22.08.1912
Efri deild: 32. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

37. mál, vörutollur

Þórarinn Jónsson:

Það er ekki margt, er jeg vildi taka fram viðvíkjandi frumv. þessu, með því að jeg ætla mjer ekki að fara nákvæmlega út í það.

En jeg vildi með nokkrum orðum skýra það, hvers vegna jeg reit undir nefndarálitið með fyrirvara.

Jeg lít svo á, að þar sem milliþinganefnd hefur starfað að skattamálunum, og margir hafa hugsað þau mál, þá sje þetta produkt bæði slæmt og lítið; það er í alla staði hreinasta neyðarúrræði, frumv. þetta, er hjer liggur fyrir.

Þegar milliþinganefndin hafði lokið störfum sínum, og komið fram með gott frv., kolaeinkaleyfi, sem jeg að vísu hafði ýmislegt við að athuga, þá rís upp ein stjett hjer í Reykjavík, og linnir ekki látum fyr en hún hefur ært fólk upp á móti því. Þetta hlýt jeg að telja mjög illa farið, því frv. var bæði gott og rjett í eðli sínu.

Jeg veit það, að það er oft nú á síðari tímum bent á ummæli eins vors mesta og mætasta manns um frjálsa verzlun, samkepni, en við vitum nú, að samkepnin getur verið tvíeggjað sverð, sem breytist alt í einu móti þeim, sem hennar eiga að hafa gagn, og að hún er nú orðin alt öðru vísi en fyrst var. Þeir, sem mikinn kraft hafa, fjárafla, geta kúgað aðra, og tekið alla verzlunina sjer í hönd, og þannig gert hana að hinni örgustu einokun.

Þetta er mikið farið að tíðkast hin síðari ár um heiminn — hringirnir svonefndu, og það er eftirtektarvert í þessu sambandi, að Reykvíkingar, er mótmæltu einkaleyfunum á þingmálafundunum, fara nú að láta heyra raddir sín á meðal um að biðja þingið að vernda þá gegn einokun þeirri, sem nú er hjer á steinolíu. Og þessi breyting hefur orðið síðan í vor. Væntanlega opnast augu manna enn betur, er fram sækir, og það hafa að eins verið æsingarnar, er blinduðu menn í svip. En til þess að taka hjer í taumana, er ekkert annað ráð, en landseinkasala. — Ráðið, sem hefur verið úthúðað með öllum blekkingum, ósannindum og ofsa.

Jeg get ekki greitt þessu frumv. atkv., fyr en í nauðir rekur, en jeg mun hins vegar sýna því þá vægð, að greiða því ekki mótatkvæði.

Það, sem gert hefur verið hjer á þinginu nú í skattalöggjöfinni, er annars alt að minni hyggju fálm út í loftið, og það hefur enginn vilji komið fram hjá þinginu um þau efni.

Öllum þeim breytingartillögum, er hafa komið fram, mun jeg greiða atkvæði á móti, og það þótt jeg telji, að sumar þeirra sjeu til bóta, en jeg lít svo á, að það sje ekki nema eins og ein pylsa í sláturtíð; frumv. sje að öllu leyti svoddan ómynd og forsmán, að það sje ekki hægt að lagfæra það, og að lappa upp á það sje þýðingarlítið í þessari háttv. deild, þar sem búast má við, að alt það yrði felt í Nd., og öllu stýrt í voða; sje bezt að láta það fljúga eins og það er.

Margt af því, er jeg hefði viljað fram taka, hafa aðrir háttv. þingm. tekið fram, og vegna þess að jeg hata allar endurtekningar, þá vil jeg ekki gera mig sekan um þær, og er heldur ekki svo gjarnt að lengja þingtíðindin að óþörfu.