27.07.1912
Efri deild: 10. fundur, 23. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

50. mál, nýtt læknishérað í Norður-Múlasýslu

Einar Jónasson (flutnm.):

Jeg hef leyft mjer að koma fram með þetta frumvarp, en hikandi þó, því að jeg veit vel, hve fjárhagur landsins er örðugur um þessar mundir, og jeg vil hlífast við, að baka honum ný og aukin útgjöld. En það, sem veldur því, að jeg hef komið fram með þetta frumvarp, er það, að jeg sje, að það eru komin fram frumvörp í báðum deildum um stofnun nýrra læknishjeraða, þar sem eigi virðist meiri þörf á lækni en í því hjeraði, er þetta frv. ræðir um, og vildi jeg, að það gæti þá einnig komið til álita. Jeg ætlast til þess, að það verði athugað í sambandi við hin frumvörpin, og jeg býst við, að þingið velji svo úr þau hjeruð, þar sem læknisþörfin er brýnust, ef það annars sjer sjer fært, að taka upp nokkur ný læknishjeruð.

Að því er læknisþörfina snertir, hygg jeg, að það hjerað, er hjer ræðir um, standi mjög framarlega í flokki. Þessi hreppur, Borgarfjarðarhreppur, er hjer er talað um að gera að sjerstöku hjeraði, er partur úr Hróarstunguhjeraði. Á milli hans og Hróarstunguhjeraðs er hár fjallgarður, sem er mjög erfiður yfirferðar á vetrum. Lækninum í Hróarstunguhjeraði er ákveðinn bústaður við mitt Lagarfljót. Þangað er 7 tíma reið á sumrin frá Bakkagerði, og úr Víkunum sunnan megin Borgarfjarðar er það 2—4 tímum lengra. Jeg get eigi sagt um, hve vegalengdin er mikil að máli, svo að jeg verð að miða hana við tímann, sem tekur að fara hana með sæmilegri ferð. Á vetrum er þessi vegur miklu seinfarnari. Þegar sækja á lækni á vetrum úr Borgarfjarðarhreppi upp í Hróarstunguhjerað, verður venjulega fyrst að fara yfir svonefndar Skriður til Njarðvíkur og þaðan yfir svonefnd Gönguskörð, sem eru tíðum ill yfirferðar sökum snjóþyngsla. Sjóleiðin má segja, að ekki sje hægt að sækja lækni. Enn er það, að hestfátt er í þessari sveit, og einstökum mönnum því kostnaðarsamara að ná lækni, þar sem þeir þurfa, að fá hesta lánaða, þegar þeim verður við komið. Á vetrum verður hestum oftast ekki við komið á umræddri leið yfir fjallið, svo að læknirinn verður að ganga yfir fjallið, og ærið oft verður hann að ganga mikinn hluta leiðarinnar, eða hana alla. En ofan á þetta bætist það, að læknirinn í Hróarstunguhjeraði hefur ekki setið þar, sem honum var ætlað að sitja, og það hefur munað um 2 stundir fyrir Borgfirðinga, sem þeir hafa orðið að vitja hans lengra fyrir það. Það er ekki heldur því að hrósa, að hægt sé um hönd, að vitja lækna í nágrannahjeruðunum. Læknirinn á Seyðisfirði hefur sjúkrahúss að gæta og á því oft ekki heimangengt. Auk þess er til hans að sækja yfir 2 illfæra fjallgarða. Enn er það, að Hróarstunguhjerað er annað slagið læknislaust. Þá verður að vitja læknisins upp að Brekku í Fljótsdal og er það 7 tíma viðbætir á sumri við þá ferð, er jeg skýrði frá áðan. Af þessu má segja svo, að Borgarfjörður sje sama sem læknislaus, ef bráðlega þarf að vitja læknis. Það er ekki því að heilsa, að sími sje til hægðarauka, svo að hægt sje að gera ráðstafanir til, að læknirinn komi á móti þeim, er sækir hann. Þess má og geta, að læknunum í Hróarstunguhjeraði hefur alt af þótt Borgarfjörður versti agnúinn á því umdæmi, og þótt erfitt að fara þangað gangandi í snjóum og ófærð á vetrum, og það hefur að líkindum valdið nokkru um, hve óspakir þeir hafa verið þar.

Mannfjöldinn í því hjeraði, sem hjer er farið fram á að stofna, er að vísu lítill, eitthvað 460 manns. En á sumrum er þar fleira fólk. Þá stunda Færeyingar og Sunnlendingar þar fiskiveiðar.

Þá má og geta þess, að Loðmundarfjarðarhreppur liggur þar nærri, og væri íbúum hans eins hægt að sækja lækni til Borgarfjarðar og til Seyðisfjarðar, og gæti Loðmundarfjörður því eins vel fylgt Borgararfirði. að því er læknir snertir. En jeg býst við, að sá hreppur mundi þó fremur kjósa að fylgja Seyðisfirði, því að hann hefur verzlun og viðskifti þar. Mannfjöldinn er, sem sagt, lítill, og aukatekjur mundu verða litlar. En samt sem áður er nauðsynin á lækni mjög brýn.

Þá er enn eitt, sem vert er að athuga, og það er það, að ef læknir kæmi í Borgarfjörð og Hróarstunguhjerað stæði autt, væri miklu hægra fyrir ytri hluta þessa síðarnefnda hjeraðs meðfram austursíðunni, að vitja læknis þangað, en upp að Brekku í Fljótsdal.

Jeg býst ekki við því, að þessi 4 nýju læknishjeruð, sem farið er fram á að stofna hjer á þinginu nú, verði öll samþykt. En jeg vona, að háttv. deild geri frv. mínu svo hátt undir höfði, að hún leyfi því að ganga til nefndar. Og leyfi mjer að stinga upp á, að málinu verði vísað til þeirrar nefndar, er kosin var til að íhuga frumvarpið um stofnun læknishjeraðs í Hrútafirði.