13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sigurður Eggerz:

Jeg þakka hæstv. varaforseta (St. St.) fyrir úrskurð sinn, jafnframt og jeg tek það fram, að jeg mun ekki verða langorður um mál þetta.

Meiri hluti nefndarinnar hefur í nefndáráliti sínu ekki afmarkað afstöðu sína til þessa frumv. alskostar rjett; þar sem því er haldið fram, að jeg hafi talið nauðsyn á því, að hækka dagpeninga þingmanna. Því mótsetta hef jeg einmitt haldið fram.

Því að eins teldi jeg nauðsyn á kauphækkuninni, að segja mætti með rjettu, að nýtir menn í þjóðfjelaginu treystust ekki sakir kaupsins að taka þátt í löggjafarstarfi þjóðarinnar. En að svo sje, hygg jeg mjög fjarri öllum sanni, enda sýnir það hið gagnstæða, hve þingmenskan er sótt af miklu kappi. Ekki svo að skilja, að mjer detti í hug, að nokkur sæki þingmensku vegna kaupsins, enda færi illa, ef svo væri; heldur kemur þessi áhugi á þingmenskunni vitanlega af því, að menn treysta því, að þeir geti komið fram áhugamálum sínum og þannig orðið þjóð sinni að gagni. Hjá sumum þjóðum mun ekkert þingkaup greitt, en því verður vitanlega ekki komið hjer að sakir fátæktar vorrar, en álitamál er þá, hvort ástæða sje til að greiða hærra kaup, en svo að þingmenn verði skaðlausir, og það hygg jeg þeir verði með núverandi þingkaupi.

Þá vil jeg vekja athygli hinnar háttv. deildar á því, að svo framarlega sem þingið kemst að þeirri niðurstöðu, að hækka dagpeninga þingmanna, vegna þess hversu peningar hafa lækkað í verði, þá verður þingið eftir sömu reglu, að hækka kaup margra embættismanna og sýslunarmanna, því kaup þeirra er víða bygt á gömlu peningaverðgildi. Ef þessir menn því biðja um, að launakjör sín sjeu bætt, þá geta þingmenn varla neitað því, þar sem þeir hafa hækkað kaup sitt af sömu ástæðu, og hinir biðja um kauphækkunina. Fordæmið er gefið, brautin opnuð, og það verð jeg að telja mjög varhugavert.

Jeg lít ennfremur svo á, að án brýnnar ástæðu sje ekki rjett að hækka útgjöld landssjóðs, einkum ef fjárhagur hans er jafnþröngur sem nú er. Og þegar þingm. geta setið hjer og fengið menn til að gæta búa sinna í sinn stað, sjer að kostnaðarlausu, eins og framsögum. meiri hluta nefndarinnar hefur sýnt fram á, þá tel jeg enga brýna þörf á að hækka dagpeninga þingmanna. Og þó að dagpeningarnir yrðu hækkaðir um 3 kr. á dag, þá býst jeg ekki við, að þingmenn yrðu neitt vitrari, tillögur betri nje sterkari á svellinu fyrir það, og því yrðu ekki meiri ávextir af starfi þeirra, þó kaupið hækkaði.

Þegar fjárhagur landssjóðs er jafn þröngur og nú, tel jeg als ekki rjett að hækka dagpeningana. Annars skal jeg játa það, að hjer er mikið undir „takt“ þingmanna komið, hvert þeim finst rjett að hækka kaup sitt án brýnnar þarfar, en yfir höfuð virðist mjer vel fara á því, að þingið, sem hefur skattaálögu og fjárveitingarvald þjóðarinnar í höndum sjer, sýni ósjerplægni í sínum eigin fjársökum.

Háttv. þingm. Ísfjk. var um daginn, er færsla þingtímans var á dagsskrá, að tala um það, að hún mundi leiða til þess, að öreigalýður landsins, er hann nefndi svo, mundi sækja það fast að ná þingsetu; þessi orð voru ekki rjett þá, en jeg hygg, að þau mætti miklu fremur segja, ef að kaup þingmanna yrði hækkað.

Annars er rjett að fara varlega í að áfella öreigalýðinn, því úr þeim flokknum fengum við þann mann, sem við sízt máttum án vera, mann sem jeg held og jeg vona, að enginn þurfi að reiðast, þó jeg segi, hann hafi borið höfuð og herðar yfir alla okkar stjórnmálamenn (Sig. Stefánsson og ráðherra: Hver var það?) Það er engin launung, við vitum það allir, að Jón Sigurðsson var fátækur og átti erfiðar kringumstæður alla sína daga, svo að hann heyrði undir öreigalýð þann, er háttv. þingm. Ísfjk. talar um, svo oft og svo undarlega.

Að endingu vil jeg ráða háttv. deild til að fella 1. gr. frumv., því ekki er rjett, að hækka útgjöld landssjóðs meira en þörf er á.