06.08.1912
Efri deild: 17. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

15. mál, útrýming fjárkláðans

Stefán Stefánsson:

Það getur verið rjett, sem hæstv. ráðherra tók fram, að skýrslurnar yrðu ekki komnar svo snemma til stjórnarráðsins, að ráðherra gæti eftir þeim lagt fram rökstuddar tillögur fyrir þingið. En það hefur oft átt sjer stað áður, ef stjórnin hefur eigi, sökum naumleika tímans, getað haft frumvörpin til í tæka tíð, þá hefur hún fengið einstaka þingmenn til þess að flytja mál inn í þingið og slíkt ætti að vera eins auðvelt með þetta mál, sem önnur. —

Undirbúningur þessa máls frá hendi landsstjórnarinnar finst mjer hafa verið harla ljelegur, eins og framsm. hefur þegar bent á. Því hefur verið haldið fram hjer í þessari háttv. deild, að skýrslurnar frá sýslumönnum mundu ekki verða sem ábyggilegastar. En hverjum væri um að kenna, ef svo færi? Það er stjórnarinnar að annast um, og ganga eftir því, að skýrslurnar sjeu sem samvizkusamlegast gerðar, svo á þeim verði bygt.

Hingað til hefur lögunum um skýrslur um alidýrasjúkdóma verið afar slælega framfylgt, og lítið eftirlit haft með því, að skýrslurnar væru vel af hendi leystar, en slík vanræksla má eigi eiga sjer stað framvegis. Hefði t. d. verið í stjórnarráðinu annar eins maður og Páll heitinn Briem amtmaður þá mundi betur hafa verið eftir því gengið, að skýrslurnar yrðu sem ábyggilegastar.

Sem dæmi upp á það, hve skýrslurnar eru hroðvirknislega af hendi leystar, vildi jeg leyfa mjer, að geta þess, að ósamræmi er milli skýrslnanna og tilkynningu þeirra, er sýslumenn hafa sent stjórnarráðinu. Í apríl 1911 sendir t. d. sýslumaðurinn í Skagafirði símskeyti til stjórnarráðsins um það, að kláði sje kominn upp á tveim bæjum í Akrahreppi, en á skýrslu um alidýrasjúkdóma, er sami sýslumaður sendir um sumarið, er þar enginn kláði talinn; í Staðarhreppi er kláði talinn á þrem bæjum, en eftir skýrslunum hafa ekki verið þar nema tvö kláðatilfelli. Eftir þessu hvorutveggja hefði sýslumaður átt að taka, áður en hann afgreiddi skýrslurnar til stjórnarráðsins, og þó honum hefði sjezt yfir þetta, þá hefði stjórnarráðið átt að taka eftir þessum villum og brýna fyrir hlutaðeigendum, að láta slíkt eigi koma oftar fyrir. En sannleikurinn er líklega sá, að enginn lítur á skýrslur þessar, hvorki stjórnarvöld nje dýralæknir, þær eru bara lagðar í bunka í stjórnarráðinu og geymdar seinni tímanum.

Háttv. 2.kgk. þm. vildi gera nokkuð lítið úr skýrslunum yfirleitt. En jeg vil leyfa mjer að spyrja háttv. 2. kgk. þm., á hvern hátt annan hann hyggst að afla sjer upplýsinga; jeg þekki enga aðra leið. Eða ætlast hv. 2. kgk. þm. til dæmis til þess, að menn færu að þjóta upp til handa og fóta og tvíbaða alt sauðfje á landinu, ef kláði kynni að finnast einhversstaðar á einni kind eða svo? Slíkt næði auðvitað engri átt; væri aðeins til þess að baka fjáreigendum öldungis óþarfan kostnað. — Jeg vil líka leyfa mjer að benda hv. 2. kgk. þm. á það, að við nefndarmenn ráðum ekki deildinni til þess að fella frumvarp þetta, af þeirri ástæðu, að við ekki viljum útrýma fjárkláðanum, heldur af því að undirbúningur málsins er allsendis ónógur, og við viljum með engu móti demba 1/4 miljónar kostnaði á þjóðina, að órannsökuðu eða lítt rannsökuðu máli. En hefði lögunum nr. 40 frá 8. nóv. 1901 verið framfylgt rækilega, þá er jeg fyrir mitt leyti sannfærður um, að enginn kláði væri nú í landinu. En því miður hefur lögum þessum lítið verið beitt, og það jafnvel þótt full ástæða hafi verið til þess.

Stjórnarráðinu hafa t. d. borizt ítarleg brjef frá Húnvetningum, þar sem þess er krafizt, að það láti útrýmingarböðun fram fara í sýslunni, en þessu hefur eigi verið sint, þótt kláði hafi verið þar talsverður, og sýslan öll grunsöm.

Háttv. 2. kgk. þm. sagði, að 3. liður þingályktunartillögunnar færi í rammskakka átt, en þessi ummæli hans hljóta að vera sprottin af því, að hv. þm. hefur tekið tiilöguna rammskakt.

Hann hjelt því fram, háttv. 2. kgk., að það næði engri átt, að einstök hjeruð færu að gera samþyktir um utrýmingu fjárkláðans; en það stendur hvergi í tillögunni, að þeim sje heimilað að gera samþyktir um kláðaútrýmingu heldur um þrifaböðun, sem er tvent ólíkt, jafnvel þó vjer álítum, að almenn þrifaböðun gæti stutt að útrýmingu kláðans. Oss nefndarmönnum þótti frjálslegra að lofa fjáreigendum að ráða því sjálfir, hvort þeir vildu fyrirskipa almenna þrifaböðun, heldur en að neyða þá til þess með almennum lögum að þrífa fje sitt, sem vitanlega margborgar sig.