22.08.1912
Efri deild: 32. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

37. mál, vörutollur

Sigurður Stefánsson:

Það er hvorki margt nje mikið, sem jeg ætlaði mjer að segja. Jeg vil einungis enn taka það fram, að þessi margumræddi kolatollur var í rauninni hinn mesti ójafnaðarskattur á annan höfuðatvinnuveg landsmanna. Hve mikil gæði, sem ungir þingmenn, t. d. sessunautur minn, háttv. þm. V.-Sk., þykjast hafa í poka sínum, þá er jeg viss um, að þessi kolapoki hans er í augum flestra landsmanna einhver hinn stærsti syndapoki, sem þingmaðurinn hefði getað rogast með heim af þingi.

Það er engin furða, þótt þm. sjeu ekki allskostar ánægðir með þau tekjuaukafrv., sem hjer er um að ræða, þingið hefur engin tök á því, að gera jafn stór fjármál vel úr garði á einum sex vikum, sem eru alveg óundirbúin af landsstjórninni; slíkt er ekki þingmanna verk og á ekki að vera þingmanna verk, heldur stjórnarinnar, sem hefur tíma, þekkingu og starfskrafta til rækilegs undirbúnings allra fjármála. En nú hafa undanfarandi stjórnir algerlega vanrækt þetta hlutverk sitt, og þess vegna hefur þingið að þessu sinni orðið að taka fjármálin óundirbúin að öllu leyti í sínar hendur, til þess að bæta úr bráðustu fjárþörf landsins fyrir næstu fjárhagstímabil. Það er því engin furða, þótt missmíði og fljótaskrift kunni að vera á þessu frumvarpi, sem hjer liggur fyrir, enda er því ekki af þinginu ætlaður langur aldur. En það er nú undir stjórninni komið, hve gamalt það verður; sýni hún röggsemi og viturleik í fjármálum landsins, verða þessi lög að líkindum ekki gömul, en verði sama sleifarlagið á öllum hennar gerðum, og fyrirrennara hennar, þá má vel búast við, að burðast verði lengur með lög þessi, en nú er tilætlunin.

Háttv. þm. V.-Sk. taldi kolatollinum það til gildis fram yfir þetta frumv., að útlendingar borguðu mikinn hluta af honum, en hafi hann nokkuð athugað þetta frumvarp, þá mun hann sjá, að vörutollurinn kemur engu síður mjög mikið niður á útlendingum, ekki einungis kolatollurinn, heldur og mjög mikill hluti tollsins af öðrum vörum, einkum þeim, sem taldar eru í 6. flokknum í frumv., sem hefur inni að halda allar vjelar og byggingarefni, er þeir þyrftu til hins stórfeldara verksmiðjuiðnaðar síns hjer á landi. Það er því allsendis ástæðulaust að kvarta yfir því, að útlendingum sje hlíft með þessum lögum.