02.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Ráðherrann (H. H.):

Eg þurfti ekki þessa skýringu á hinum almennu eftirlaunalögum, að sami maður geti ekki samtímis notið embættislauna og eftirlauna samkvæmt þeim. Það vissi eg vel.

Í núgildandi fyrirmælum um eftirlaun ráðherra, nefnilega lögum nr. 17, 3. okt. 1903, er ákveðið að um ráðherraeftirlaun skuli fara eftir hinum almennu eftirlaunalögum. En hér er verið að setja alveg nýjar og sérstæðar undantekningarreglur, sem ekki miðast að neinu leyti við gildandi eftirlaunalög Það verður að hafa nýmælin skýr.

Eg vil skjóta því til nefndarinnar, hvort hún vildi ekki athuga meðal annars 2. lið 1. gr. frv., sem er mjög ógreinilega orðaður: „Hafi ráðherra fluzt í ráðherraembættið úr öðru eftirlaunaembætti, þá nýtur hann og eftirlauna eftir hið fyrra embætti sitt.“ Það er eins og hann eigi að hafa eftirlaun eftir fyrra embætti sitt í viðbót við ráðherralaunin, og mun það þó væntanlega ekki vera tilætlunin. Að minsta kosti væri það mjög fráleitt anda þeirra eftirlaunalaga, er hingað til hafa gilt.