22.07.1912
Efri deild: 6. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

33. mál, skipun læknishéraða

Guðjón Guðlaugsson (flutnm.):

Jeg ætla ekki að tala hjer langt mál og ekki heldur að flytja mótmæli gegn síðasta ræðumanni. Það er rjett; það er ilt að hafa læknishjeruðin mörg og lítil. En nú er jeg einmitt sannfærður um, að sá læknir, sem situr á Borðeyri, hann fær meiri æfingu, heldur en læknir á Hvammstanga. Að Borðeyri sækja menn kaupstað framan úr Miðfjarðardölum; þangað er styttra að sækja en til Hvammstanga. Margir hafa þar föst verzlunarviðskifti. Þó gerir þetta minna, meðan sami kaupmaður er á báðum stöðunum. En færi svo, að hann legði niður verzlunina á Hvammstanga, eins og haft var á orði fyrir nokkrum árum, þá mundi aðsóknin að Borðeyri aukast að mun, og læknirinn yrði þar betur settur. Það er nú einu sinni þannig, að læknarnir eru meira sóttir, þegar þeir eru í kaupstöðunum. En það getur aldrei komið til mála, að gera samsteypu við Steingrímsfjarðarhjerað. Það er fullörðugt, að hafa Óspakseyrarhrepp með því, hvað þá Bæjarhrepp. En jeg veit, að annað úrræði verður frekar tekið, og það verður ekki til að auka æfingu læknisins á Hvammstanga. Því Bæjarhreppur skal úr því hjeraði innan fárra ára, hvað sem tautar.