24.08.1912
Efri deild: 36. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

104. mál, einkasöluheimild á steinolíu

Steingrímur Jónsson:

Mjer skilst svo, sem jeg hafi þegar greitt atkv. um þetta mál með því, að samþ. þingsályktunartill. á þingskj. 403. Mjer skilst svo að engin meining sje í því, að samþ. þingsályktunartill., og síðan samþ. einkasöluheimildina með hliðsjón af þeim breytingum, sem 4 þingmenn hjer í deildinni hafa fram borið, og þeir ætlast til að gerðar verði við 2. umr. málsins; jeg get ekki sjeð ástæðu til að greiða atkv. með þeim tillögum, vegna þess jeg áleit eftir nána yfirvegun, að frumv. geti ekki náð tilgangi sínum, eins og það kom úr neðri deild, tilganginum þeim að bægja frá oss þessu böli, sem hátt er talað um hjer í bænum. Jeg hygg víst, að þótt frumv. nái fram að ganga, þá sjeu engar líkur til þess, að stjórnin geti fengið steinolíu keypta með svo vægum kjörum, að hún geti selt hana með lægra verði en þetta steinolíufjelag D. D. P. A., að minsta kosti næsta árið. Greiði jeg því atkvæði móti frumv. Voðinn er heldur ekki stór, þótt frumv. falli, þareð það var aðeins samþykt með 10 atkv. í neðri deild í gær, og þar þó fellt fyrir skömmu einkasölufrumvarp stjórnarinnar, er gaf þó miklu meiri líkur til þess að ná hinum fyrirheitna tilgangi.