05.08.1912
Efri deild: 16. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

4. mál, breyting á alþingistíma

Jón Jónatansson:

Jeg ætla ekki að vekja umræður um þetta frv. í þetta sinn. Það mundi líka vera óþarft og árangurslaust, þar sem háttv. deildarmenn munu þegar vera með ráðnum hug um það, hvernig þeir greiði atkv. um þetta frumvarp. Aðeins vildi jeg gera grein fyrir breytingartillögunni (þskj. 136), sem jeg og 1. þm. Húnvetninga höfum komið fram með.

Það hefur komið fram áður í umræðunum um þetta mál og verið talið til ógildis hinum lögboðna þingtíma, að bændum væri af tveim ástæðum óhent að koma svo seint heim (frá þingi) að vorinu.

Fyrri ástæðan var sú, að bagalegt væri það bændum að vera að heiman, ef heyleysi eða heyskort bæri að höndum; væri þeim þá mikil nauðsyn heima að vera, því erfitt mundi þeim að fá nokkurn í sinn stað, er treysta mætti til að ráða fram úr slíkum vandræðum. Jeg fyrir mitt leyti get nú ekki lagt mikla áherzlu á þessa ástæðu, þar sem jeg tel líklegt, að flestir þeir bændur, er á þingi mundu sitja, yrðu fremur úr þeirra hóp, er hafa fyrirhyggju til þess að komast hjá heyþroti.

Hin ástæðan, sem komið hefur fram, var sú, að bændur kæmu of seint heim vegna voryrkjustarfanna, og finst mjer, að sú ástæða hafi við nokkuð að styðjast, þar sem telja má víst, að fjarvera bóndans geti orðið honum bagalegust, einmitt um þann tíma árs.

Til þess að bæta úr þeim agnúa, sem hinn lögboðni tími á að hafa í för með sjer, hefði ekki þurft að færa þingtímann til sumars, því ráða mætti bót á þessu á annan hátt.

Þess vegna höfum við komið með breytingartillöguna, sem ætlast til, að þingið komi saman 15. janúar, þar sem telja má, að hún mundi geta orðið fullnægjandi þeim, er ekki hafa aðra ástæðu fyrir því, að nauðsynlegt sje að flytja til þingtímann, en þá, að tíminn sje bændum óhentugur.

Jeg held, að það sje ekki hægt að færa rök fyrir því, að 15. janúar sje ver til kjörinn þingsetningardagur en 15. febrúar, enda þótt það kunni að vera ýmsum álitamál. Því ferðalögin eru hin sömu, um hvorn tímann sem er að ræða. Það er alt komið undir veðráttunni, og oft jafnvel betra að ferðast í janúar, enda þótt dagurinn sje þá lítið eitt styttri en í febrúar.

Annars hefur því verið haldið fram í umræðunum, að þessi ferðatími á þing um hávetur sje hættulegur.

Hvað það snertir, verð jeg að líta svo á, að þingmönnum sje ekki meiri hætta búin en öðrum mönnum, er þurfa að takast ferð á hendur um þann tíma árs.

En væri svo að þessi ferðalög — og þá mest megnis um sjó — hefðu hættu í för með sjer, þá virðist hættan stafa ekki sízt af því, að skipin eru lítil og óhentug, — já tæpast boðleg — en til ferða hjer um þetta leyti árs þyrfti stærri og öruggari skip.

Það liggur fyrir, að innan skams verði leitað nýrra samninga um þessar skipaferðir, og ætti þá að leita fyrir sjer um betri skip. Því úr því verið er að veita fje til millilandaferða, ætti að miðast við það, að það fengjust betri skip, að leggja meiri áherzlu á, en gert hefur verið að undanförnu, á stærð og öryggi skipanna.

Jeg skal svo ekki fara lengra út í þetta, en taka það aftur fram, að jeg get ekki lagt mikið upp úr því, að ferðalög um vetur sjeu svo hættuleg, sem orð hefur verið á gert, og sízt, að þessi ferðalög yrðu hættulegri, þó þingsetningin væri flutt frá 15. febrúar til 15. janúar.

Hvað þingstörfin snertir, virðist það litlu skifta, hvor tíminn yrði valinn, og hvað kostnaðinn snertir, má einu gilda, hvort þingið byrjar 1 mánuði fyr eða síðar, því ljós og hita þarf altaf um vetrartímann.

Þessi breytingartillaga okkar, sem hjer liggur fyrir, bætir að vísu ekki úr sumum þeim annmörkum, sem taldir hafa verið við vetrarþingin, t. d. þeim, að kennarastjettin væri útilokuð, þar sem kennurum væri það lítt mögulegt, að sitja á þingi um veturinn

En þeirri ástæðu hefur áður verið svarað hjer í deildinni, og það hefur verið bent á það, hvað reynslan hefur sýnt í þeim efnum, þar sem kennarar hafa nú hin síðustu árin setið á þingi, jafnvel fleiri en áður, meðan þing var háð á sumrum.

Að lokum skal jeg aðeins taka það fram að ef bæta á úr þeim agnúa, er svo mikið hefur verið talað um með tilliti til bænda, hvað hinn lögboðna þingtíma snertir, þá mundi breytingartillagan á þskj. 136 geta gjört það til fulls, ef hún yrði samþykt, og þessvegna vænti jeg þess, að þeir, sem af þessari ástæðu hafa verið með þessu þingfærslufrumvarpi, geti greitt atkvæði með breytingartillögunni.