24.08.1912
Efri deild: 35. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

69. mál, prestssetrið Presthólar

Einar Jónsson:

Jeg er í sjálfu sjer ekkert mótfallinn því, að sjera Halldór fái jörðina keypta. Það er eðlilegt, að honum leiki hugur á að fá hana keypta, þar sem hann hefur búið mjög lengi á henni, vegnað þar vel og tekið trygð við hana, og búast má við, að hann viki þangað aftur, ef hann skyldi lifa það, að hætta prestsskap. Jeg vil ekki láta hann gjalda þess, að hann er prestur og verður þess vegna í bili að flytja burtu.

En þar sem undirbúningur sölunnar er gallaður, með því að ekki er fengið samþykki sýslunefndar, og auk þess þykir kaupbeiðanda virðingargerðin óviðunandi, þá virðist mjer rjettast, að láta málið bíða næsta þings, og veita því formlegri undirbúning.

Þess er og að gæta, að þegar hann tók sameiningunni, þá er það gert að skilyrði af veitingarvaldinu, að hann flytji næsta vor að Skinnastað, þar eð það mun álíta, að hinu víðlenda Skinnastaðaprestakalli sje illþjónandi, nema presturinn sitji þar, og hann hefur tekið því skilyrði, og jeg tel sjálfsagt, að hann fullnægi því.

En ef hann af einhverjum orsökum hverfur frá því, að flytja þangað, álít jeg, að hann verði að hætta við sameininguna, eða segja af sjer eða fá leyfi stjórnar og safnaða til að sitja áfram á Presthólum, og þá horfir málið alt öðruvísi við, og þá tel jeg einnig víst, að þingið finni ekkert því til fyrirstöðu, að hann fái jörðina keypta sem fastur og löglegur ábúandi á henni. Þess vegna vil jeg, að málið sje látið bíða næsta þings. Jeg sje ekki, að það sje kaupbeiðanda til skaða. Hann getur undirbúið málið sem fyrst, og fái það löglegan undirbúning, getur hann vitað fyrir fram um úrslitin með nokkurnveginn vissu, og getur þá haldið áfram jarðabótastörfum sínum í von um að fá að njóta þeirra sjálfur, og fengið jörðina svo keypta á lögformlegan hátt.