06.08.1912
Efri deild: 17. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

49. mál, sala eggja eftir þyngd

Jens Pálsson:

Jeg vildi með örfáum orðum segja álit mitt um frumv. þetta, er hjer liggur fyrir háttv. deild.

Það er álit mitt, að frumv. sje í alla staði rjettmætt og gangi í þá átt, að tryggja kaup og sölu á eggjum eftir sannvirði þeirra, og þar með tryggja seljanda gegn kaupanda og kaupanda gegn seljanda, en auk þess sýnist mjer frumv. vera gagnlegt til eflingar hænsnaræktinni, því það hvetur þá, er hafa hænsni, til þess að bæta hænsnakynin, og er það ekki nema vel til fallið. Hænsnarækt er all arðsöm, einkum nálægt kaupstöðunum, og það er því vert að reyna að efla hana.

Jeg vil því mæla með frumv., að það fái óhindrað að ganga gegn um háttv. deild, en finn ekki ástæðu til þess, að leggja til, að nefnd sje skipuð í málið.