10.08.1912
Efri deild: 21. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

49. mál, sala eggja eftir þyngd

Stefán Stefánsson:

Flestir munu játa, að þjóðin mundi bjargast af hjer eftir eins og hingað til án lagasetningar þeirrar, sem hjer liggur fyrir. En úr því farið er að setja lög um þessa smámuni á annað borð, verða lögin að vera þannig úr garði gerð, að ekki sje augljóst, að þau verði hjegóminn einber.

Jeg geng að því vísu, að háttv. deild sje oss flutningsmönnum að br.till. á þskj. 191 sammála um, að hún sje nauðsynleg til þess, að lög þessi nái tilgangi sínum.

Eftir frumv. getur kaupandi jafnan ráðið því, hvort eggin eru seld eftir þyngd eða tölu, þar sem hann þarf eigi annað, en æskja sölu eftir tölu, og það mundi hann jafnan gera, ef hann sæi sjer hag í því. Verði br.till. sþ., hlýtur salan jafnan að fara eftir þyngd, svo framarlega að kaupandi og seljandi komi sjer eigi saman um tölusölu, og með því er tilgangi laganna náð.

Jeg vænti því, að háttv. deild samþykki breytingartillöguna á þskj. 191, því með því einu móti getur þetta frumv. orðið að gagni.