22.07.1912
Efri deild: 6. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

33. mál, skipun læknishéraða

Jósef Björnsson:

Mjer virðist kostnaður sá, sem leiðir af fjölgun læknishjeraða, vera ærin ástæða til að vera mótfallinn því, að þetta nýja læknishjerað verði stofnað og ný læknishjeruð yfirleitt. Fjárhagur landsins er ekki svo góður, að ekki sje fylsta ástæða til að varast gjöld, sem hjá verður komizt. En hjer kemur þó fleira til athugunar, því þegar um þetta mál og önnur lík er að ræða, þá koma til athugunar tvær hliðar. Fyrst það, hve mikil þörf sje á lækni. Það er eðlilegt, að fólk vilji ná í lækni, er við þarf, og með sem þægilegustu móti. En víða er nú mjög örðugt, að ná til læknis. En jafnframt þessu ber að athuga, hvað af því leiðir, ef læknishjeruðin verða mjög smá, af því þeim er skift í sundur. Þá verða þau mjög fólksfá. Afleiðing þess verður aptur sú, að læknir í fámennu hjeraði fær litla æfingu, og það er því víst, að hann getur ekki orðið eins nýtur læknir. Er þá hyggilegt, að fara svona langt í sundurskiftingu hjeraðanna og hætta á, að læknar verði lakari sökum mannfæðar og vöntunar á æfingu? — Jeg segi nei, því mest er um það vert, að eiga kost á góðum lækni, þótt lengra þurfi að sækja hann. Um þetta hjerað má segja, að það sje mannfátt og vegalengdir ekki tiltakanlegar. T. d. mun það vera vel kleyft, að sækja lækni úr innparti Bæjarhrepps að Hvammstanga, alt út að Bæ, þó inn fyrir Hrútafjörð þurfi að fara. Þetta fyrirhugaða hjerað er svo lítið, að eigi mun hyggilegt að stofna það, þó maður líti ekki á kostnaðaraukann. Á hinn bóginn er hægt, að koma þessu máli fyrir á annann hátt, eins og flutnm. tók fram.

Jeg get ekki sjeð, að læknirinn þurfi endilega að sitja á Hvammstanga, þareð læknisaðsetur mun vera hentugra á öðrum stað.

Af þessum tveim ástæðum er jeg málinu mótfallinn; vegna kostnaðarins og af því jeg tel hjer læknishjeruðum of mikið skift, þótt jeg sje því ekki mótfallinn, að málið gangi til 2. umr. og nefnd sje sett til að athuga það.