veginn, hvað ísnum líður, og þingmenn lagt af stað hjeðan á skipi með góðri von um, að geta komizt þannig heim, þá getur hann rekið að á miðri leið þegar minst varir og hindrað alla sjóleið. Við þessu yrðu þingmenn auðvitað að gera meira og minna í ferðakostnaðarreikningum sínum, og mundi eigi þykja nema sanngjarnt. Ennfremur er það vitanlegt, að þinghaldið sjálft hlýtur að verða til muna dýrara að vetrinum en á sumrin, bæði að því er snertir ljós og hita o. fl.

Jeg geri minna úr þeirri ástæðu fyrir frumvarpinu, að háskólinn þurfi að vera hjer í húsinu á sama tíma og þingið, og mun það þó óþægilegt og fullþröngt, einkum síðan nauðsynlegt þótti, að taka nokkur herbergi niðri handa dyraverði til íbúðar. Jeg býst við, að það megi þó komast af með húsnæðið handa hvorutveggju fyrst um sinn.

Það er mikið talað um, að bændum sje miklu hentugra, að vera burtu frá búinu á veturna en á sumrin. En „eigi er minna um vert að gæta fengins fjár, en afla þess,“ segir máltækið. Og jeg veit marga þá, sem eigi telja sjer síður nauðsynlegt, að vera heima á vetrum til að sjá um hirðing gripa og meðferð á heyjum, einkum á beitarjörðum, en vera við heyskapinn á sumrum. — Það hefur verið minzt á horfelli, og hygg jeg, að lítið þurfi um hann að ræða, að minsta kosti þar sem jeg þekki til. En hins vegar er því ekki að leyna, að heyvandræði koma alt af fyrir við og við, en þar með er ekki sagt, að þingmaðurinn verði sjálfur heylaus. En þegar að sverfur af vetrarharðindum, þá ríður meira en annars á því, að allrar hagsýni sje gætt við gripafóðrið og liðsinni veitt þeim, er í þröng lenda. Sú þröng þarf ekki ætíð að koma af mjög vítaverðu skeytingarleysi um ásetning. Það er eðlilegt, að menn treysti mikið á útbeitina, þar sem hún er venjulega mikil og góð.

Það eru einmitt fjárríkustu sveitirnar, sem mjög þurfa að nota beitina, og þar er víðast heyfengur lítill, t. d. í Jökuldalnum og í Fljótsdalshjeraði og víðar. Svo koma einnig erfið sumur með litlum og illum heyjum, og þá er vandinn mikill við fóðrun gripanna. (Sigurður Stefánsson: Það má setja minna á litlu heyin.) Jú, en þar geta komið ýmsar ástæður til greina, sem jeg ætla eigi að tala um hjer. Aftur geta komið vetrar, sem verða óvanalega harðir, og þótt menn setji á fullsæmilega og búist við allhörðum vetrum, þá geta þeir löngum orðið enn verri, en menn hafa búizt við þeim, og verður þá ætíð vorkunnarmál, þó að sumir komist í heyþröng. Þó að nú þingmennirnir sjálfir komist af, þá geta sveitungar þeirra orðið í vandræðum. Nú eru það vanalega menn meðal helztu manna sveitarinnar, sem á þing eru sendir, menn, sem líklegastir eru til að ráða fram úr þessum vandræðum sem öðrum, og gæti þá oft komið sjer illa, að þeir væru hvergi nærri, ekki sízt ef þeir væru sjálfir færir um að láta hey af hendi. Og það mun lengi verða svo hjer hjá okkur, að þegar vetrar verða harðir, verður hver að hjálpa öðrum, ef öllu á að reiða vel af.

Jeg ætla ekki að taka fleira fram að þessu sinni. Fyrir mjer er það, eins og jeg hef sagt, aðalástæðan fyrir því, að hafa þing á sumrin, að þá geta menn verið vissir um, að þingmenn komist til þings á tilteknum tíma, og það án mikilla erfiðleika og án þess að leggja líf sitt í hættu, og þar næst það, að þingin hljóta ætíð að verða til muna dýrari á vetrum, því að margur kostnaður kemur þá til greina, sem komast má hjá á sumrin.