31.07.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

17. mál, eftirlit með þilskipum

Guðlaugur Guðmundsson:

Eg skal ekki blanda mér í þessa deilu um hvort útbúnaður íslenzkra fiskiskipa sé yfirleitt verri en hjá öðrum þjóðum. Mér er óhætt að fullyrða, að þau skip, sem gerð eru út frá Eyjafirði, séu mun betur út búin heldur en þau skip, sem koma frá Noregi og Frakklandi og ganga fyrir Norðurlandi. Eg skal taka það fram, að eg á hér við seglskip. Eg hefi átt kost á að sjá íshafsskip Norðmanna, sem haldið er út til selveiða og annara veiða norður í höfum, og er útbúnaður á þeim mun betri heldur en á öðrum útlendum skipum, sem haldið er út hér við land, og verð eg að álíta, að útbúnaður íslenzkra skipa á Eyjafirði sé litlu eða engu lakari. Enda skal eg taka það fram, að mannskaðar hafa í seinni tíð verið miklu minni fyrir Norðurlandi heldur en fyrir Suðurlandi. Hættan þar, sérstaklega fyrir hákarlaskipin, er aðallega fólgin í því, að þau rekast á hafísjaka á siglingu í hríð eða myrkri, svo að gat komi á þau og þau sökkvi. Það er álit kunnugra manna að skip, sem algarlega hafa horfið og ekkert rekið af, hafi farist á þennan hátt. Eg held þess vegna hvað Eyjafjörð snertir, að útbúnaður skipa þar sé í góðu lagi, skoðunarmennirnir leysi verk sitt samvizkusamlega af hendi.

En eg stóð nú eiginlega ekki upp til að ræða um þetta, heldur til að spyrjast fyrir um eitt atriði í frumv. í 4. gr. er ákveðin þreföld borgun móti því sem nú tíðkast fyrir skoðun skipa. Mér er ekki ljós ástæðan til þessa.

Nú fær hver skoðunarmaður 3 kr. fyrir skoðun þilskips, og getur sú borgun verið heldur lág, þegar um gufuskip er að ræða, en hins vegar finst mér 10 kr. til hvers skoðunarmanns vera æði há borgun, sérstaklega fyrir skoðun einþiljaðra hákarlaskipa og minni þilskipa, og tilfinnanlegur skattur á, útgerðarmönnum. Eg tel þessa borgun ekki of háa, þegar um er að ræða skoðun á gufskipum með vélum og miklum útbúnaði, en óhæfilega háa fyrir skoðun smærri seglskipa. Eg vil því skjóta því til hinnar hv. nefndar, hvort ekki sé gerlegt að breyta þessu og hafa gjaldið mismunandi hátt, eftir stærð skipanna og eftir því hvort það eru gufuskip eða seglskip sem skoðuð eru.