13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sigurður Stefánsson, framsögum.:

Jeg finn eigi ástæðu til að vera fjölorður um þetta frumvarp.

Jeg gat þess við 1. umræðu í þessu máli, að frumv. færi fram á tvær aðalbreytingar á gildandi lagaákvæðum um þingfararkaup alþingismanna, sem sje hækkun á dagpeningum þeirra og fastákveðinn ferðakostnað.

Í nefndarálitinu eru færðar ástæður fyrir þessum tveimur aðalbreytingum.

Nefndin hefur orðið samdóma um það, að hækka bæri dagpeningana, að undanteknum einum nefndarmanni, og hefur ekki áliti hans verið útbýtt hjer í deildinni fyr en í dag, svo jeg veit ekki, hvort það getur komið til umræðu í dag; en breytingartillagan gæti auðvitað komið til atkvæða með samþykki deildarinnar.

Það er tekið fram í nefndarálitinu, að núgildandi ákvæði um fæðispeninga alþingismanna sje sett með einvaldskonungs tilskipun frá 8. marz 1843, svo að þetta ákvæði er því nær 70 ára gamalt; og eins og ræður að líkindum, er sú borgun, sem þá var ekki að eins sæmileg, heldur jafnvel rífleg, ekki lengur viðunanleg nú eða sæmileg, vegna þess að peningar hafa alt annað gildi nú. Það hefur breytzt svo mjög síðan, að telja má að 6 kr. þá á tímum, hafi svarað til 18 kr. nú á tímum.

Eftir því hefðu dagpeningar þingmanna átt að hækka ekki um 50% eða 3 kr. á dag, eins og hjer er farið fram á, heldur um 200%; svo að þá hefðu dagpeningarnir átt að verða 18 kr.

Hvorki flutningsmennirnir nje nefndin hafa viljað fara hærra en farið er fram á í frumvarpinu, og það aðeins með tilliti til þingmanna utan Reykjavíkur.

Það er sýnt fram á það með tölum í nefndarálitinu, að með ýtrasta sparnaði þingmanna geti þeir haft einar 6 kr. afgangs af mánaðarkaupi sínu. En auðvitað er það, að allur þorri þingmanna utan af landinu hefur ekki einn einasta eyri afgangs kostnaði, heldur skaðast meira og minna á þingförum í flestum tilfellum, þótt gætt sje hinnar mestu sparsemi.

Nefndin áleit, að þetta mætti ei lengur eiga sjer stað, og það því síður, sem þessi borgun væri alsendis ónóg, og gæti ekki jafnast á við kaup óbreyttra verkmanna.

Það er sagt að óbreyttar kaupakonur hafi nú t. d. í kaup 12 kr. um dag, sumar eftir sumar, á einum stað hjer á landi, Siglufirði, og er það nokkuð mikill mismunur, ef líkja skal saman við kaup þingmanna, sem geta tæpast talizt matvinnungar með því kaupi, er þeir nú hafa.

Jeg skal játa það, að mjer og flutningsmönnunum þótti það dálítið óviðkunnanlegt, að gera þennan mismun á þingmönnum utan Reykjavíkur og hinum, sem búsettir eru í Reykjavík, en þótti það samt ekki frágangssök að svo stöddu, að láta sitja við sama kaup, eða 6 kr., er hingað til hefur verið, enda þótt þessi mismunur sje ekki sem viðfeldnastur.

Því það er þó mikill munur á afstöðu þeirra og hinna þingmannanna, er koma að víðsvegar frá landinu, og telja má að 6 kr. sjeu jafn gott kaup fyrir þingmenn, sem búsettir eru í Reykjavík, sem 9 kr. dagpeningar fyrir hina; auk þess að taka ber tillit til þess, að þingmenn þeir, sem búsettir eru í Reykjavík, ættu ekki að þurfa að tefjast tilfinnanlega frá atvinnu sinni, eða fá aðra menn til þess að vinna verk sín.

Það var eigi meining nefndarinnar, að gera þetta af neinum kala til þingmanna þeirra, sem búsettir eru í Reykjavík, því vjer höfum notið alt of margra góðra þm. úr Reykjavík fyr og síðar, til þess að slíkt gæti komið til greina.

Hitt aðalatriðið, er frumv. fer fram á, er fast þingfararkaup, en áður en jeg vík að því, vil jeg samt sem áður geta þess, hversu miklu hækkunin nemur eftir 1. gr. frumv. Raunar er ekki hægt að segja það með vissu, vegna þess að maður getur ekki vitað hvað margir þingmenn verða búsettir í hvert sinn í Reykjavík, og hvað margir utan Reykjavíkur. Nú sem stendur eru búsettir í Reykjavík 14 þingmenn og 26 þingmenn utan Reykjavíkur.

Kaup þingmannanna um þingtímann verður nú í dagpeningum um 8 vikur 13448 kr., og sje síðan gert ráð fyrir, að hver þingmaður utan R.víkur sje að meðaltali viku til og frá þinginu heim til sín, — það er sumstaðar minna og sumstaðar meira og því ekki hægt að hnitmiða það nákvæmlega, í — og þeir fái þá 6 kr. í dagkaup, þá verður það fyrir 26 þingmenn 1092 kr. og dagpeningarnir als 14540 kr. miðað við þetta.

Eftir hækkun frumv. verða dagpeningar og ferðadagpeningar als 19446 kr. eða mismunur 4906 kr. eða hækkun sem næst 5000 kr., og er þetta eins og áður er fram tekið, miðað við skipun þingsins eins og hún er nú, hvað búsetustað þingmanna snertir.

Jeg geri ráð fyrir, að hækkunin fari aldrei fram úr 6000 kr., og er því hjer aðeins um að ræða þá lítilfjörlegu útgjaldaupphæð fyrir landssjóð. Sje aftur miðað við ferðakostnað síðustu þinga, þá verður mismunurinn miklu minni.

Þá vil jeg segja fá orð um ferðakostnaðinn.

Nefndinni var það fullljóst, að þar eru meiri vandkvæði á og margt fleira, er þarf að taka til greina, og ýms atvik, sem gera það að verkum, að erfitt er að fastsetja þann kostnað.

Eins og kunnugt er, þá hefur lengi verið talað um það, að ferðakostnaður sumra þingmanna væri ekki sem sanngjarnastur, og það enda komið fyrir, að ferðakostnaðarreikningar þingmanna úr sama hjeraði hafa verið misháir. Auðvitað er það, að þessar aðfinslur hafa oft og tíðum verið á litlum rökum bygðar, en þær hafa verið nóg til þess, að blöðin hafa oft gripið þær á lofti, og stundum dregið fram einstaka þingmenn, til þess að gera þá tortryggilega, en með því hefur verið kastað rýrð á þingið í heild sinni, þar sem ferðakostnaðarnefnd þingsins hefur úrskurðað alla reikninga þingmannanna. Þetta ferðakostnaðarnefndarinnar starf er vandasamt og oft og einatt erfitt viðfangs; nefndin hefur oftast nær nauman tíma, og verður því að flaustra af verkinu, án þess máske að hafa getað leitað sjer nauðsynlegra upplýsinga og skýringa hjá einstökum þingmönnum, og þessvegna er það, að hún getur ekki með fullri nákvæmni úrskurðað misfellur þær, er henni kunna að þykja á reikningunum.

Af þessum orsökum meðal annara þótti nefndinni rjett, að reyna að fastsetja ferðakostnað þingmanna.

Þetta hefur verið reynt tvisvar eða þrisvar áður, en hefur þó ekki tekizt ennþá; voru ástæður og atvik að því ekki eins hentug og nú er, meðal annars af því, að þá voru fastar skipagöngur ekki komnar í það horf, sem nú er, og síðan síðasta frumv. um þetta efni lá fyrir háttv. alþingi, munu vera milli 10 og 20 ár.

Jeg skal strax geta þess, enda býst jeg við, að það verði tekið fram hjer í þingsalnum, að jeg var þá andvígur föstum ferðakostnaði, enda var jeg þá lítt reyndur þingmaður, og jeg skammast mín ekkert fyrir það, að hafa fengið æðri og betri þekkingu um þetta með aldrinum.

Eins og sjá má af áliti nefndarinnar, þá hefur hún gert áætlun um ferðakostnað þingmanna, og skal jeg geta þess, að nefndin taldi rjettast, að taka Danmörku með, þó að hún sje vitanlega ekki kjördæmi, þá geta þingmenn verið búsettir þar.

Hvað ferðakostnað úr einstökum kjördæmum landsins snertir, þá hefur nefndin alstaðar sett sennilegan ferðakostnað eftir þeim upplýsingum, er hún gat bezt aflað sjer. Og engin veruleg breyting var í þessu ger á frumv. flutningsmanna, nema á Skaftafellssýslum, og er það gert eftir upplýsingum kunnugra manna. Eftir frumv., eins og það nú liggur fyrir, verður ferðakostnaður allra þingmanna, ef allir þingmenn eiga heima í kjördæmi sínu, als 3600 kr.

Í áliti nefndarinnar er gerður samanburður á frumv. og 5 síðustu sumarþingum, að telja vetrarþingin með, er ekki unt; ferðakostnaður er þá meiri, svo samanburðurinn yrði ekki rjettur.

Meðaltal ferðakostnaðarins fyrir fimm ár er kr. 3973,92, er það 373 kr. hærra en áætlun nefndarinnar. En öll þessi ár voru þingmenn úr fleiri og færri kjördæmum búsettir í Reykjavík, og eitt kjördæmið, Norður-Þingeyjarsýsla, 1901 þingmannslaust, auk þess koma kaupstaðarkjördæmin ekki til sögunnar fyr en 1905. Setji maður nú ferðakostnaðinn úr þessum kjördæmum þau árin, sem þau eru ferðakostnaðarlaus á þessu 5 ára tímabili, eins og nefndin hefur áætlað, hækkar meðaltalið um 600 kr. og verður þá ferðakostnaður um 1000 kr. lægri, þótt öll kjördæmi landsins ættu búsetta þingmenn, hvert innan sinna takmarka.

Nefndinni duldist það als ekki, að það gæti oft komið fyrir, að þingmenn gætu ekki fylgt áætlun nefndarinnar, og yrðu því of hart úti. För þeirra getur oft orðið tálmuð af óviðráðanlegum orsökum, ís, vatnavöxtum o. fl. og fanst nefndinni þá ekki nema rjett og sanngjarnt, að þingmenn ættu að fá greiddan þann kostnað, er af því stafaði. Þetta fanst nefndinni ekki nema sjálfsagt að taka fram, og það hefur hún gert hjer í 3. gr. frv.

Aðallega af þessum ástæðum, eða af ákvæðum 3. gr., leiðir 4. gr. frv., eða að nefndin hefur haldið ferðakostnaðarnefndinni, en vitanlega verður starf hennar mikið vandaminna, en það er nú.

Nefndin lítur svo á, sem ferðakostnaðarnefndin eigi ekki eingöngu að líta á reikninga þingmanna samkv. 3. gr., heldur eigi hún einnig að athuga dagpeninga þeirra, en svo hefur ekki verið hingað til, heldur hafa forsetar ávísað þeim, án þess það hafi komið til ferðakostnaðarnefndar.

Hvað álit minni hluta nefndarinnar snertir, þá fjekk jeg það ekki fyr en í dag, enda var því ekki útbýtt fyr, svo jeg lít svo á, að það geti ekki legið hjer fyrir til umræðu samkvæmt þingsköpunum. Jeg ætla heldur ekkert um það að segja, fyr en jeg heyri formann nefndarinnar flytja ástæður sínar, því jeg játa það, að ástæður þær, sem eru í nefndarliti hans eru ekki veigamiklar.