06.08.1912
Efri deild: 17. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

49. mál, sala eggja eftir þyngd

Steingrímur Jónsson:

Jeg er að öllu leyti sammála háttv. þingm. um efni og tilgang frumv. þessa, að það sje hagkvæmara, að egg sjeu seld eftir þyngd, heldur en eftir tölu.

En jeg vildi að eins spyrja meðmælendur frumv., hvað átt sje við, eða hvað orðið „sjálfkrafa“ í 1. gr. á að þýða; það veltur á nokkru, hvernig þetta orð er skilið, því eftir því fer, hvort hægt er að beita sektum eftir 2. gr., og hvort lögin verði að eins pappírs gagn.

Í sambandi við þetta vil jeg benda á lög um að greiða verkafólki vinnukaup sitt í peningum; það er víða misbrestur, því miður, á því, að þessum lögum sje framfylgt, og er það vegna orðalags frumv.; en tilgangurinn var vitanlega sá, að verkakaupið væri altaf greitt í peningum. Þess vegna verður það að vera ljóst, hvenær ber svo á að líta, sem viðkomandi hafi samið af sjer rjettinn. Þetta á orðið „sjálfkrafa“ að gera, en það er ekki svo ljóst, sem vera skyldi; vil jeg skjóta þessu til athugunar fyrir háttv. deild, án þess þó jeg telji, að nefnd þurfi að setja í málið.