30.07.1912
Efri deild: 12. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

4. mál, breyting á alþingistíma

Þórarinn Jónsson:

Jeg hef ekki sjerstaklega mikla löngun til þess að tala máli þessu; enda mundi það víst engu breyta um úrslit þess, því forlögin eru sýnileg. —

Og alt annað en skemtilegt er fyrir okkur bændurna að tala í málinu, þar sem altaf má búast við, að okkur verði einhver eigingirnishvöt borin á brýn, og að við sjeum því hjer að dæma í okkar eigin sök, að því er þetta mál snertir. En jeg verð að taka það fram, að mjer finst þetta frv., eins og reyndar mörg önnur frá hinni háttv. stjórn, hafa fengið harla ljelegan undirbúning, og athugasemdirnar við frumvarpið verð jeg að telja næsta ljettvægar. Raddir um það hef jeg engar heyrt eða kvartanir, að þingtími sá, sem nú er lögleiddur, þætti óhentugur, og ástæður þær, sem fram eru færðar fyrir því af stjórninni og öðrum Reykvíkingum, hafa allar verið tættar í sundur og skal jeg ekki endurtaka það. — Ekki er heldur verið að bera þetta undir hinar ýmsu stjettir landsins. Nei. Það virðist vera mest til þess gert, að Reykjavíkurbúar, ef þeir hafa dagstundar frí, geti notað það til þingsetu, og skal jeg ekki um það dæma, hversu heppilegt það er.

Jeg hef heyrt því slegið fram hjer í þessari háttv. deild, að bændum muni oftast hagfeldara að vera fjarvistum frá heimili sínu að sumarlagi, en að vetrum. Þannig löguð ummæli hljóta að vera sprottin af í einberri vanþekkingu á högum og lífsskilyrðum sveitabændanna. — Það hefur slæðzt inn í umræðurnar um mál þetta, að bændum gæti verið ókleyft að vera fjarverandi um vetrartímann, sökum þess að til horfellis gæti komið á peningi þeirra. Aðrar eins ástæður og þessar ættu helzt ekki að heyrast í þingsölunum.

En við það hljóta allir að kannast, að ólíkt hægra er að fá menn að vetrarlagi í stað sinn, heldur en á sumrum. Og ef um heyþrot væri að ræða, þá mundi flestum bændum, er á þingi sitja, auðvelt að gera nauðsynlegustu ráðstafanir, er að því lytu; þar sem nú eru víðast hvar komið talsímasambönd. — Ein höfuðástæðan, sem fram er borin til stuðnings frumvarpi þessu eru ferðalögin — það er dálítil ástæða.

Það er vitanlega betra að ferðast að sumarlagi, en taki maður nú tillit til alls, þá verða menn að viðurkenna það, að nú er orðinn allmikill munur á samgöngunum frá því, sem áður var; vegir stórum bættir og póstgöngur sömuleiðis. Og mjer er kunnugt um, að póstar tefjast mjög sjaldan fyrir veðurs sakir. Jeg veit t. d. að póstur hefur haldið áfram áætlunarferð sinni samfleytt í 5 stórhríðardaga og með honum verið ferðafólk, bæði konur sem karlar. Á vetrinum teppa líka mjög sjaldan vatnavextir. Svo að póstleiðin verður nú varla með nokkrum rökum talin ýkja torfær. Vjer vitum líka, að menn þeir, sem í milliþinganefndum hafa setið, og búsettir hafa verið út á landinu, hafa á engan hátt látið sjer vetrarferðalög fyrir brjósti brenna. Jeg fyrir mitt leyti kysi heldur að fara landveg um hávetur alla leið austan úr Múlasýslum, þótt stórhríð væri heldur en að vaða skarnið og rykið hjer á Reykjavíkurgötum einn einasta dag að sumarlagi, og slíkt hið sama mundu fleiri kjósa.

Hvað snertir, að ís geti tept þessar vetrarferðir, þá er nú ekki ráð fyrir því gerandi nema örsjaldan, og þegar það kemur fyrir, er það aðallega fyrir Norðurlandi milli Horns og Langaness. Annarstaðar að landinu mundu skip geta komizt með þingmenn, og enga frágangssök tel jeg, eftir því, sem jeg hef tekið fram, að fara með pósti alla leið norður í Þingeyjarsýslu, eins og það heldur ekki hefur verið talin frágangssök að sækja þaðan á fundi í milliþinganefndum eins og jeg gat áður.

Jeg þykist þá hafa sýnt fram á það, að þessi ástæða háttv. 2. þm. Norðmýlinga er heldur ekki þung á metunum.