19.08.1912
Efri deild: 28. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

69. mál, prestssetrið Presthólar

Steingrímur Jónsson:

Af því jeg er talsvert kunnugur staðháttum þar norður frá, sem Presthólar liggja, þá vil jeg láta álit mitt uppi um mál þetta, og mæla með því, að frumvarpið sje felt og það strax frá 2. umr.

Til þess, að jeg vil láta fella frumv., leggja aðallega 3 aðalástæður.

Fyrsta ástæðan er sú, að jeg lít svo a, að löggjafarvaldið, alþingi, eigi að fara sem allra varlegast í að selja fasteignir sínar einstökum mönnum og þá sjerstaklega, góðar og verðmætar eignir. Alt öðru máli er að gegna um fasteignasöluna, ef fasteignin er seld til sveitarfjelagsins sjálfs, er fasteignin liggur í, eins og var t. d. um sölu af nokkrum hluta af landi Garðakirkju til Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Við lítum allir svo á, að í jarðeignum landsins liggi mikið fje fólgið, og að framtíð landsins og þjóðarinnar sje komin undir aukinni ræktun landsins, en sje svo, þá er það öldungis óforsvaranleg meðferð á eign landssjóð, að selja jarðirnar til einstakra manna. Einasta ástæðan, er mælir með því, að selja jarðirnar, er sú, að auka sjálfsábúð í landinu, og um þá sölu eru gefnar reglur í lögum um sölu þjóðjarða og lögum um sölu kirkjujarða. En jeg er ekki samþykkur lögum þessum eða stefnu þeirra, þótt jeg hins vegar játi það, að þau hafa sína kosti, meðal annars miða að því, að auka framleiðslu í landinu.

En þá kem jeg að annari ástæðunni, sem sje þeirri, að eftir þessum lögum á ekki að selja jörðina Presthóla, því samkvæmt lögunum má ekki selja jörð, ef að hlutaðeigandi sýslunefnd álítur, að jörðin, vegna þess hvernig henni er í sveit komið, sje hentug „til embættisseturs, fyrir skóla, sjúkrahælis eða til annara almennings nota“.

Jeg hygg, að það væri vorið 1909, sem kaupbeiðandi leitaði til sýslunefndarinnar í Norður-Þingeyjarsýslu um það, hvort hún hefði nokkuð við sölu þessarar jarðar að athuga, og svaraði sýslunefndin þá svo, að hún vildi, að jörðin væri ekki seld vegna þess að hún áleit henni svo í sveit komið, að hún mundi verða notuð til opinberra nytja, því þó jörðin liggi ekki verulega vel við, þá er hún þó hentust til þess af þeim jörðum, sem um er að ræða. Og það hefur sýnt sig nú, að sýslunefndin var ekki ógetspök um þessi efni, því

nú er ómögulegt að fá bújörð handa lækninum í hjeraði þessu, og án þess er hæpið, að læknir fáist til að vera í þessu fámenna hjeraði.

Og þó ekki væri um lækninn að ræða, þá er ekki hægt að segja, nema að nota þurfi jörðina fyrir prestssetur. Raunar þarf þess ekki nú, eftir að Presthólasókn hefur verið sameinuð við Skinnastað. En eins og þeir muna, er þá sátu á þingi, þá orkaði það tvímælis, hvort þessi sameining væri heppileg, þar sem brauðið væri þá svo stórt og erfitt fyrir einn prest. En þó að það sje stórt, þá tel jeg, að einn prestur geti þjónað öllu brauðinu, ef hann situr á Skinnastað, og það á hann að gera eftir prestakallalögunum.

Sýslunefndin hefur lögum samkvæmt látið uppi álit sitt um þetta mál, og lít jeg svo á, að ef þingið tekur fram fyrir hendur henni, að þá sjeu brotin lög á henni, og meira að segja þá búið að tvíbrjóta meginsetning þeirra laga, er jeg mintist á. Jeg lít svo á, að þetta ákvæði um, að leita álits sýslunefndar um, hvort selja skuli eignina, hafi verið sett í lögin í því skyni, að það væri varúðarregla, til að tryggja, að landssjóður kastaði ekki á glæ eignum, er landið þyrfti á að halda. Ef þingið samþykkir þetta frv., segir það annaðhvort: sýslunefndin hefur farið hjer ólöglega að, hún hefur misbeitt valdi sínu; eða: þessi regla, sem jeg mintist á, er brotin á bak aftur. Þar sem þingið hefur ekkert við að styðjast nema umsögn kaupbeiðanda, væri samþykki þessa frv. óhæfilegur og óverðskuldaður snoppungur á sýslunefnd Norður-Þingeyinga, og það að órannsökuðu máli. Sýslunefndin hefur ekki viljað mæla með sölunni. Alþingi 1911 vísaði málinu frá sjer með rökstuddri dagsskrá til stjórnarinnar með þeim ummælum, að ábúanda jarðarinnar væri gefinn kostur á að kaupa jörðina, ef ekkert sjerstakt reyndist með rökum því til fyrirstöðu. Sýslunefndin hefur talið næg rök því til fyrirstöðu, að jörðin væri seld og við það situr.

Annars vil jeg geta þess, að síra Halldór er nú ekki löglegur ábúandi Presthóla. Ekki svo að skilja, að hann sitji þar í óleyfi stjórnarráðsins. En hann er ekki löglegur ábúandi jarðarinnar í þeim skilningi, að hann hafi rjett til að fá jörðina keypta samkvæmt lögunum um sölu þjóðjarða og kirkjujarða. Síðan, þegar Presthólasókn var sameinuð Skinnastaðaprestakalli, verður presturinn í því kalli að búa á Skinnastað — getur ekki setið á Presthólum, ef nokkur mynd á að vera á því, hvernig hann þjónar prestakallinu. Auk Presthóla þjónar hann þremur kirkjum: á Skinnastað, Garði og Víðirhóli. Frá Skinnastað að Garði er hörð l1/2 tíma reið, frá Skinnastað að Presthólum 3 stunda reið, frá Skinnastað að Víðirhóli 5 klukkustunda reið. Frá Presthólum að Skinnastað 3 stunda, að Garði 5 og að Víðirhóli 8 stunda reið.

Leyfi stjórnarráðsins til sjera Halldórs um að sitja 1. árið á Presthólum getur ekki verið bygt á 4. gr. laga um laun sóknarpresta, því þá var sameiningin ómöguleg. Jeg lít svo á, að sameiningin sje brot á hinum nýju lögum um skipun prestakalla, og áreiðanlega er kosningarrjetti safnaðanna trakað með henni. En stjórnin hefur víst haldið, að ákvæðið í 3. gr. laga nr. 45. 16. nóv. 1907, um skipun prestakalla, yrði ekki framkvæmd með öðru móti. Þessi gr. hljóðar svo: „Landsstjórnin hlutast til um, að þær breytingar á skipun prestakalla, sem að ofan eru ákveðnar, komist á eftir því, sem prestaköllin losna, svo fljótt sem því verður við komið.“ Stjórnarráðið hefur litið svo á, að sameining prestakallanna yrði ekki komið á með öðru móti. En stjórnarráðið hefur ekki leyft sjera Halldóri, að búa til langframa á Presthólum. Jeg skal leyfa mjer að lesa upp kafla úr embættisskjölum þeim, er veita honum þetta leyfi, svo að brigðir verði ekki bornar á mál mitt. Sanna þessir kaflar, að hann á ekki heimting á, að fá jörðina keypta samkvæmt lögum um sölu kirkjujarða. Verður þingdeildarmönnum þá og ljósara, hvernig málinu er háttað. Í brjefi biskups til stjórnarráðsins 20. okt. 1911 er skýrt frá því, að sjera Halldór gangi að sameiningu prestakallanna, og seinna í sama brjefi segir biskup:

„Sjera Halldór beiðist þess, að fá að hafa áfram bú á Presthólum og vera þar sjálfur, að því er jeg skil að minsta kosti 1 eða 2 ár. En að þeim tíma liðnum skuldbindur hann sig til að sitja á Skinnastað nema ef söfnuðurnir innfrá leyfðu honum að sitja úti á Presthólum. Finst mjer þessi beiðni sjera Halldórs, að fá svigrúm til að koma hinu mikla sauðabúi í verð, vera á góðum rökum bygð, og mæli hið bezta með henni.“

Þessi beiðni sjera Halldórs um að sitja á Presthólum og skuldbinding hans um að flytja að Skinnastað, að þessum tíma liðnum, er nefnd er í brjefi biskups, hljóðar þannig:

„Jeg læt yður því hjer með vita, að jeg geng að sameiningunni, en leyfi mjer jafnframt virðingarfylst að beiðast þess, að þjer vilduð gera svo vel og umgangast það við hið háa stjórnarráð, að það veiti mjer leyfi til að hafa áfram bú á Presthólum, að minsta kosti eitt eða tvö ár, því ekki gæti jeg flutzt með fjenað minn, við sjó vanan, í Skinnastaða skóg nema mjer til stór tjóns og eyðileggingar á honum, og þarf jeg því að fá tíma til að koma honum í verð, ef jeg ekki fæ Presthóla keypta, eins og jeg vil og hef beðið um, en auðvitað hjeldi jeg til á Skinnastað, ef söfnuðurinn, þegar þar að kemur, meinaði mjer að sitja hjer út frá.“

Í brjefi til biskups 4. des. úrskurðar svo stjórnarráðið, að ákvæði prestakallalaganna skuli koma til framkvæmda á því svæði, er hjer átti í hlut. Varð sjera Halldór prestur í Skinnastaðaprestakalli, og Presthólasókn steypt saman við það, en Ásmundarstaðasókn lögð undir Svalbarðsprestakall. Í þessu brjefi stjórnarráðsins segir svo:

„Samkvæmt beiðni sjera Halldórs hefur stjórnarráðið veitt samþykki sitt til þess, að hann megi hafa bú á Presthólum og vera þar sjálfur næsta fardagaár, en frá fardögum 1913 verður hann að sitja á Skinnastað.“

Það er nú auðsætt af þessum gögnum, að sjera Halldór hefur skuldbundið sig til að flytja að Skinnastað, og að stjórnarráðið hefur sett honum það skilyrði, að hann yrði að flytja þangað. Fyrir meðmæli biskups er honum veitt leyfi til þess, að flytja ekki þangað þegar í stað, en jafnframt gert að skyldu að flytja að Skinnastað 1913. Sjera Halldór er því ekki nema bráðabirgða ábúandi á Presthólum, og jeg vona, að háttv. deild sje það ljóst, að hann því engan rjett hefur til að fá þá keypta samkvæmt gildandi lögum. Jeg vona og, að hún sjái, að gildar ástæður eru til að fella þetta frumv., og að hún taki þær til greina og felli frv. nú þegar.

Úr því að jeg á annað borð stóð upp í þessu máli, get jeg ekki sezt svo niður, að jeg minnist ekki á nokkur orð í umsóknarskjali sjera Halldórs til alþingis um að fá ábúðarjörð hans Presthóla keypta. Hefur flutningsmaður málsins í Nd, talið sjer sæmandi, að láta prenta umsóknina með frumv. Það eru þar ummæli í garð nafngreindra merkismanna, sem jeg get ekki leitt hjá mjer að minnast á, úr því honum hefur ekki þótt rjett, að þau fjellu í gleymsku. Fyrst skal jeg að eins drepa á það, að í umsóknarskjalinu stendur, að hlutaðeigandi sýslumaður hafi ekki tilnefnt óvilhalla menn til mats á jörðinni. Jeg get nú sagt það fyrir hönd sýslumannsins í Þingeyjarsýslu, að hann lætur annað eins og þetta sem vind um eyrun þjóta.

En hitt get jeg ekki látið sem vind um eyrun þjóta, er það er sagt, að virðingargerðin á Presthólum sje „prókúratorskjal“. Þessu verð jeg harðlega að mótmæla, og jeg tel það óhæfilegt, að prenta slíkt í þingskjölunum. Árni hreppstjóri Kristjánsson er mesti merkismaður, skynsamur maður og einn með glöggustu mönnum, ekki sízt á allar virðingar, og því skipa jeg hann til virðinga, eins oft og jeg get. Jeg skal geta þess, að hann hefur gegnt fleiri virðingar- og trúnaðarstörfum, en flestir bændur. Hann hefur t.d. verið amtsráðsmaður um mörg ár og sýslunefndarmaður og hreppstjóri um 30, ár og má af þessu marka, hvílíkt traust sveitungar hans og samsýslungar hafa á hæfileikum hans, og jeg tel það hina mestu óhæfu og með öllu rakalaust, að bera honum það á brýn, að hann sem matsmaður undir eiðs tilboð semji prókúratorskjal. Um hinn matsmanninn, Jón Ingimundsson, er það að segja, að hann er alkunnur heiðursmaður þar nyrðra. Sjera Halldór segir í umsóknarskjali sínu, að hann hafi sýnt sjer opinberan fjandskap; þetta er ekki rjett. Sjera Halldór átti í málaferlum við ættingja hans fyrir nokkrum árum og einnig við Jón sjálfan, en þar fyrir er ekki rjett, að halda því fram, að þar sje um opinberan fjandskap að ræða, enda átti sjera Halldór upptök að málaferlunum. Hann og frændur hans hafa einnig fyrir nokkrum árum leyst sóknarband. En annars voru það ekki margir, sem ekki voru annaðhvort með eða móti sjera Halldóri í málaferlum hans og deilum fyrir nokkrum árum. En ef sýslumaður hefði tilnefnt einhvern skjólstæðing hans, var hætt við, að hallaðist á þá sveifina, er kaupbeiðanda kom bezt. Þess má geta, að þegar sjera Halldór bað um útnefninguna, benti hann sýslumanni ekki á matsmenn.

Í nefndaráliti Nd. er gefið í skyn, að virðingargerðin hafi farið í ólagi og að útnefningarbrjef matsmanna hafi ekki verið, eins og það átti að vera. En jeg þykist nú hafa sýnt fram á það, að það gat ekki komið til mála, þar sem sýslunefndin hafði mælt á móti sölunni, að virða jörðina eftir þeim reglum, er lögboðnar eru um sölu kirkjujarða, eins og nefndin í málinu í Nd. virðist halda fram. Því segir í útnefningarbrjefinu, að þeir sjeu útnefndir „til þess að virða til peningaverðs prestssetrið Presthóla í Presthólahreppi með öllum gögnum og gæðum, húsum og öllu fylgir og fylgja ber“. Úr því að ekki var hægt að fara eftir lögunum um sölu kirkjujarða um þetta efni, varð að fara eftir almennum reglum, er gilda í þessu. Útnefningin er því full greinileg og rjettmæt. Jeg skal því næst lesa upp kafla úr virðingargerðinni, og vona jeg, að háttv. þingdeildarmenn gangi þar úr skugga um, að hún er í alla staði ábyggileg. Lýsingin á jörðinni hljóðar svo:

„Prestssetrið Presthólar með Katastöðum hefur mikið land og kjarngott eða frá sjó og austur á miðja Hólaheiði.

Heimalandið er mikið og ágætt til útbeitar og fjörubeit í bezta lagi seinni part vetrar, svo vanalega þarf ekki að gefa fullorðnu fje á vetrum og lömbum ekki heldur, nema hart sje nokkuð. Hættur fyrir fjeð eru engar við sjóinn og getur fjeð því legið úti að vetri til. Tún heimajarðarinnar hefur verið talið 18 dagsláttur að gamalli sögn, en sú stærð er ekki bygð á mælingu; hefur kaupbeiðandi sagt okkur, eftir máli sem hann ljet gera á túninu, að það væri ekki nema 13 dagsláttur, en það mun máske vera heldur lítið. Tún er vel grasgefið, en illa þýft.

Eftir framtali til búnaðarskýrslnanna hefur heimatúnið gefið af sjer til jafnaðar síðastliðin 9 ár, samkvæmt skýrslu hreppstjórans í Presthólahreppi, rúma 72 hesta árlega, en miðað við lögband mun það vera nokkru meira. Og af Katastöðum mun árlega fást um 40 til 45 hestar. Útengi beggja jarðanna er viðáttumikið; er

mest af því nokkuð blautar mýrar. Engið hefur verið lítið brúkað í mörg ár, og er því skemt af sinu. Eftir skýrslu hreppstjóra hefur ekki verið heyjað á því meira en 50 hestar frá Presthólum á ári, en mikið meira má fá þar af heyi, sjerstaklega ef skurðir væru grafnir í mýrarnar til að þurka þær upp, sem auðvitað kostaði nokkuð, og er það álit okkar beggja, að engi jarðarinnar gæti gefið af sjer árlega til jafnaðar 2—300 hesta.

Hagi fyrir stórgripi er góður, og vegna landgæðanna eru afnot sauðfjárins mjög mikil, en kostnaður við það mikið minni, en víðast hvar annarstaðar, þar sem við þekkjum til. Reki jarðarinnar er langur, og fæst í sumum árum nokkur trjáviður af honum.

Mótekja er í landi jarðarinnar og nokkur silungsveiði í svonefndum Presthólalónum. Á Presthólum og hjáleigunni Katastöðum hefur nú um nokkur ár verið framfleytt um 500 sauðfjár, 4—5 nautgripum og 4 hestum. Að aðgættum kostum þessarar jarðar og samanburði á henni og öðrum jörðum í þessu bygðarlagi, sem við erum einnig nákunnugir, er það skoðun okkar, að Presthólar sjeu ein mesta kostajörðin í Núpasveit.

Að öllum kostum þessarar jarðar aðgættum, og með hliðsjón af kostum annara jarða í þessu hjeraði, virðum við jörðina Presthóla á kr. 7.200,00“.

Í umsóknarskjali sínu segist kaupbeiðandi hafa gert miklar húsa- og jarðabætur á jörðinni, og kveðst hafa varið 3.500 kr. til þess. Fyrst er að geta þess, að þetta er með öllu ósannað. Í því efni dugir ekki að fara eftir mati eða umsögn kaupbeiðanda sjálfs. Til þess að hægt væri að skera úr því, yrði að fara fram úttektarmat á jörðinni; það verður að meta, hve mikið af því er sjálfsögð skylda til viðhalds jörðinni, og hvað mikið hann hins vegar, á að fá uppborið. Þó að kaupbeiðandi hafi varið 2—3þús. kr. í jarðabætur og húsabætur, er ekki víst, að hann eigi að fá það alt eða mikið af því endurgoldið, eða draga eigi það frá því söluverði, sem hún nú er virt til með gögnum hennar og gæðum. Nokkuð af því hefur ef til vill verið nauðsynlegt, til að verja hana rýrnun, eða til þess að hún lækkaði ekki í verði. Það er ekki víst, að hún hafi hækkað í verði fyrir þessar endurbætur. Og það þarf sem sagt úttektarmat til að skera úr, hvort kaupbeiðandi hefur unnið svo mikið henni til endurbóta, að hann eigi að fá afslátt á henni þess vegna. Jeg er að vísu ekki vel kunnugur, en get þó sagt svo mikið með vissu, að hann hefur ekki gert jörðinni mikið til bóta fyr en síðustu 3 árin. Síðan hefur hann sljettað allmikið í túni. Hygg jeg, að hann hafi sljettað um 2—3 dagsláttur fram að síðasta vori, en nú í sumar kvað hann hafa látið sljetta um 4 dagsláttur, en ekki var byrjað á því verki um miðjan júni. En jeg hygg, að þær endurbætur sjeu ekki miklar, er miðað er við það, að kaupbeiðandi hefur setið um 30 ár á jörðinni. Hann hefur girt túnið með gaddavír. Hann talar um, að hann hafi lagt akveg frá sjó; er sú jarðabót góð og gagnleg, en vegur þessi hefur ekki getað verið dýr. Hann kveðst og hafa bygt stóra fjárborg við sjó, en lætur hins ekki getið, að allstór fjárborg var fyrir, sem lögð var niður. Það er ómetið, hve kaupbeiðandi á mikið í hinni nýju borg.

Jeg vona, að það sje ljóst, að aðfinslur þær, er varpað hefur verið í garð hlutaðeigandi virðingamanna og sýslumanns, eru ekki á rökum bygðar.

Þetta hygg jeg, að allir hljóti að sjá, að sje skýr og góð lýsing á jörðinni, og matsmennirnir munu vera fúsir á, að staðfesta hana með eiði.

Það eru aðallega tvö atriði, sem vefengd hafa verið, hið fyrra, að báðar jarðirnar til samans gefi af sjer 2—300 hesta af útheyi. En þetta mun koma til af því, að ábúandi Presthóla hafi eigi álitið það borga sig sökum vegalengdar og annara örðugleika, að sækja slægjur í heiðarland jarðarinnar, og hafa mýrarnar þar af leiðandi farið í sinu.

Í sambandi við þetta og til upplýsingar, má geta þess, að á nágrannajörðinni Efri-Hólum eru mýrar, sem gefa af sjer yfir 100 hesta, ef ekki er því meiri grasbrestur. Eru þær þó, að því jeg bezt veitr bæði minni og lakari en Presthólamýrar og Katastaða; virðist af því mega ráða, að úr þeim muni geta fengizt allmikið hey, og á Presthólum er hver hey-hesturinn verðmætur.

Þá hefur því verið haldið fram, að landið væri lítið, en það er ekki rjett; þar er mikið og gott heiðarland, sem lítið er notað. Hitt atriðið, sem vefengt hefur verið, er það, að Presthólar framfleyti 500 fjár, en það er ekki einungis svo, að þeir framfleyti því, heldur og nokkru meira, því nú mun þar og á Katastöðum vera nokkuð á 7. hundrað fjár. Og það hlýtur að vera öllum ljóst, að jörð, sem framfleytir slíkum fjölda sauðfjár, er jeg nú hef nefnt, ásamt tilsvarandi stórgripum, er þó ekki lítils virði.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira að sinni, en vil að lokum bera af þeim heiðursmönnum, sem jörðina virtu, að þeir hafi reynzt hlutdrægir eða óvandvirkir í mati sínu.

Jeg legg svo til, að frumv. þetta verði felt; en verði það ekki, geri jeg það að varatillögu minni, að í málið verði kosin 3 manna nefnd, að lokinni þessari umræðu.