09.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

10. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Jens Pálsson:

Jeg á breytingartillögu á þingskj. 324, sem jeg verð að tala nokkur orð um, en jeg skal strax geta þess. að þar hefur orðið prentvilla, „Gerðahverfi“ í stað „Garðahverfi“ eins og allir kunnugir vita. Annars eru prentvillur mjög tíðar nú, síðan einn starfsmaður þingsins veiktist.

Mig furðaði stórlega á því, að þessi lína var ekki lögð, þegar landið keypti talsímakerfi Hafnarfjarðar. Þessi lína gizka jeg á sem kunnugur maður að mundi verða 4 í hæsta lagi 5 kílóm. löng; hún liggur um tvö þjettbygð hverfi, Garðahverfi, sem í eru 100 manns, og þaðan í annað í hverfi eða mjög þjettbygt lítið bygðarlag, í Álftanesið, sjálft með 200 manns eða alls um 300 manns; getur verið að skeiki fáeinum manneskjum til eða frá. Hvert heimili í hverfum þessum hefði auðsótt í dagleg not af þessari línu, ef stöð yrði sett í Garðahverfi, t. d. í Görðum og önnur í Sviðholtshverfinu, t. d. í Sviðholti eða á Bjarnastöðum. Og þessir 300 manns hafa allir dagleg viðskifti við Hafnarfjörð í og Reykjavík og því enginn efi á því, að línan mundi verða mikið notuð og óskiljanlegt annað, en að hún borgaði sig vel. Jeg veit það, að ef lína þessi hefði verið lögð strax, er Hafnarfjarðarsímakerfið var keypt, hefði hún getað sparað mjer mjög margar ferðir til Hafnarfjarðar, og margar ferðir til Reykjavíkur; og eins er það, að meðan presturinn situr í Görðum, þá getur hún sparað sóknarbörnum hans margar sendiferðir, og þar sem Hafnarfjörður er læknissetur, má geta nærri, hve oft og stöðugt þessi lína yrði notuð til erindareksturs við lækninn. Betra en ekkert væri því, að fá þessa afar nauðsynlegu símalínu inn í 4. gr.; þá má þó ætla, að hún verði einhverntíma lögð.

Til er og önnur hlið þessa litla bygðamálefnis. Sú hlið, að einstakir menn taki sig til og fái leyfi til að leggja þessa stuttu en nauðsynlegu línu. Það, að hún komist inn í 4. gr., gæti örfað framtakssemi þeirra, er kynnu að hafa hug á því, og yrði þessi litla breytingartillaga þá ef til vildi bráðlega að æskilegum notum; enda hefur þessi framkvæmd þegar komið til orða.

Þakkir kann jeg hinum háttv. framsm. (E. J.) fyrir hans hlýlegu orð í garð tillögunnar.

Mjer þótti rjettara, að tiltaka hverfi í tillögunni, því að það er ekki svo hægt að segja fyrirfram, á hverjum heimilum væntanlegar stöðvar mundu enda.

Jeg vil, úr því jeg tók til máls, nota tækifærið til að lýsa yfir því, að jeg yfirleitt er sömu skoðunar sem háttv. 1. þm. Húnvetninga (Þ. J.) um það, hvernig haga ætti símamálum. Um aðrar tillögur, er fram hafa komið, finn jeg ekki ástæðu til að fjölyrða, en vil aðeins taka það fram, að mjer finst margt mæla með tillögunni um símann frá Sauðárkróki til Siglufjarðar, og mun því greiða þeirri tillögu atkvæði mitt.