06.08.1912
Efri deild: 17. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

15. mál, útrýming fjárkláðans

Sigurður Eggerz:

Jeg hef skrifað undir nefndarálit það, sem hjer liggur fyrir, með fyrirvara. En fyrirvari sá snertir alls ekki aðalstefnu nefndarinnar í fjárkláðamálinu, því henni er jeg fyllilega samþykkur, en aðeins þingsályktunartillögu þá, sem nefndin hefir komið með. En þar sem hún liggur ekki fyrir hjer til umræðu í dag, mun jeg geyma að geta fyrirvarans, þangað til hún kemur til umræðu.

En með því jeg er staðinn upp, þykir mjer rjett að geta þess, að því leyti sem nefndarálitið víkur að afskiftum stjórnarráðsins og dýralæknis af máli þessu, að mjer eru þau ekki svo kunn af skjölum þeim, sem fyrir liggja, að jeg geti lagt dóm á þau.