03.08.1912
Neðri deild: -1. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

17. mál, eftirlit með þilskipum

Framsm. (Lárus H. Bjarnason):

Eg tek það aftur fram að nefndinni er það áhugamál að skoðunarmenn skoði skipin þar sem þau eru gerð út, því að þá er síður hætt við að gengið verði fram hjá góðum skoðunarmönnum og lakari menn teknir. Það er hægt að fara kringum lögin, með því móti, að láta skip sigla þangað, sem lakari eru skoðanarmenn, og síðan leggja þaðan út, og það hefir verið gert. Hv. þm. Vestm. (J. M.) þekti ekkert dæmi þess að skip hefði skemst af farmi. Það sýnir bezt, hve fróður hann er um þetta efni. Það kemur ósjaldan fyrir að hleðsla raskast í skipi, jafnvel svo að skip fergt af, og dæmi eru þess að kviknað hafi í farmi o. s. frv. Skal eg svo að lokum leyfa mér að skírskota til þeirra orða, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði áðan, að mannslífin — ekki einungis líf sjómannanna sjálfra, heldur og líf vandamanna þeirra — væru dýrmætari heldur en hagsmunir einstakra útgerðarmanna. Þess vegna er það nauðsynlegt að tryggja sem bezt nákvæma og samvizkusamlega skoðun á skipunum.