22.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

4. mál, breyting á alþingistíma

Steingrímur Jónsson:

Þótt snjöll væri hún, ræða háttv. þm. Ísaf., þá gat hún þó ekki sannfært mig um það, að fella ætti frumvarp það, sem hjer liggur fyrir. Aðalástæðan, sem vakir fyrir mjer, hefur enn ekki komið verulega fram í umræðunum; það hefur verið farið í kringum hana. Ef frumv. er felt (Sigurður Stefánsson: Fór ekki fram á það!, þá helzt sami þingtími og nú er. Það er að sjálfsögðu mikill vandi að finna þingtíma, sem er heppilegur öllum, heppilegur öllum stjettum landsins, jafnt bændum sem öðrum atvinnurekendum. En það tel jeg fullreynt síðan 1905, að þessi tími, sem nú er lögákveðinn, er ekki heppilegur, tíminn frá 15. febr. og fram á vor. Vitanlega er það hart aðgöngu fyrir okkur Norðlinga, að vera burtu frá heimilum okkar 2 beztu mánuði ársins. En við skulum gæta að því, sem við nú höfum.

Eftir reynslu tveggja síðustu þinga, þá er sá tími, sem nú er að minni hyggju verstur. Ef þingið væri að eins í 8 vikur, þá væri ekkert verulegt við þingtímann að athuga. Menn væru þá komnir heim nokkru fyrir hjúadag og voryrkju. En það tel jeg mest um vert öllum búsýslumönnum, að geta sjálfir stjórnað heimilum sínum á tímabilinu frá hjúadegi og alt fram að slætti. Það má vera, að það sje eins nauðsynlegt, að vera heima á haustin til þess að ráðstafa haustverzluninni. — Mjer yrði engin skotaskuld úr því, að velja tíma sem jeg væri ánægður með, ef jeg hefði fríar hendur. Að sjálfsögðu er langbezt, að taka miðjan veturinn og byrja þá nálægt 15. nóvember. Það yrði eflaust heppilegast öllum stjettum. Og framkvæmanlegt er það. En þá yrði þingið að líkindum helmingi lengra en það er nú, og að því skapi dýrara.

Eftir að hafa athugað þetta mál vandlega, þá hallast jeg eindregið að frumv., heldur en hafa þingtímann eins og hann er. Jeg vildi kannske fult eins vel láta það byrja 17. júní, eða einhvern dag milli 17. júní og 1. júlí. Ástæðan til þess er sú, að jeg óttast, að þing hjer á eftir verði ekki styttra en 10—12 vikur. En óheppilegt er það, að sitja hjer kannske fram í miðjan september, eins og t. d. 1907.

Þetta verða menn að íhuga nákvæmlega. Vera má, að jeg komi fram með breyt.till. seinna í þessa átt; en jeg geri það ekki nú, því jeg óttast að drepa málið með því.

Það hefur verið talað um, að í þessu máli hafi vilji kjósanda ekki komið fram. Hann kemur hjer eðlilega lítið fram. Þetta mál varðar mest þingmennina sjálfa og þingmannaefni. Málið grípur alls ekki hugi kjósanda.

Enga ástæðu sje jeg til þess, að setja málið í nefnd. Hjer er að eins um það að ræða, að fella eða samþykkja frumvarpið; menn verða að vera annaðhvort með eða móti.