03.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

17. mál, eftirlit með þilskipum

Bjarni Jónsson:

Það eru að eins örfáar aths., því að hv þm. K.-G. hefir tekið af mér ómakið og sagt margt af því, sem eg vildi sagt hafa. Þó er eg ósammála honum um það atriði, að 1. gr. falli burt og orðunum „að jafnaði“ verði skotið inn í frv. Eg er í því atriði sammála því sem hv. 1. þm. Rv. hélt fram við fyrstu umr. málsins, en er nú horfinn frá, nfl. það, að gera þar engar undantekningar, skipin skuli altaf, fortakslaust, vera skoðuð tóm. Menn geta átt líf sitt undir því, og þótt eitthvað aukaómak afhljótist, þá er það lítið að setja fyrir sig, þegar líf manna getur verið í veði.

Hinsvegar er eg sammála hv. 1. þm. K.-G. um 4 br.till. hans, að engin undantekning sé gerð viðvíkjandi skoðunarmönnum þar, í Kjósar- og Gullbringusýslu, frá því, sem ætlast er til að verði í öðrum lögsagnarumdæmum landsins. Eg gæti verið því samþykkur, ef tilætlunin væri sú, að öllu landinu skyldi skipt niður í sérstök skoðunarumdæmi, en fyrst svo er ekki, heldur farið eftir lögsagnarumdæmum, þá virðist mér ekki fremur ástæða til þess að taka Gullbringusýslu undan en önnur héruð, sem nálægt Reykjavík liggja, t. d. Akranes. Eg vil ekki geta þess til, að þetta ákvæði frv. sé sprottið af því, að kvartað hefir verið undan einni skipskoðunargerð í Hafnarfirði. Það væri blátt áfram hlægilegt og leiddi til þess, ef nokkur samkvæmni væri, að í hvert skifti, sem skoðunarmenn einhvers umdæmis vanræktu skyldu sína, þá þyrfti að breyta lögunum og leggja umdæmið undir næstu skoðunarumdæmi. Niðurstaðan gæti orðið sú, að ekkert skoðunarumdæmi yrði að lokum í landi — en það veit eg að er ekki tilgangur hv. flutningsmanna.

Og jafnvel þótt þetta hérað fengi að hafa sína eigin skoðunarmenn, þá er alls ekki loku fyrir það skotið, að hægt sé að taka þá einmitt héðan úr Reykjavík, ef rétt er, að þeir muni beztir hér. Annars hygg eg, að því muni svo farið með þetta og fleira, að skoðunarmennirnir séu svona upp og ofan, jafnvitrir. Og eg hygg að menn í hinum ýmsu héruðum landsins viti yfirleitt jafnvel hve dýrt mannslífið sé og verði vandir að vali sínu á skoðunarmönnum. Hvernig sem eg velti málinu fyrir mér, þá get eg ekki annað séð en þetta ákvæði sé móðgandi fyrir viðkomandi héruð, einkum vegna þess, að nýlega hefir orðið mikið umtal bæði manna á meðal og í blöðunum út af skoðunargerð þeirri í Hafnarfirði, er eg áður nefndi — og hefir nú verið skipuð sakamálsrannsókn út af henni. En eg vona að hv. deild láti það ekki bitna á heilu héraði, þó einstaka menn hafi vanrækt skyldu sína, og samþykki br.till. hv. þm. K.- G. Samþykt ákvæðis frumvarpsins mundi óefað verða skoðað sem brennimark, er þingið setti á héraðið — og væri þá miður.