12.08.1912
Efri deild: 22. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

91. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jens Pálsson, (flm.):

Jeg held, að hinn h. 2. þm. Árn. hafi ekki tekið eftir dæmi því, er jeg gat um áður í umræðunum, að þegar ísl. fiskibátar eru að veiðum í Garðsjónum, þá hætta botnvörpungarnir þar. Þetta er eitt dæmi.

En alment hefur því verið lýst yfir þar syðra, að ef bátur hefur verið úti í því skyni að hafa gát á botnvörpungum og þeir tekið eftir því og grunað, að hann mundi vera á varðbergi til að njósna um aðfarir þeirra, þá hafa þeir venjulega verið varir um sig.

Viti þeir, að þessir menn eru tilbúnir að kæra — en hver sjómaður þekkir landhelgislínuna — þá gera þeir minna að brotunum.

Annars má ekki gleyma því, að oft kemur það fyrir, að fiskgöngur koma hjer inn á Sviðið og alla leið inn á innri Sviðsbrún, og eru þá miklar líkur til að fiskibátar gætu aflað mikið, en svo er alt eyðilagt af botnvörpungum, er sópa öllu burt á nokkrum dögum. Gæti frumvarpið stuðlað að því, að lögbrjótar þessir færu síður inn í landhelgi, þá væri mikið unnið.