03.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

17. mál, eftirlit með þilskipum

Framsögum. (Lárus H. Bjarnason):

Hér liggja fyrir br.till. á 2 þskj., þgskj. 133 frá nefndinni og þskj. 119 frá hv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.). Nefndin hefir athugað br.till. á þskj. 119 og getur að nokkuru leyti fallizt á þær. 1. brt. nefndarinnar á þgskj. 133 við 2. gr. eru að efni til samhljóða br.till. hv. 1. þm. G.-K. við þá gr., og er honum væntanlega fullnægt með því, og vona eg því, að hann taki aftur 1. og 2. br.till. sína.

Með 3. br.till. sama hv. þm. getur nefndin ekki verið, eins og br.till. er orðuð, en í líka átt gengur 2. br.till. nefndarinnar, þar sem lagt er til að við sé bætt í 1. mgr. 3. gr. „eða hafa haft þar vetrarlegu, þótt gerð séu út frá öðrum stað“.

3. br.till. hv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) girðir ekki fyrir það, að útgerðarmenn fari í kringum lögin, láti skoða skip í öðru umdæmi en þau eru gerð út í, kannske bara til þess að fá vægari skoðunarmenn, eins og sagt er að kornið hafi fyrir.

4. br.till. sama hv. þm. getur nefndin ekki heldur mælt með, ekki þó svo að skilja, að nefndin vilji gera Gullbringu- og Kjósarsýslu neina hneisu, langt í frá, en það er eðlilegast, að skoðunarmenn hér úr Reykjavík, sem ætla má að séu hæfastir til skoðunar, framkvæmi skoðun sem víðast við verður komið. Í Gullbringusýslu ætti skoðunarmönnum úr Reykjavík að vera auðvelt að framkvæma skoðun, vegna nálægðar. Aftur í móti ekki t. d. vestur í Stykkishólmi, hvað þá fjær.

Að 5. og 6. br.till. sama hv. þm. gengur nefndin. Það mun hafa verið hv. þm. Ak. (Guðl. G.), sem vakti máls á því, að réttast væri að skoðunarkaupið færi eftir stærð skipanna. Að því miða þessar br.till. Leggur nefndin því til að samþykkja téðar br.till., og þar sem 1.—3. br.till. hv. þm. eru teknar upp að efni til af nefndinni, þá er að eins 4. br.till, sem nefndin leggur á móti.