13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sigurður Eggerz:

Jeg skal ekki vera langorður að þessu sinni. Hinn háttv. frsm. viðhafði mörg stór og þung orð um mig. En jeg er samt ekki hræddur við þau, og jeg skal segja hinni háttv. deild, af hverju það er. Jeg er farinn að þekkja margar þjóðhetjurnar frá 1908 og farinn að skilja, hvers virði hreystiyrðin, sem þá hljómuðu fjöllunum hærra, vóru. Margar af þessum hetjum hafa bráðnað heldur fljótt. Jeg þekki það um þær, að þær geta faðmað það í dag, sem þær níddu og formæltu í gær. — Hinn háttv. frsm. fór mörgum orðum um það, að afstaða mín til þessa máls stjórnaðist af óskum og vilja kjósenda minna. Jeg skal fyrst geta þess, að jeg skammast mín alls ekki fyrir að játa það, að mjer þykir vænt um, er skoðanir mínar eru í samræmi við skoðanir og vilja kjósanda minna. Annars er það furða, að háttv. þm. skuli leyfa sjer það hjer inni í þingsalnum, að gera mjer þær getsakir, að jeg sje að reyna að vinna fjölda kjósenda minna til fylgis mjer á óheiðarlegan hátt. Það er hreinasta ósvífni, að drótta því að öðrum, óðar og þeir eru á annari skoðun en maður sjálfur, að ágreiningurinn stafi af einhverjum annarlegum hvötum. Þessi þjóðarósómi kemur alstaðar fram í opinberu lífi, á mannfundum, í blöðum og tímaritum, — Og það ætti ekki að þurfa að benda á, hvílík ósvinna er, að þingmenn gangi hjer á undan með illu eftirdæmi.

Annars hefði hinum háttv. þm. verið sæmra, að líta á ástæður mínar gegn þessari launahækkun, er hjer ræðir um, heldur en að vera alt af að tala um hvatir mínar til afstöðu minnar gagnvart málinu. En það verður ekki hrakið, sem eg hjelt fram, að ef það er rjett, að hækka þingfararkaup, þá er líka ástæða til að hækka laun ýmsra annara starfsmanna landsins, enda þótt laun þeirra sjeu miðuð við yngra ástand, eins og hinn háttv. flutnm. tók fram. Mjer er að vísu ekki kunnugt um, hvað kaupakonurnar í Vigur hafa mikið kaup. Þær hafa sjálfsagt 12 kr. á dag. En hitt er mjer fullkunnugt um, þótt 6 kr. laun á dag sje ekki mikið kaup, að bændur upp til sveita telja það ekki litla borgun, og það er rjett, að frá sjónarmiði margra þeirra, og miðað við tekjur þeirra, er það ekki lítið kaup. Það á ekki að hækka útgjöldin, nema brýna nauðsyn beri til, og það allra sízt á þessu þingi, sem enn þá hefur ekki eygt neina aðgengilega leið úr þröng landssjóðs. Og svo framarlega sem það er rjett, sem jeg hjelt fram, að enginn nýtur maður hefði skorazt undan þingstörfum vegna lágra daglauna — og formælendur frv. hafa ekki getað tilfært dæmi þess — er ástæðan til launahækkunarinnar ekki brýn. Það er dálítið óviðfeldið, ef það yrðu helztu afrek þingmanna á þessu þingi, að hækka sitt eigið kaup.

En jeg skil það ákaflega vel, að háttv. flm. þyki gott að fá hátt kaup. Slíkt er alt af mjög þægilegt, og þó að samvizkan í Vigur og annarsstaðar kunni að vera í mjög næm, þá er það kunnugt, að buddan er ennþá viðkvæmari.

Jeg skal og taka það fram, að jeg sje ekki ástæðu til að gera mun á kaupi Reykjavíkur þingmanna og annara þingmanna. Þeir þurfa og eiga að vinna með óskiftum kröftum að þingstörfum, og þá er engin ástæða til að launa þá lægra.

Að síðustu fór háttv. þm. að tala um brúna yfir Jökulsá á Sólheimasandi, og sagði, að sú brúargerð væri einhver hin mesta vitleysa, sem farið hefði verið fram á á þingi. Það er nú ekki gott að sjá, hvað hún kom þessu máli við. En háttv. þm. hræðir mig ekki. Jeg greiði atkv. með þeirri brú með jafngóðri samvizku, hvort sem þingfararkaup verður hækkað eða ekki. Jökulsá er stórt og agalegt vatnsfall, er orðið hefur fjölda manna að bana. Brú á henni er því hin mesta nauðsyn. En guð hjálpi þessu landi, ef þingmenn ætla að fara að greiða eftir því atkvæði um fjárveitingar, hvort þingmenn þess kjördæmis, er njóta eiga góðs af þeim, eru á sömu skoðun og þeir sjálfir í hinum og þessum málum. Ef slíkt tíðkast, er ekki von, að útkoman sje góð.