24.08.1912
Efri deild: 35. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

69. mál, prestssetrið Presthólar

Sig. Stefánsson frsm. minni hl.nefnd:

Jeg vil gera grein fyrir skoðun minni hluta nefndarinnar, en jeg vil jafnframt taka það fram, að honum er mál þetta ekkert kappsmál.

Fullkomlega er jeg samþykkur háttv. framsm. meiri hlutans, að sýslunefnd N.-Þingeyinga hafi haft rjett samkvæmt lögum, er hún vildi eigi, að jörðin væri seld, og að það stríði á móti 2. gr. þjóðjarðasölulaganna, þar sem að þá leit út fyrir, að nota þyrfti jörðina fyrir læknissetur eða annara opinberra nytja.

En við þetta er það að athuga, að þessar ástæður sýslunefndarinnar eru nú fallnar burt (Steingrímur Jónsson: Svo?). Jeg vil, til stuðnings þess, að hjer sje rjett hermt, vísa til nefndarálits í háttv. neðri deild árið 1911, þar sem þetta mál var til athugunar, og vil með leyfi hæstv. forseta lesa hjer upp kafla úr því.

Þar segir svo:

„Til læknisseturs þarf jarðarinnar ekki, því til þess er þegar ákveðinn annar staður, fyrst um sinn á Kópaskeri og síðar á Núpi, þegar sú jörð losnar. Ekki þykir heldur geta komið til mála, að hún yrði skólajörð í hreppnum, því að hún liggur nálega á öðrum hreppsenda og er því illa í sveit komið, nema ef Núpasveit vildi út af fyrir sig hafa skóla, en þá virðist skóli sá öllu betur settur í kauptúninu á Kópaskeri. Auk þess hafa hreppsbúar sjerstaklega óskað eftir annari jörð undir skóla fyrir Presthólahrepp, en það eru Sigurðarstaðir á Sljettu.

Presthólar eru heyskaparlítil útbeitarjörð, og því lítt fallnir til þess, að henni sje skift niður í grasbýli. Það er því ekki auðvelt að sjá, hvað ætti að vera því til fyrirstöðu, að ábúandinn geti fengið jörðina keypta eftir löglegan undirbúning ...“.

Þetta nefndarálit er undirritað af 7 þingmönnum í háttv. neðri deild, og hafa tveir af þeim að minsta kosti staðþekkingu, og einn af þeim er háttv. þm. Suður-Þingeyinga.

Eftir þessu voru á síðasta þingi fallnar burtu þær ástæður, er sýslunefndin hafði, er hún neitaði sölunni; annað mál er það, að enn vantar samþykki sýslunefndarinnar fyrir sölunni, og verð jeg að álíta það töluverðan galla. Og þar sem þingið hefur sett lög, er heimila að fleygja burtu jarðeignum landsins, aðeins ef það sje gert eftir vissum reglum, þá sje jeg ekki, hversvegna þessi jörð á að vera undanskilin, þar sem ástæður sýslunefndarinnar eru fallnar niður.

Þá er að líta á það, hvort sjera Halldór hafi rjett til að fá jörðina keypta, hafi löglegan ábúðarrjett á jörðinni, og verð jeg að álíta, að hann hafi það eftir 4. gr, prestalaunalaganna, því þó sjera Halldór Björnsson við sameiningu brauðanna flytji að Skinnastöðum, þá sviftir það hann ekki rjetti til ábúðar á Presthólum. Hjer er mest komið undir samkomulagi við hina söfnuðina. Og sjera Halldór getur vitanlega haft bú á Presthólum, þótt hann sitji á Skinnastöðum. Það spillir að vísu fyrir honum, að hann hefur lofað, að flytja að Skinnastað, en nú hefur þessi prestur sagt mjer, að þegar hann fór fram á, að fá að sitja á Presthólum 1—2 ár um leið og hann tók sameiningunni, þá hafi hann ekki þekkt 4. gr. prestalaunalaganna og ákvæði hennar, og er það næsta trúlegt, og þeir, sem þekkja hann, býst jeg við að ætli, að hann hefði ekki sótt um leyfi þetta, ef honum hefðu verið ljós ákvæði þessarar 4. greinar. En hann getur fullnægt þessu loforði, að vera á Skinnastöðum, þó hann hafi ábúð á Presthólum, en það sem gerir það að verkum, að því er hann hefur skýrt mjer frá, að hann vill halda ábúð sinni þar, er að hann er mikill fjárbóndi í Presthólum, en yrði að eyðileggja fjárstofn sinn, ef hann flytti að Skinnastað, með því sú jörð er fjárjörð lítil í samanburði við Presthóla.

Þar sem hinn háttv. framsm. meiri hlutans tók það fram, að þessi maður yrði með þessu umráðamaður fimmjarða, þá tel jeg það enga frágangssök. Það sýnir miklu fremur dugnað og atorku, og duglegir bændur eru hjer því miður svo fáir, og þegar einhver skarar svo fram úr að dugnaði og framkvæmd, er fremur ástæða til að hlynna að því en hitt. Og að það þyrfti á nokkurn hátt að spilla fyrir prestskap hans, skil jeg ekki. Hann gæti miklu fremur gert mönnum greiða, enda er það kunnugt, að hann hefur oft og einatt hjálpað um slægjur á Presthólum.

Svo er því ekki að neita, að þegar litið er á fyrri virðingargerðina á Presthólum, þá sýnist þessi virðing vera undarlega há; sjera Halldór hefur nú búið í Presthólum á milli 20 og 30 ár, og hefur gert þar jarðabætur, þó þær sjeu ekki stórkostlegar fyr en hin síðustu ár, og þetta er meðal annars upplýst af háttv. framsögum. meiri hlutans. Og þessar jarðabætur og húsabyggingar nema, að því sagt er, sem næst 3.000 kr. Eftir eldri virðingargjörðum og öðrum skjölum ætti verð jarðarinnar að vera um 4.000 kr., varla þar yfir, en í síðustu virðingargjörð er hún metin 7.200 kr.; sjeu nú dregnar þar frá jarðabæturnar, er hækka verðmætið um 3.000 kr., þá koma út 4.000 kr. Það er því ljóst, að virðingarmönnunum hefur láðst, að taka tillit til jarðabótanna.

Í brauðamatinu 1854 er Presthólum lýst svo: „Tún þýft og ræktarlítið. Engjar litlar, votlendar og snöggar. Sumarhagar fyrir sauðfje í betra lagi, en litlir fyrir stórgripi. Vetrarbeit fyrir sauðfje í betra lagi. Ber í meðalári 2 kýr, 50 ær, 60 sauði og 4 hesta.“

Og 1899 er jörðinni lýst svo:

„Tún nokkuð stórt, mjög þýft, grasgefið í meðallagi. Engjar snöggar. Framfleytir: 120 ám, 130 sauðum og 60 lömbum, eða 310 fjár. Landsskuld er þá talin 160 alnir eða 76 kr. og 16 aurar“.

Og árið 1908 eru Presthólar ásamt Katastöðum metnir til eftirgjalds á 120 + 30 kr. og eru matsmennirnir Þorst. Þorsteinsson bóndi á Daðastöðum og hreppstjóri í Presthólahreppi og Jón Ingimundsson, bóndi á Brekku, annar þeirra manna, er virðir jörðina nú á 7.200 kr. eða um 3 þús. kr. hærra, en hann virti hana fyrir 3 árum. Annaðhvort er því virðingargerðin út í loftið, eða virðingarmönnunum hefur láðst að draga þær jarðabætur frá verði hennar, er gerðar hafa verið, en það bar þeim að gera samkvæmt lögunum um sölu kirkjujarða.

Það er sagt í matsgerðinni, að 500 fjár hafi verið framfleytt á jörðinni. En þetta er ekki rjett. Ábúandi jarðarinnar hefur, til þess að geta framfleytt þessum fjenaði, orðið að fá sjer slægjur hjá bóndanurn á Núpi. Sjera Halldór hefur sagt mjer sjálfur, að hann hafi ljeð nábúum sínum engjarnar á Presthólum og þar ekki getað heyjað nema 30—40 hesta; svo reitingslegar eru þær. Túnið hefur sjera Halldór bætt mikið og gert veg til sjávar og bygt stóra fjárborg; þess hefði mátt geta í virðingargerðinni.

Þegar þetta er nú athugað, að þær ástæður, er sýslunefndin hafði til synjunar sinnar um sölu jarðarinnar, eru fallnar niður, og þegar það er ennfremur athugað, að kaupbeiðandi hefur nú búið á jörðinni milli 20 og 30 ár og gert þar allmiklar jarðabætur, þá virðist óneitanlega öll sanngirni mæla með því, að hann fái jörðina keypta. Þess má líka geta, að þegar hann átti í hinum alkunnu málaferlum sínum fyrir nokkrum árum, var honum, eins og menn vita, vikið frá prestsskap, var þá 2—3 ár sviftur ábúðarrjetti á jörðinni, og hún niðurnídd á þeim tíma, bæði utan húss og innan og fjekk hann, er hann tók aftur við jörðinni, ekkert álag á hana og ill skil á leigupeningi. Hann getur þá haldið hinu mikla búi sínu á Presthólum, þó að hann sjálfur verði að dvelja á Skinnastað, og auk þess getur hann fengið sjer kapellán, er setið getur á Skinnastað, en hann sjálfur verið á Presthólum. Hann gerir og ráð fyrir, að prestskapur sinn fari að styttast, og þá langar hann til að geta búið áfram búi sínu á Presthólum, þótt hann láti af embætti.