20.07.1912
Efri deild: 5. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

20. mál, vatnsveita á Sauðárkróki

Jósef Björnssou, (flutningsmaður):

Jeg skal leyfa mjer að fara nokkrum orðum um tildrögin til þessa frumv.

Á síðari árum hefur taugaveiki gert töluvert vart við sig á Sauðárkróki, og þaðan breiðzt út um sveitirnar nyrðra. Þegar farið var að rannsaka, hverjar orsakir mundu vera til þessa, komust hjeraðslæknarnir að þeirri niðurstöðu, að þær mundu vera bæði oflítið vatn og slæmt vatn (neyzluvatn). Afleiðingin af þessu áliti læknanna varð sú, að Sauðárkróksbúar fóru að íhuga, með hverju móti mætti ráða bót á þessum vandkvæðum. Á fundi, sem haldinn var í kaupstaðnum 15. des. f. á., var samþykt, að reyna að koma á vatnsveitu, til þess að bærinn fengi hollt og gott og nægilegt neyzluvatn. — Það má heita svo, að eina vatnsbólið í bænum sje dálítil lind, sem kemur fram úr melunum fyrir ofan bæinn og rennur um hann miðjan, og það er ekki hægt að fyrirbyggja, að als konar óhreinindi falli í það. Því er ekki heldur að heilsa, að vatnið sje nægilegt. Það hefur t. d. þornað upp í sumar, nema ein ofurlítil vatnsæð.

Á þessum fundi, er jeg gat um áðan, var kosin nefnd í málið til að hrinda því í framkvæmd. Hún tók þegar í stað til starfa, útvegaði áætlanir um kostnað við fyrirtækið, fjekk ábyrgð sveitarsjóðs og sýslusjóðs fyrir láni til fyrirtækisins og tók lánið. Ljet hún, að því fengnu, byrja á verkinu, og henni hefur miðað svo vel áfram með verkið, að nú fyrir hálfum mánuði var búið að grafa mikið fyrir pípum og gera vatnsþró. Vatnið er sótt alllanga leið að, upp í háls fyrir ofan bæinn. Lánsupphæðin, sem tekin var, mun vera 12 þúsund krónur, sem sýslufjelagið ábyrgist. En nú er bænum nauðsynlegt, að geta lagt skatt á neytendur vatnsins. Þetta frumv. er fram komið, til þess að hægt sje að gera slíkt. Það er, eins og það liggur fyrir, að mestu leyti samið af hjeraðslækninum á Sauðárkróki; aðeins örlitlar breytingar verið gerðar á því, eins og hann gekk frá því. Það er sniðið eftir lögum um vatnsveitu í Reykjavík 22. nóv. 1907, en er þó ekki fyllilega eins. Um frágang frumvarpsins skal jeg taka það fram, að það væri rjettast, að athuga hann og kjósa nefnd í málið. Það ætti ekki að eyða löngum tíma fyrir þinginu nje tefja fyrir framgangi málsins. Jeg skal geta þess, að hjer liggja fyrir þinginu „útdráttur úr sveitabók fyrir hreppsnefndina í Sauðárkrókshreppi“ og brjef um málið frá hjeraðslækninum á Sauðárkróki til þingmanna Skagfirðinga.

Að svo mæltu, leyfi jeg mjer að leggja til, að 3 manna nefnd sje sett í málið, að þessari 1. umr. lokinni.