20.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

17. mál, eftirlit með þilskipum

Flutningsm. (Lárus H. Bjarnason):

Eg hygg, að allir fullorðnir menn séu mér sammála um það, að þeir, sem byggja þetta stóra land, séu bæði of fáir og fátækir, og þá býst eg líka við, að þeir hinir sömu menn séu mér samdóma um það, að rétt sé að taka höndum saman til þess að girða sem bezt fyrir þær mannhættur, sem viðráðanlegar eru. Það er til fróðleg skýrsla um manntjón af druknun hér á landi prentaður fyrirlestur eftir landlækni Guðm. Björnsson, og þó að þar kenni samkv. hlutarins eðli fárra eða engra nýmæla, þá er þar safnað saman í fróðlegu og læsilegu máli mörgu af því, sem áður var á við og dreif og fáir því þektu. Það mun koma mörgum þeim, er skýrsluna lesa, á óvart, að manntjón hefir orðið mikið meira af þilskipum en opnum bátum, því flestir munu hafa álitið, að þilskipin væru miklu betri farkostur en opnu skipin. En eftir þessari og öðrum skýrslum, sem fyrir liggja, hefir manntjónið á þilskipum, á árunum 1904 til 1910 verið 15%, en af fiskiskipum 12%. Þetta er mikil blóðtaka, sérstaklega ef druknanir hér eru bornar saman við önnur lönd, t. d. Noreg, þar druknar ekki meira en 1% á ári hverju. Eg býst ekki við að sjóhættan af náttúrunnar völdum sé mikið meiri hér en víða annarstaðar, og ekki hygg eg, að Íslendingar séu svo miklir eftirbátar annara þjóða í sjómensku, að þessi mikli munur geti stafað af því. En sé svo, að munurinn stafi hvorki af meiri hættum af náttúrunnar völdum, né af illri sjómensku, þá hlýtur hann að liggja í því, að okkar skip séu ótraustari eða lakar útbúin. En það er aftur sumpart lögunum að kenna og sumpart framkvæmd laganna.

Lögunum frá 3. okt. 1903 er ekki lítið áfátt. Að vísu skipa þau svo fyrir, að skoðunarmenn skuli rannsaka öll þilskip, er fiskiveiðar stunda eða vörur flytja, og lögreglustjóri hefir ekki leyfi til að lögskrá menn á þau, nema slík skoðun hafi farið fram. — En auk þess sem lögin ná hvorki til mannflutningaskipa né opinna vélaskipa, þá veita þau í fyrsta lagi enga tryggingu fyrir því að skoðunarmennn séu heppilega valdir og í öðru lagi er skoðunarmönnum lagt of lítið vald í hendur, enda ekki nægileg viðurlög fyrir vanrækslu útgerðarmanna eða skoðunarmanna. Að vísu á lögreglustjóri að útnefna skoðunarmennina, en það hefir ekki reynzt næg trygging. Til þess að tryggja það, að skoðunarmenn séu starfi sínu fullkomlega vaxnir, þyrfti að gefa sjómönnunum sjálfum einhver áhrif á valið. t. d. uppástungurétt. Skoðunarmenn geta hvorki krafist þess, að skipin séu tóm né þau dregin á þurt land. En það sjá allir, að liggi skipið á sjó úti, ef til vill full fermt af vörum, þá getur skoðunin ekki orðið annað en nafnið tómt, að eins til málamynda. Þetta er stór galli.

Ennfremur hafa lögin verið misjafnlega framkvæmd, og dæmi eru til þess, ekki ýkjagömul, að betur hefði mátt með þau fara. Það er því brýn nauðsyn að hér sé eitthvað bætt úr — jafnvel þó ekki sé litið öðru vísi á málið en frá peningalegu sjónarmiði. Því hefir verið haldið fram, að hvert líf ungs, verkfœrs karlmanns, sé 20 þús. króna virði. Sumir hafa sagt það alt að 30 þús. kr., aðrir 15 þús. kr. virði. En hvað sem réttast er um það, þá höfum vér ekki ráð á að missa menn í sjóinn fyrir handvömm.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er reynt að bæta úr helztu ágöllunum á gildandi lögum. Eftir því á skoðunin að ná til allra skipa, til hvers sem þau eru notuð — ekki að eins til fiski- og vöruskipa, heldur einnig til mannflutningaskipa og ekki að eins til þilskipa heldur og til opinna vélaskipa. Einnig er svo fyrir skipað, að þeim, sem annast ætti að vera um að varðveita líf og heilbrigði skipshafna, sjálfum sjómönnunum, skipaábyrgðarfélögum eða sveitastjórnum, er fengið vald til þess að hafa áhrif á útnefningu skoðunarmanna.

Þá er og ætlast til að skoðunarmenn geti heimtað skip dregið á land upp og tómt á skip að vera sem skoða á. Að öðrum kosti verður skoðunin ekki eins ábyggileg og þörf er á. Það bar nýskeð til, að skip eitt, sem dæmt var í 1. flokk, var af tilefni frá sjómönnum, sem á því áttu að vera, dregið á land upp og skoðað af nýju og reyndist það, þegar það var tæmt, svo ormsmogið, að því var ekki hleypt á sjó. En slíkt verður ekki rannsakað úti á höfninni. Ennfremur eru viðurlög lögð bæði á útgerðarmenn og skoðunarmenn, ef þeir vanrækja skyldu sína, bæði skaðabætur til þeirra, er verða fyrir lífs- eða eignatjóni og refsing til handa skoðunarmönnum samkvæmt 13. kap. almennra hegningarlaga. Þá er það og nýmæli, að bæði helmingur sjómanna og útgerðarmaður getur heimtað skoðunargerðina eiðfesta.

Annars skal eg að lokum geta þess, að eg hafði upphaflega hugsað mér útnefning skoðunarmanna nokkuð öðruvísi fyrirkomið. Við höfum nú lög frá 9. júlí 1909 sem skipa fyrir, að hver fiskur, sem af landinu er fluttur til tiltekinna útlanda skuli skoðaður og eru til þess skipaðir fastir menn, svo nefndir fiskimatsmenn, með tilteknum umdæmum og ákveðnum launum, 8—16—18—20 hundruð krónum. Og hefði líkt fyrirkomulag átt að vera um skoðunarmenn skipa. En eftir atvikum, sérstaklega kostnaðarins vegna, áleit eg þó að fyrirkomulag frumvarpsins væri reynandi. En telji þingið heppilegra að hafa skoðunarmenn á föstum launum með ákveðnum umdæmum, þá má altaf breyta frv. á þann veg.

Eg þykist vita, að hv. deild sýni frv. þann sóma, að setja það í nefnd, enda geri eg það að tillögu minni, að því verði vísað til 5 manna nefndar.