13.08.1912
Efri deild: 23. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Sigurður Stefánsson, (framsögum.):

Það eru aðeins fá orð, sem jeg ætla að segja út af ræðum hinna háttv. þingmanna. Því fer fjarri, að jeg væri að gera hinum hv. þm. Vestur-Sk. nokkrar getsakir.

Jeg tók það einungis fram með almennum orðum, að mín skoðun væri sú, að þingmenn tækju oft í ýmsum málum altof mikið tillit til einhliða skoðunar kjósanda sinna.

En viðvíkjandi þessum óhemjuskap frá 1908, sem háttv. þm. talaði um, vil jeg geta þess, að ýmsir töluðu hærra þá, en jeg, og hafa ef til vill fleiri hopað.

Hv. þm. Vestur-Sk. talaði mjög um tæpleik fjárhagsins, en jeg hygg satt að segja, að 4—5000 kr. geri hvorki verulega til nje frá.

Það gleður mig mikillega, að tveir háttv. þm. úr bændahópnum, háttv. þingmaður Strandamanna og 2. þm. Skagfirðinga hafa látið það í ljósi, að nefndin hafi viljað fylgja sparnaðarreglunum, með því að hafa þennan mismun á dagpeningunum. En jeg skal játa, að mjer hefur aldrei þótt þessi mismunur vel geðfeldur. En nefndin leit svo á, að þingmenn, sem búsettir væru í Reykjavík, kæmust eins vel og enda betur af með núverandi dagpeningum, en þingmenn utan af landi með þessari hækkun. En það verð jeg að segja, með allri virðingu fyrir bændunum, að jeg teldi miklu ver farið, ef vantað hefði á þingið alla þá mörgu og mjög nýtu þingmenn, sem vjer höfum haft úr Reykjavík. Þetta segi jeg ekki til þess að álasa neinum, en þingið þarfnast manna, sem hafa sem fjölbreyttasta þekkingu á landsmálum, og fjöldi reykvísku þingmannanna, hafa haft og hafa þessa þekkingu í ríkari mæli, en bændur utan af landsbygðum, og er því engin furða, þótt þeir hafi verið færari til þess að gegna löggjafarstörfunum.

Það er auðvitað innan handar fyrir þessa tvo háttv. þingmenn, sem óánægðastir voru með mismuninn á dagkaupinu, að koma með breytingartillögu við 3. umræðn, Og jeg fyrir mitt leyti er alls ekki svo bundinn við frv. eins og það nú er, að jeg gæti ekki gengið inn á einhverjar breytingar, sem til bóta horfðu.

Hv. þm. Vestur-Sk. bar fyrir sig hinn bága fjárhag landsjóðs — það get jeg vel skilið. En þess vænti jeg, að kauphækkun þessi hræði þó engan háttv. þingmanna frá að greiða frumvarpinu atkvæði. Og hins vænti jeg líka, að þessu þingi slíti ekki svo, aðgerðar hafi ekki verið þær nauðsynlegustu ráðstafanir áhrærandi fjárhag landsins, þangað til stjórnin getur beitt sjer. —

Háttv. þingm. Strand. sagði, að Reykjavíkur þingm. yrðu að kosta til álíka miklu og aðrir um þingtímann. En mjer er kunnugt um af eigin reynslu, að þeir þurfa miklu minna til að kosta en þingm. sem heima eiga utan Reykjavíkur.