22.08.1912
Efri deild: 32. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

18. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Ágúst Flygenring:

Háttv. framsm. tók það rjettilega fram, að jeg væri á móti þessu frumv.; það hef jeg altaf verið og mig furðar ekki á því, þótt háttv. frsm. vefðist nokkuð tunga um tönn, þegar hann var að reyna að færa ástæðu fyrir ekki sanngjarnara en frumv. er; mjer heyrðist líka háttv. flutnm. í Nd. ekki veitast sem ljettast, að færa rök fyrir því. Í sem fæstum orðum sagt er frumv. óhugsað rugl, sem enginn skilur neitt í, og stefnir út í hreina óvissu. Það eina, sem er víst eftir frumv., er að ráðherra á að fá 1.000 kr. eftirlaun, og ekki meira hvernig sem á stendur; verður hann sannarlega ekki öfundsverður af því, er tekið er tillit til þess, hve laun ráðherra eru lág nú.

Ef að svo kynni að bera undir, að maður, sem er atvinnurekandi, yrði ráðherra — gjörum ráð fyrir dugandi manni og langri þjónustu — og yrði þá líklega að láta af atvinnu sinni, þá sjá allir, hve órjettlátt er, að slíkur maður yrði svo miklu harðar úti en t. d. embættismaður, sem tæki við embætti sínu aftur; enda er jeg þess fullviss, að það sje ekki vilji þjóðarinnar, að ráðherrarnir sæti tiltölulega verri launakostum en aðrir starfsmenn landsins.

Annars vil jeg geta þess, að aðalástæðan frá mínu sjónarmiði, sem gerir þetta frumv. öldungis óaðgengilegt, er sú, að um leið og nokkuð er hróflað við þessu eftirlaunaspursmáli, þá verður að breyta ráðherralaununum samkvæmt því. Í þessu tilfelli að hækka þau að því skapi, sem eftirlaunin eru færð niður.