22.07.1912
Efri deild: 6. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

33. mál, skipun læknishéraða

Þórarinn Jónsson:

Það mætti virðast fram komið af hreppa- eða sýslupólitík, ef jeg hallaðist á móti þessu frumv., af því það klípur af læknishjeraði, sem liggur í Húnavs., en svo er þó engan veginn, enda tel jeg sjálfsagt, að Staðarhreppingar, sem þarna eiga hlut að máli, mundu telja það mikinn hag, ef þeir þyrftu ekki lengra læknis að vitja en á Borðeyri. En það er af öðrum ástæðum, sem jeg er á móti frumv. Jeg álit mjög varlega farandi í, að stofna þessi smáu læknishjeruð, nema þar sem staðhættir eru svo, að lítt hægt eða ókleyft er að ná til læknis, þegar örðugast er yfirferðar, og eru það þá aðallega örðugir fjallvegir, sem þar koma til greina. Jeg óttast, að um þessi örsmáu læknishjeruð, sem ekki eru stærri, og vart eins stór, eins og sum yfirsetukvennaumdæmi, sækji læknar ekki, enda hefur reynslan sýnt, að þau standa auð, jafnframt sem þetta fjölgar embættum og eykur kostnað.

Hvað erfiðleikana snertir að þjóna þessu Miðfjarðarhjeraði, þá geta þeir ekki komið til greina. Blönduósshjerað hefur nú um 2.350 manns. Leiðin á hjeraðsenda út og suður frá Blönduósi er óhætt að segja að sje 8—10 tíma ferð hvora leið, þó ekki sje svo ilt yfirferðar sem verst getur orðið. Miðfjarðarhjerað hefur um 2.200 manns eða lítið eitt færra en Blönduósshjerað. Lengsta leið þar er af Hvammstanga og í Bæjarhreppinn norðan til, en ekki hygg jeg sú leið taki meira en 5—6 tíma, einkum síðan ferjustaður varð áreiðanlegur á Gilsstöðum á móti Borðeyri. Það má því óhætt fullyrða að Miðfjarðarhjerað sje betra yfirferðar, og hægara en Blönduósshjerað, og hefur þó aldrei verið kvartað um erfiðleika þar. Ef nú að þetta nýja hjerað, Borðeyrarhjerað, myndast, geta ekki orðið í því nema um 500 manns, og sjá allir, hve fráleitt það er, og jafnframt því sem það gerir Miðfjarðarhjerað óálitlegra.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta að þessu sinni, þar sem jeg þykist vita, að nefnd verði skipuð í málið: en geta vil jeg þess þó að lokum, að ef að Bæjarhreppsmenn vildu sameina sig Steingrímsfjarðarhjeraði eða öðru hjeraði, þarf engin sjerstök lög um það, þar sem um væri að ræða aðeins að breyta takmörkum hjeraðanna, sem stjórnarráðið samkvæmt lögum getur gert eftir tillögum sýslunefnda.