15.08.1912
Efri deild: 25. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

59. mál, þingfararkaup alþingismanna

Jón Jónatansson:

Jeg þarf ekki að tala langt mál út af þessari br.till. minni á þskj. 259. Hún fer fram á, að færa eina upphæðina í sama horf sem upphaflega, sem sje 22. lið í 2. gr., þannig að í stað „280 kr.“ komi 190 kr.

Það er sjerstaklega með tilliti til þingfararkaups þingmanns Rangárvallasýslu, að mjer finst koma fram allmikið ósamræmi, þegar þessar tvær upphæðir eru bornar saman. Það má auðvitað þrátta um það, en jeg get ekki neitað því, að mjer finst, að það sje of hátt sett, að gera ráð fyrir 280 kr. ferðakostnaði úr Vestur-Skaftafellssýslu.

Upphaflega hafði jeg hugsað mjer, að koma fram með breyttill. við báðar Skaftafellssýslurnar, en hætti við það, af því mjer þótti það athugavert með tilliti til Austur-Skaftafellssýslu.

En hvað V.-Skaftafs. snertir, virðist mjer það að athuga, að þar sem búið er að færa til þingtímann til sumarsins, mætti gera ráð fyrir því, að það gæti komið fyrir, að þingmanninum yrði hægt að ferðast sjóleiðina frá Vík, og með það fyrir augum virtist mjer, að rjettast hefði verið, að ganga einnig hjer út frá sjóferðakostnaðnum; en ef sjóleiðin kynni að bregðast, gæti þingmaðurinn þá gefið reikning fyrir aukakostnaðinum við landferðina samkv. 3. gr. frumvarpsins.

Um þetta leyti árs álít jeg, að komast megi af með 4 daga þaðan austan að og hingað, t. d. af Síðunni til Víkur fyrsta daginn, annan að Dalseli, þriðja að Þjórsárbrú og fjórða til Reykjavíkur. Landferðina finst mjer eðlilegast að reikna kaup fyrir mann og hesta í 16 daga samkvæmt áætlun nefndarinnar, og yrði það þá 192 kr.

Jeg verð því að líta svo á, að ef ferðakostnaður úr V.-Skaftafs. yrði ákveðinn 280 kr., þá væri engin sanngirni í því, að að meta ferðakostnaðinn úr Rangárvallasýslu þrefalt minni, því ef svo er skift dagleiðum, sem jeg benti á, þá er það hlutfall als ekki rjett, og þyrfti þá að hækka ferðakostnaðinn úr Rangárvallas., ef 22. liður er látinn standa óbreyttur. En mjer virðist rjettara að lækka þennan lið og þess vegna hef jeg komið fram með breytingartillöguna.