24.08.1912
Efri deild: 35. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

69. mál, prestssetrið Presthólar

Ráðherra (H. H.) Háttv. 4. kgk. þm. gat þess, að óhæfa væri að reka mál þetta nú gegn um þingið með geysihraða og afbrigðum frá þingsköpum og studdi mál sitt þeim rökum, að biskup væri nú á visitasíuför fyrir norðan, og eigi hlýddi annað en að bíða umsagnar hans og álita á þessu máli. Út af þessum ummælum hins háttv. þingm., tel jeg mjer skylt að geta þess, háttv. deild til leiðbeiningar, að biskup hefur gert mjer boð um, að honum þætti nauðsyn á, að kaupbeiðanda yrði seld jörðin, og að hann legði það til, að svo yrði gert. Honum hefur þó ekki þótt þörf á að gera grein fyrir ástæðunum að þessu skriflega, en talið það nægilegt, að skrifstofa hans ljeti mig vita, að hann væri málinu ekki mótfallinn, og hann hefur auðvitað ætlazt til þess, að þingið væri látið vita um þessa afstöðu hans til málsúrslita.