31.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

17. mál, eftirlit með þilskipum

Jón Magnússon:

Það er að eins örstutt athugasemd, sem eiginlega kemur ekki málinu við á þessu stigi. Eg ætla að víkja lítið eitt að því, sem hv. flutnm. (L. H. B.) sagði við 1. umr. málsins, að frv. þetta væri nauðsynlegt vegna þess að útbúnaður á íslenzkum skipum væri yfirleitt verri en þeim útlendu skipum, sem stunduðu veiðar hér við land og gat hann þá helzt franskra og norskra skipa til samanburðar. Þessi orð sín bygði hv. þm. á skýrslu frá landlækni, er hann nefndi þá. Eg verð nú að segja, að þar sem eg þekki til, bæði hér við Faxaflóa og áður á Eyjafirði, eiga þessi orð hv. þm. als ekki við. Það þori eg að fullyrða. Eg segi þetta ekki til þess að mæla á móti frv., heldur af því að það er rétt. Eg skal nefna til dæmis, að þegar Englendingar seldu kúttera sína, þá fóru beztu skipin hingað til lands, en hín lökustu til Noregs.

Hv. þm. talaði þá og, sínu máli til stuðnings, um % muninn á tölu þeirra manna, er druknuðu hér og í Noregi — og bygði hann það á sömu skýrslunni. En það er ekki réttur samanburður. Ef á að fara að bera manntjónið á vetrarvertíðarskipum okkar saman við manntjónið á skipum annara þjóða, þá er réttast að bera það saman við druknanirnar á frönsku skútunum, og % talan verður hér um bil sú sama. Þó skal eg geta þess, að t. d. í vetur, að af 24 þilskipum hér við Faxaflóa, hefir aðeins farist 1 skip, auk skipsins, sem varð fyrir ásiglingunni í vetur, en af frönskum skipum hafa á sama tíma farist 8—11 þeirra með allri skipshöfn. Nokkuð getur þetta auðvitað stafað af því, að Frakkar leggja fyr út en við. Og mér er vel kunnugt um það, að margir útgerðarmenn hér leggja sem mesta stund á það að gera skip sín sem bezt út. Þess vegna held eg að þessi ummæli hv. flutnm. séu ekki rétt. En — eins og eg tók fram — þá er þetta að eins athugasemd, sem í raun og veru kemur málinu ekki víð, en eg kunni betur við að láta þessa getið, vegna ummæla hv. flutnm. Hvað frv. sjálft snertir, þá hefi eg aðeins örfáar athugasemdir við það að gera. Mér virðast yfirleitt br.till. nefndarinnar vera öllu lakari en sjálft frv. í frv. er talað um, að skoðunargerðin skuli fara fram á þeim stað, sem skipin eru gerð út frá. En eftir núgildandi lögum fer hún fram á þeim stað, sem skipin leggja út frá. Eg held að ákvæði gildandi laga séu öllu gleggri og heppilegri. Eg skal taka til dæmis, að flest skip, sem gerð eru út á Seltjarnarnesi leggja út héðan úr Reykjavík. Gæti það því orðið talsvert óhagræði að fara flytja skipin út á Seltjarnarnes til að skoða þau þar.

Þá vildi eg spyrja nefndina að því, hvers vegna hún er að amast við því, að Gullbringu- og Kjósarsýsla fái sérstaka skoðunarmenn. Það gæti orðið allmikill kostnaður af því, ef t. d. skip, sem gerð eru út í Keflavík, þyrftu að sækja skoðunarmenn sína hingað til Reykjavíkur. — Þá vil eg og skjóta því til nefndarinnar, hvort það sé ekki nokkuð strangt ákvæði, að skipin skuli altaf vera skoðuð svona. Það virðist vera óþarfur kostnaðarauki og fyrirhöfn, ef er t. d. að ræða um nýtt botnvörpuskip frá útlöndum, eða skip sem nýkomin eru úr skoðun þaðan. Botnvörpungar frá Englandi, koma hingað venjulega með mikið af ís og yrði það þeim talsvert kostnaðarsamt og óþægilegt að þurfa að flytja hann í land. Eg held því að þetta ákvæði sé helzt til strangt — réttara aðeins að heimila skoðun á skipinu tómu, ef þörf þykir.

Þessu vildi eg aðeins skjóta fram nefndinni til athugunar, og eins geta þess að eg álít það algerlega ástæðulaust að gera Gullbringu- og Kjósarsýslu nokkuð lægra undir höfði, að því er skoðun skipa þar snertir, en öðrum sýslum landsins.